Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir viðræður langt komnar milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun Borgarlínu. Niðurstöðu sé að vænta 15. nóvember.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir viðræður langt komnar milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun Borgarlínu. Niðurstöðu sé að vænta 15. nóvember. Samkomulagið sé forsenda Borgarlínu. „Við erum spennt að sjá niðurstöðuna enda er skipulagsvinnan komin af stað. Það sem er kannski komið lengst í skipulagsvinnunni er Vogabyggðin og Ártúnshöfðinn. Síðan er ætlunin að gera rammaskipulag fyrir allan legginn í heild sinni, frá Hlemmi og upp að Ártúnshöfða,“ segir Sigurborg Ósk.

Uppbyggingin skoðuð í heild

Hún segir aðspurð að með rammaskipulaginu sé verið að skoða Borgarlínu og hvernig hún birtist m.a. í gatnakerfinu, á gatnamótum og biðstöðvum. Tekið sé tillit til þeirrar uppbyggingar sem verður meðfram þróunarás Borgarlínu. „Þá sjáum við allt byggingarmagn, íbúðir, atvinnuhúsnæði, og allan pakkann. Því að Borgarlínan er að sjálfsögðu húsnæðisverkefni líka,“ segir Sigurborg Ósk.

Hún segir áformað að þétta byggð meðfram þróunarásnum. Þar með talið séu hugmyndir um þéttingu í Hátúni og á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Hún segir raunhæft að rammaskipulagið verði tilbúið í vor. Ætlunin sé að hefja framkvæmdir við Borgarlínu árið 2020.

Brúin hluti af áformunum

Núverandi áform gera ráð fyrir að Borgarlína liggi yfir nýja brú yfir Elliðaár. Spurð um brúargerðina segir Sigurborg Ósk ljóst að brúin sé hluti af áformunum. Skoðaðar hafi verið nokkrar útfærslur.

Hún segir teiknistofuna Tröð hafa sýnt fram á margvíslega möguleika til að þétta byggð meðfram þróunarás Borgarlínu.

„Við sjáum marga þéttingarmöguleika og mun meira byggingarmagn á leiðinni en menn gerðu sér almennt grein fyrir í upphafi,“ segir Sigurborg Ósk.