— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sunna Elvíra Þorkelsdóttir komst í fréttir í byrjun árs þegar hún féll á milli hæða á heimili sínu á Spáni 19. janúar. Hún lamaðist í slysinu og mun aldrei geta gengið aftur.

Sunna Elvíra Þorkelsdóttir komst í fréttir í byrjun árs þegar hún féll á milli hæða á heimili sínu á Spáni 19. janúar. Hún lamaðist í slysinu og mun aldrei geta gengið aftur. Í viðtali við Mörtu Maríu Jónasdóttur ræðir hún um líf sitt í nýjum aðstæðum og hvernig hún tókst á við áfallið. Marta María | mm@mbl.is

Sunna Elvíra, sem er 31 árs, býr í sérútbúinni íbúð fyrir fatlaða í 108 Reykjavík ásamt dóttur sinni, en hún skildi við eiginmann sinn, Sigurð Kristinsson, í maí. Þá höfðu þau verið saman í rúmlega fimm ár.

„Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini og urðum strax hrifin hvort af öðru. Við vorum góðir vinir og sambandið var gott framan af,“ segir Sunna Elvíra og bætir við:

„Við vorum búin að vera úti í tæpa þrjá mánuði þegar ósköpin dundu yfir. Við vorum bara að koma okkur fyrir og aðlagast nýju umhverfi. Koma dóttur minni á leikskóla og finna út úr lífinu í nýju landi. Ég hef alltaf verið mjög meðvirk í samskiptum mínum við karlmenn án þess að gera mér grein fyrir því fyrr en eftir á,“ segir hún.

Hvað gerðist þennan örlagaríka dag 19. janúar?

„Ég man ekki hvað gerðist þennan dag og ekki dagana í kringum slysið. Fyrstu vikurnar á spítalanum á Spáni eru í móðu. Þegar ég áttaði mig á því hvað gerst hafði ákvað ég að vera bjartsýn og jákvæð og reyna að gera sem best úr þessum aðstæðum. Ég hef alltaf verið jákvæð og frekar bjartsýn með gott jafnaðargeð. Ég hef yfirleitt tekið hlutunum eins og þeir eru og gert það besta með það sem ég hef að vinna með hverju sinni,“ segir hún.

Eftir að hún lenti í slysinu tók við átakanlegur tími sem í raun sér ekki enn fyrir endann á þrátt fyrir að hún geri sitt besta í þessum aðstæðum.

„Þetta er búið að vera langt og strangt ferli en ég ákvað strax þegar ég vissi hver staðan væri, að ég væri lömuð, að líta ekki í baksýnisspegilinn. Ég yrði bara að læra að lifa með lömuninni. En það hefur ekki verið auðvelt. Ég hef upplifað allan tilfinningaskalann. Að mestu hef ég reynt að halda í jákvæðnina og vera bjartsýn. Ég fékk aldrei neina staðfestingu á því hversu slæmt ástandið væri fyrr en ég kom heim til Íslands og læknarnir á Grensási mátu skaðann. Þá var mér tjáð að þetta væri alskaði, þetta væri þverlömun. Ég er lömuð fyrir neðan brjóst. Þótt ég hefði verið búin að gera mér grein fyrir þessu allan tímann meðan ég var úti, þar sem ég gat mig hvergi hreyft og var ekki með tilfinningu í fótunum, var það sjokk að fá staðfest að ég gæti aldrei gengið framar. Ég grét þegar læknarnir á Grensási sögðu mér hvernig staðan væri,“ segir Sunna Elvíra.

Hún dvaldi í 12 vikur á spítala á Spáni, bæði í Malaga og í Sevilla, og þegar við ræðum þann tíma segir Sunna Elvíra að þessi tími sé þokukenndur eins og margt annað í þessu ferli.

„Þessi tími er svolítið í móðu hjá mér. Ég skil samt ekki hvernig ég komst í gegnum þetta. En undir lokin fékk ég taugaáfall á spítalanum. Þá gjörsamlega brotnaði ég niður, það var enginn sérstakur aðdragandi, það bara þyrmdi yfir mig, mér sortnaði fyrir augunum og ég gat ekki dregið andann. Mér fannst ég vera að kafna og það spratt fram kaldur sviti. Mér leið eins og ég væri að deyja. Svo á endanum kom læknir inn og ég var sprautuð niður,“ segir hún og er þá að lýsa atviki sem gerðist á spítalanum í Malaga þar sem hún lá hreyfingarlaus og enginn vissi nákvæmlega hver staðan á henni var. Síðar var hún flutt á sjúkrahús í Sevilla á Spáni.

„Maður fer ósjálfrátt í að reyna að lifa af. Þegar ég lá á sjúkrahúsinu á Malaga í 10 vikur leið mér eins og hreyfingarlaus bíll í bílastæði. Ég var alveg afskiptalaus. Maður fer í ákveðið hugarástand að komast í gegnum hvern dag fyrir sig. Ég fann ekki fyrr en ég var komin til Sevilla hvað það að komast á fætur og komast í hjólastól gerði mér gott. Í Sevilla máttum við fara út á laugardögum og sunnudögum. Mamma mín var með mér allan tímann úti og þegar hún fór með mig í göngutúr í Sevilla sá ég spegilmynd mína í fyrsta skipti. Það var rosalega skrýtið og ég hugsaði með mér: „Núna er þetta ég.“ Þetta er sterk minning að sjá spegilmynd mína í glugganum,“ segir hún.

Hvernig fannst þér að sjá sjálfa þig í hjólastól?

„Það var rosalega skrýtið. Þótt ég hafi strax ákveðið að taka þessu með jafnaðargeði og líta ekki í baksýnisspegilinn hefur þetta verið mikill tilfinningarússíbani. Ég er ennþá að vinna úr áfallinu. Það rennur meira og meira upp fyrir mér hvað þetta er langt og strangt ferli. Mér finnst ég vera komin vel á veg að lifa með þessu. Það að hafa útskrifast svona snemma af Grensási og geta fengið að búa ein með dóttur minni hefur gefið mér mikið. Sjálfstraustið jókst mjög mikið þegar ég fann að ég gæti eldað mat og baðað hana og gert þetta hversdagslega sem fólk gerir. Allt þetta daglega sem manni finnst sjálfsagt. Það eru litlu hlutirnir sem gefa manni mikið og ég er þakklát fyrir það,“ segir Sunna Elvíra.

Á meðan Sunna Elvíra dvaldi á sjúkrahúsi á Spáni var ekki vitað hvort hún væri varanlega lömuð eða ekki.

„Ég átti í mjög góðu sambandi við læknana hér heima á meðan ég var úti. Þeir voru búnir að gera mér ljóst hvernig í pottinn væri búið, en þeir urðu samt að rannsaka mig sjálfir. Bara upp á eigin geðheilsu ákvað ég að leyfa mér ekki að hugsa að þetta væru bara bólgur í kringum mænuna eins og er algengt eftir svona slys sem fara hjaðnandi með tímanum. Ég ákvað að leyfa mér ekki að festa mig of mikið í þeim hugsunum að þetta myndi ganga til baka. Þrátt fyrir að ég hafi innst inni gert mér grein fyrir hvernig væri komið fyrir mér var það áfall að fá þetta staðfest,“ segir Sunna Elvíra.

Lærir eitthvað nýtt á hverjum degi

Hún kom heim til Íslands 9. apríl og var lögð inn á legudeild Grensás, þar sem hún dvaldi til miðbiks maímánaðar. Þá flutti hún í sérútbúna íbúð fyrir fatlaða. Hún segir að það hafi verið gott að verða sjálfstæð en líka mjög erfitt.

„Við mamma erum mjög nánar og bestu vinkonur. Hún hefur staðið við hliðina á mér eins og klettur og hjálpar mér alla daga. Hún keyrir mig á milli staða og fer til dæmis með dóttur mína á leikskólann á morgnana og sækir hana,“ segir Sunna Elvíra.

„Eftir að ég flutti fór fyrst að reyna á getuna mína. Í dag er ég að læra eitthvað nýtt á hverju degi. Það kemur mér á óvart hvað ég get mikið. Þetta er bara þjálfun og æfing. Ég er í sjúkraþjálfun þrisvar í viku, æfi sund tvisvar í viku og er í einkaþjálfun tvisvar í viku. Íþróttirnar hjálpa mér með andlegu hliðina og líka líkamlega. Ég er mikil A-manneskja sem þrífst best í rútínu. Mér finnst gott að vakna á morgnana og hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir hún.

Fjölmiðlafár

Slys Sunnu Elvíru vakti mikla athygli hérlendis. Þegar hún kom í sjúkraflugi til Íslands í apríl var vélinni lent á öðrum stað en venjulega vegna fjölmiðla. Þegar hún kom á Grensás biðu fjölmiðlar fyrir utan til að mynda hana þegar hún var borin inn á endurhæfingarstöðina. Hún segist finna fyrir því að fólk þekki hana en að hún mæti jákvæðu viðmóti frá fólki.

„Ég áttaði mig ekki alveg á því fyrr en ég var komin hingað heim þótt það hafi verið áreiti frá fjölmiðlum meðan ég var úti. Um leið og ég lenti heima voru mættir ljósmyndarar á Grensás. Ég finn fyrir því að fólk þekkir mig og horfir á mig. Ég brosi bara til fólks og er vingjarnleg. Svo gerist það alveg að fólk gefi sig á tal við mig og talar fallega til mín. Mér þykir bara vænt um það.“

Sunna Elvíra lærði lögfræði í Háskólanum í Reykjavík og tók meistarapróf þaðan og í Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Með námi starfaði hún hjá Momentum en fór svo að vinna hjá Inkasso eftir útskrift. Hún segir að óskastaðan væri að geta farið að vinna sem fyrst.

„Í sumar var ég í sumarfríi með dóttur minni í fjórar viku og var orðin mjög óþreyjufull að fara að gera eitthvað. Ég var komin með nóg af því að vera í fríi, var staðráðin í að taka annan master, ætlaði að demba mér í fullt nám strax í haust. Bara af því að ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni en svo hugsaði ég málið aðeins betur, sem betur fer, og ákvað að taka mér tíma í endurhæfinguna. Því það er svo mikið áfall að vera orðin lömuð frá brjósti og vera bundin í hjólastól. Að þurfa að læra á lífið alveg upp á nýtt. Ég ákvað að gefa mér góðan tíma í það. Ófatlað fólk tekur því sem sjálfsögðum hlut að komast í sturtu, fara á klósettið, setjast í sófann og setjast við matarborðið. Þetta eru allt hlutir sem ég hef þurft að læra og æfa og æfa og æfa. Í dag er þetta ekkert mál en fyrst var þetta óyfirstíganlegt,“ segir Sunna Elvíra.

Hefur þú fengið einhverja andlega hjálp?

„Ég hef verið hjá sálfræðingi sem hefur hjálpað mér rosalega mikið. Ég er með mikla áfallastreitu. Fyrst þegar ég kom á Grensás var ég látin taka próf, tékklista, þar voru ákveðin atriði nefnd sem ég átti að haka við. Ég gat hakað við hvert einasta atriði á listanum. Af því að ég hafði ekki fengið neina aðstoð þarna úti. Það var ekkert þannig í boði á spítalanum á Spáni,“ segir hún.

Sunna Elvíra talar mikið um þakklætið. Hún er til dæmis mjög þakklát fyrir að hafa lifað slysið af og líka þakklát fyrir að hafa mátt í höndunum eða fyrir ofan brjóst. Spurð hvort hún hafi ekki verið þakklát áður segist hún hafa tekið lífinu sem sjálfsögðum hlut.

„Veistu, ég held að fólk taki lífinu sem sjálfsögðum hlut. Það spáir enginn ófatlaður í það hvað það eru mikil forréttindi að koma upp í rúm án hjálpar og geta séð um sig,“ segir hún.

Varð að gera hlutina sjálf

Sunna Elvíra og Sigurður skildu í maí. Hún segir að skrefin hafi verið þung en jafnframt hafi ekki verið neitt annað í stöðunni.

„Ég leit á það sem tækifæri til að fá að hefja nýtt líf og hef spurt mig spurninga á þá leið hvað ég vilji fá út úr þessu nýja lífi. Ég þurfti að ákveða hvað ég vil og hvað ég vil ekki. Ég vil halda áfram með líf mitt á mínum forsendum og vera besta útgáfan af sjálfri mér. Mér finnst ég vera að nálgast það markmið. Eins erfitt og þetta er búið að vera hefur þetta á sama tíma gefið mér mjög mikið því ég hef fengið tækifæri til að vinna meira í sjálfri mér,“ segir hún.

Spurð um skilnaðinn segir hún að það hafi ekki komið neitt annað til greina en að fara í sitthvora áttina og að það hafi verið sameiginleg ákvörðun.

„Það lá ljóst fyrir að við yrðum að skilja, en þetta voru þung skref inn á skrifstofu sýslumanns því það er erfitt að skilja. Við vorum búin að vera saman í fimm ár og eigum dóttur saman. Þetta voru ákveðin kaflaskil. Ég ákvað eiginlega fljótlega eftir slysið að ég yrði að setja sjálfa mig í fyrsta sæti, minn bata og mína endurhæfingu. Fyrir mitt leyti var betra fyrir mig að ganga í gegnum þetta ein svona eftir á að hyggja.“

Ertu reið út í fyrrverandi maka?

„Eins og mér líður í dag þá óska ég honum alls hins besta og vona að hann hafi það gott. Ég er búin að losa mig við alla gremju og búin að ganga í gegnum allan tilfinningaskalann. Vigfús sjúkrahúsprestur sagði við mig að það væri eðlilegt að eiga slæma daga og það væri í lagi að gráta og losa tilfinningarnar út. Og svo líður mér betur daginn eftir. Það er mannlegt að eiga sína góðu og sína slæmu daga. Góðu dagarnir eru fleiri en slæmu dagarnir,“ segir hún.

Hvað hefur lífsreynsla síðustu mánaða kennt þér?

„Það að við megum ekki taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Ég hef alltaf verið frekar auðmjúk og verið mjög lánsöm í lífinu. Og ég tel það ekki hafa breyst þrátt fyrir að ég sé lömuð. Ég er þakklát fyrir að vera á góðum stað núna. Ég er komin vel á veg með endurhæfingu mína. Ég er ekki með mikla verki og lít þess vegna ekki á mig sem sjúkling. Þegar ég var á spítalanum var ég mjög verkjuð. Íþróttirnar hjálpa mér mjög mikið að halda verkjunum í skefjum. Rútínan hjálpar mér að hafa lífið í jafnvægi,“ segir hún.

Áður en Sunna Elvíra varð lömuð elskaði hún að ferðast um fjöll og firnindi. Hún gekk á fjöll og elskaði alls kyns útiveru. Núna hefur sundið tekið við en hún æfir það í sundlauginni á Grensási. Þótt hún hafi ekki mátt í fótunum hefur hún náð góðum tökum á sundinu og er orðin mjög sterk í efri hluta líkamans.

„Í dag finnst mér mjög gaman að synda. Það kom mér svo mikið á óvart að ég gæti synt en ég get synt bringusund og baksund og tel mig vera nokkuð góða í því og er að ná að synda á mjög góðum tíma,“ segir hún.

Þú endar kannski á ólympíuleikum fatlaðra?

„Það getur vel verið,“ segir hún og brosir og bætir við:

„Rúnar Björn eldri bróðir minn er líka í hjólastól. Hann slasaðist fyrir 15 árum og er lamaður frá hálsi. Hann hefur stutt við bakið á mér allan tímann, sem er ómetanlegt, og gott að geta leitað í reynslubankann hans. Hann er ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðra og er formaður NPA-miðstöðvarinnar. Hann hefur veitt mér innsýn í þennan heim sem réttindabaráttan er og hvernig víða er pottur brotinn í þessum málaflokki. Við urðum mikið nánari eftir að ég slasaðist, en við erum einu systkinin á Íslandi sem eru bæði mænusködduð. Þá eru einnig einir bræður sem eru mænuskaddaðir,“ segir hún.

Sunna Elvíra þráir að geta verið virkur samfélagsþegn og vill ekki láta líta á sig sem sjúkling. Spurð hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér segist hún vilja byrja að vinna um leið og hún hefur náð nægilega góðu þreki.

„Ég held að góðir hlutir gerist hægt og ég myndi þurfa að byrja að vinna í 50% vinnu því það tekur allt miklu meiri tíma í dag en áður. Bara að klæða mig á morgnana og koma mér út úr húsi tekur óratíma. Ég lít ekki á mig sem öryrkja sem ætlar að sitja heima. Ég ætla mér út á vinnumarkaðinn. Ég hef unnið í einkageiranum en hef áhuga á beita mér fyrir málefnum fatlaðra eða vinna í stjórnsýslunni.“