Guðrún Sigríður Haraldsdóttir fæddist 28. febrúar 1956 á Hvanneyri í Borgarfirði. Hún lést á líknarheimili í London 5. október 2018.

Foreldrar hennar voru Eygló F. Gísladóttir, f. 26.5. 1925, d. 29.6. 2017, og Haraldur Sigurjónsson, f. 24.12. 1916, d. 25.1. 1993. Bræður hennar eru Brynjar Haraldsson, f. 22.5. 1947, og Þórir Haraldsson, f. 3.10. 1953.

Guðrún giftist Ómari Bjarka Smárasyni, f. 16.4. 1950, árið 1974. Þau slitu samvistum. Guðrún eignaðist einn son, Óðin Örn Hilmarsson, f. 2.11. 1989, með Hilmari Erni Hilmarssyni, f. 23.4. 1958. Guðrún bjó og starfaði í London sl. 24 ár.

Útför Guðrúnar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 2. nóvember 2018, klukkan 13.

Kær vinkona, Guðrún Sigríður, hefur kvatt þennan heim. Við kynntumst í London fyrir tæpum 40 árum þegar Gunna Sigga var í listnámi þar. Mér líkaði strax vel við þessa einlægu og hlýju manneskju og með okkur kviknaði vinátta sem hefur haldist æ síðan. Gunna sýndi strax hvers hún var megnug, mikil athafna- og framkvæmdakona sem vílaði ekkert fyrir sér, ekkert verk var of flókið eða erfitt fyrir Gunnu Siggu. Á Lundúnaárunum hjálpaði hún mér við að veggfóðra og teppaleggja heima hjá mér, eitthvað sem ég hélt að væri eingöngu á færi fagfólks. Hún fór sínar eigin leiðir í listsköpun sinni og var frumleg, jafnt með efnivið og verkefni. Gunna Sigga vann með alls kyns efni og form og það var áhugavert að fylgjast með hvernig verk hennar voru í stöðugri þróun allt til hins síðasta. Hún átti líka svo mikið eftir og sem dæmi þá hafði hún verið valin til að sýna verk sín í Hallgrímskirkju í byrjun árs 2019, en hún vann ötullega við að undirbúa þá sýningu upp á síðkastið eftir því sem kraftar hennar leyfðu.

Gunna var mikið á Íslandi undanfarin ár á meðan Eygló móðir hennar lifði og sinnti henni af einurð og kærleika enda voru þær mæðgur mjög nánar.

Það er svo kaldhæðni örlaganna að Gunna greinist með sín veikindi fljótlega eftir að mamma hennar deyr í júlí 2017. Ég er þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman síðastliðið haust þegar ég heimsótti Gunnu í London, þá áttum við saman ljúfa daga, ræddum mikið saman og spáðum í lífið og tilveruna. Lítið vissi maður þá að þetta yrðu okkar síðustu fundir.

Ég minnist góðrar vinkonu sem ég á eftir að sakna sárt, enn sárari er þó missir Óðins Arnar, einkasonar Gunnu Siggu, hans sorg er mikil.

Við Nonni sendum Óðni, bræðrum Gunnu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Gunnu Siggu vinkonu.

Inga Sólnes og

Jón Sigurjónsson.

Síminn hringir; björt klingjandi röddin segir: „Haæ“; dregur örlítið seiminn; brýst svo fram í flóði: „Já, ég er sko komin, vil endilega hitta þig, þarf samt aðeins að hitta þennan, sækja hitt, græja þetta.“ Þegar hér er komið er ég farin að brosa út að eyrum, gríp fram í: „Hurru sæta, græjaðu bara eins og þú getur og komdu svo, ég verð heima.“

Svo kemur hún, brosið geislandi, faðmlagið fast og hlýtt: „Oh, hvað það er gott að sjá þig!“

Er alveg slök, kemur inn og sest – við spjöllum fram á nótt, drekkum smá rauðvín, hlæjum.

Þannig var hún; þó að hún væri alltaf að gera og græja, skapa dásamleg listaverk, sinna syni og aldraðri móður, heimsækja ættingja, var hún slök þegar hún var sest og gaf sér allan tíma í heiminum með sínu fólki, róleg og íhugul, búin að hugsa margt um lífið og tilveruna.

Kátínan, bjartsýnin og lífsgleðin var óþrjótandi. Það var eins og hún væri léttari í spori en annað fólk, væri við það að taka sprettinn, m.a.s. í rólegum gönguferðum; hún gat snúið öllu upp í hið jákvæða, það var henni eðlislægt prinsipp; jafnvel þegar eitthvað bjátaði á gat hún snúið því sér til aukins þroska, reynslu, lærdóms.

En við gátum líka þráttað; hún var ekki eins viss um að lífið væri tilviljun og ég. Ef eitthvað gekk ekki upp eins og best varð á kosið (hvort heldur hjá henni eða mér) og ég var fýld, sagði hún: „Neeii, ég held ekki,“ og dró aðeins seiminn, „ég held að þetta eigi að vera svona“ eða „það kemur til mín/þín, kannski ekki strax, en bráðum.“ Jeminn, hvað ég dáðist að henni.

Í listsköpun sinni var hún ótrúlega fjölhæf og kom alltaf á óvart; hvort sem hún skreytti heila umferðarmiðstöð með verki sem stýrðist af gangi sólar eða vann einkasýningu þar sem runnu saman fortíð og nútíð í formi og efnivið. Listhugsunin var tær og markviss og óvænt. En hún var ekki góð í réttritun og skilaboð gátu komið á öllum tímum sólarhrings: Má ég senda á þig smá? Hún vildi hafa alla hluti í lagi, ekki síður sýningarskrár og texta en verkin sjálf.

Á sama hátt og hún tókst á við lífið, tókst hún á við sjúkdóminn; með lífsvilja, lífsgleði og lífskrafti.

Alltaf spaugsöm en undir lokin ekki alveg eins spræk og fyrr. Þegar ég heimsótti hana fyrir rúmum mánuði vissi hún að hún væri lögð af stað annað. Jafnyndisleg og ætíð spurði hún mig samt frétta af mér og mínum, hlustaði vandlega eins og hennar var vandi, en var samt lögð af stað annað. Mér fannst ég eins og hljómandi málmur og hvellandi bjalla að segja einskisverðar fréttir.

Svo fórum við ásamt Kate vinkonu hennar út í almenningsgarðinn í grenndinni; ég fékk að keyra hjólastólinn að vatninu. Við sátum í þögn; ég fann hvernig hún drakk í sig lífið umhverfis, vatnið, gróðurinn, fuglana, börn að leik. Þegar við komum heim aftur gekk hún óstudd inn, leit svo á mig stríðnislega og sagði: „Sko, þetta er ekkert mál. En gríptu mig ef ég dett.“

Skarðið sem brotthvarf hennar myndar verður aldrei fyllt.

Megi birtan yfir minningunum um hana lýsa Óðni syni hennar og öðrum ættingjum leiðina gegnum sorgina og missinn.

Ingunn Ásdísardóttir.