Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Miðað við gefnar forsendur verður útflutningsverðmætið fyrir afla næsta árs svipað og það var fyrir rúmum áratug.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Miðað við gefnar forsendur verður útflutningsverðmætið fyrir afla næsta árs svipað og það var fyrir rúmum áratug. Þá var makríll að byrja að ganga á Íslandsmið í miklu magni og í kjölfarið hófust kraftmiklar veiðar íslenska flotans á makríl, á sama tíma var að draga mjög úr síldveiðum. Árið 2019 gæti orðið lakasta árið í tekjum uppsjávarfyrirtækja á síðustu tíu árum miðað við verðlag hvers árs.

Svo gæti farið að útflutningsverðmæti afurða uppsjávartegunda minnkaði um hátt í 20 milljarða króna á næsta ári miðað við yfirstandandi ár. Áætlað er að útflutningsverðmæti uppsjávarfisks í ár verði um 47,5 milljarðar, en miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir gæti það orðið um 28,3 milljarðar á næsta ári.

Munar miklu í loðnu og makríl

Í þessum útreikningum er miðað við að afli Íslendinga breytist á sama hátt og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), fyrir næsta ár í makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld og að ekki verði gefinn út loðnukvóti við Ísland í vetur. Miðað er við óbreytt aflahlutfall íslenskra veiðiskipa af heildinni og að aðrar forsendur breytist ekki frá því sem verið hefur í ár.

Í ár er áætlað að útflutningsverðmæti makríls frá Íslandi verði um 17,5 milljarðar króna. Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til í ráðgjöf fyrir næsta ár að makrílaflinn verði rúmlega 40% minni en lagt var til fyrir þetta ár. Samkvæmt því myndi útflutningsverðmæti makrílafurða 2019 dragast saman um sjö milljarða og verða nálægt 10,5 milljörðum.

Í kolmunna er ráðgjöf ICES 18% minni en fyrir þetta ár. Útflutningsverðmæti kolmunna færi samkvæmt því úr átta milljörðum í ár í um 6,8 milljarða á næsta ári. ICES leggur til að heimilt verði að veiða 53% meira af norsk-íslenskri síld heldur en á þessu ári. Það hefði í för með sér að útflutningsverðmæti síldarafurða færi úr 9 milljörðum í 11 á næsta ári.

Umfangsmikill loðnuleiðangur í haust gaf ekki tilefni til að gefa út upphafskvóta í loðnu við Ísland í vetur. Upp úr áramótum verður á ný farið til loðnuleitar, en að óbreyttu verða engar loðnuveiðar í vetur. Í ár er útflutningsverðmæti loðnu áætlað um 13 milljarðar.