[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Ólafsdóttir, fatahönnuður og eigandi iglo+indi, elskar litríka blómakjóla og segir að málið í hausttískunni sé að blanda sparifötum saman við hversdagslegri föt. Marta María | mm@mbl.is

Hvað finnst þér mest spennandi

í hausttískunni?

„Það sem mér finnst spennandi eru að hausttískan er mjög litrík og „shiny“, þar sem verið er að blanda saman sumarmunstrum við þykkari flíkur. Einnig finnst mér skemmtilegt að blanda saman mjög fínum flíkum við meira „casual“ og sportlegar flíkur. Eins og síðir blómakjólar við grófa flauelsjakka og netta kuldaskó eða strigaskó. Fínflauelsdragtir með t-shirt. Köflóttar síðar kápur við gallabuxur, lága hæla og grófa sokka. Mjög stórar úlpur, glansandi áferð og stór logo. Sólgleraugu eru fylgihlutur sem má ekki vanta þó að það sé vetur,“ segir Helga.

Hvað dreymir þig um að

eignast fyrir veturinn?

„Mig dreymir um fallega skó og kápu. Ég er mest í strigaskóm þessa dagana og langar í fína skó með „kitten“-hæl. Ég er pínu kápusjúk og langar alltaf í fallega kápu þegar fer að kólna,“ segir hún.

Uppáhaldsfylgihlutur?

„Það er over-sized Gucci-taska sem ég keypti nýlega. Hún er risastór og ég kem öllu vinnudótinu mínu í hana, þar á meðal gamla og þunga MAC Bookinum mínum.“

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ég var í Antwerpen í Belgíu í síðustu viku og keypti mér tvær peysur og pils í verslun sem heitir Essentiel. Mjög skemmtileg verslun með fullt af litum, munstrum og húmor. Önnur peysan er röndótt, bleik og gulllituð, hin er ljósblá og mjög mjúk, ég á eftir að vera í henni í allan vetur. Dóttir mín sem er sex ára heimtaði að ég keypti pilsið svo hún gæti erft það þegar hún verður stærri. Þetta er „skipti“ palíettupils, sem sagt palíetturnar eru bleikar öðrum megin og dökkbláar hinum megin.“

Tískufyrirmynd?

„Ég á enga eina tískufyrirmynd. Ég vinn við að hanna föt og grúska í tísku daginn út og inn. Mér finnst svo margt fallegt og er eins og kamelljón þegar kemur að tísku. Það er fólk úr ólíkum áttum sem veitir mér innblástur.“