Bragi Bergmann sendi mér línu á netinu, – „Samkeppni úr óvæntri átt“: „Fréttir af fyrirhugaðri klónun hundsins Sáms hafa vakið verðskuldaða athygli. Enn og aftur fetar frú Dorrit ótroðnar slóðir og ryður brautina.

Bragi Bergmann sendi mér línu á netinu, – „Samkeppni úr óvæntri átt“: „Fréttir af fyrirhugaðri klónun hundsins Sáms hafa vakið verðskuldaða athygli. Enn og aftur fetar frú Dorrit ótroðnar slóðir og ryður brautina. Klónun er auðvitað ekkert annað en vísindaleg fjölföldun lífvera og ég sé enga ástæðu til að láta eitt samrit duga ef þú ert ánægð(ur) með frumritið! Sjáum til hvað gerist í næstu lotu; þá gæti Guðni forseti fengið samkeppni úr óvæntri átt:

Í forundran þjóðin mín þagnar,

því næst af einlægni fagnar.

Þó klónun sé dýr

koma senn þrír:

Ólafur Ragnar, Ólafur Ragnar, Ólafur Ragnar!“

Bjarki Karlsson segir frá því á Boðnarmiði að hann hafi farið austur á Hlíðarenda á sunnudag til þess að skoða haug Gunnars. Sér sýndist úr fjarska sem haugurinn stæði opinn. Gunnar sat þar uppi og sá í móti tunglinu. Hann kvað vísu og svo hátt að Bjarki hefði mátt heyra þótt fjær stæði:

Sárt ertu leikinn Sámur fóstri,

sorglegast víg þitt er tjóna.

Skammt verður ugglaust okkar á milli,

aldrei mun Hallgerður mjóna

hyskin og þjófótt úr hári sínu

handa mér bogstrengi prjóna.

Ó, hvað ég vildi að ég væri eins og Dorrit

sem væri þig búin að klóna.

Hjálmar Freysteinsson skrifaði á fésbókarsíðu sína á laugardag:

„Meðan sprettur ull á ám“

og ávextirnir vaxa á trjám,

framþróun margur fagnar.

Erfðatækni er nytsamt nám,

nú er búið að klóna Sám,

en ekki Ólaf Ragnar.

Bjarni Sigtryggsson yrkir á Boðnarmiði:

Á vísindin tóku þau trúna;

með tækni má fjölga sér núna.

En ég veit ef ég spyrði

að vinsælast yrði

að einrækta forsetafrúna.

Og Ragnar Ingi Aðalsteinsson bætir við:

Dorrit kemst sem áður upp með alls kyns hrekki.

Bara hún klóni Ólaf ekki.

Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, fór um árabil í Sandá til laxveiða. Þaðan er þessi vísa runnin:

Eigðu þetta, yndið mitt,

ánni gekk ég nærri;

það er skömm að þessum titt, –

þú hefur séð ‘ann stærri.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is