Skapandi Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er í hópnum IYFAC.
Skapandi Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er í hópnum IYFAC. — Morgunblaðið/Eggert
Myndlistarsýningin Hvít sól verður opnuð á morgun, laugardag, kl.

Myndlistarsýningin Hvít sól verður opnuð á morgun, laugardag, kl. 16 í Skaftfelli á Seyðisfirði en að henni stendur listhópurinn IYFAC sem er skammstöfun fyrir Inspirational Young Female Artist Club, sem þýða mætti sem Klúbb ungra myndlistarkvenna sem veita innblástur. Á sýningunni mun listhópurinn sýna innsetningu sem hann vann sérstaklega fyrir þessa sýningu, að því er segir í tilkynningu.

„Síðustu mánuði hefur hópurinn rannsakað tímann sem hugtak og upplifun og samband manneskjunnar við sólina. Við á norðurhveli jarðar búum við þær öfgar að sólin er ekki áreiðanleg klukka, hún færir okkur þó mjúklega inn í árstíðirnar með öfgakenndri birtu og myrkri. Ef við myndum smíða okkar eigin sólarklukku, hvernig liti hún út og hvað myndi hún mæla?“ segir þar.

Í aðdraganda sýningarinnar kom hópurinn í rannsóknarferð til Seyðisfjarðar í júlí með það að markmiði að upplifa og kortleggja aðstæður um hásumar sem nýtast svo til samanburðar við gerð verksins sem verður til sýnis yfir hávetur, eins og því er lýst. Sýningin er því opnuð tæpu hálfu ári síðar við gjörólíkar aðstæður og stendur yfir til 3. mars 2019.

IYFAC er vinnustofa og umræðuvettvangur um sköpun fyrir félagsmenn sem eru ungar konur og þær sem taka þátt í sýningunni eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Sigrún Hlín Sigurðardóttir.