[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Troels Bendtsen fæddist 2. nóvember 1943 í Reykjavík. Hann var á þriðja degi tekinn í umsjón og ættleiðingu fósturforeldra sinna, hjónanna Þórunnar og Bendt Bendtsen. „Lífmóðir mín, sem kom fram árið 2008, er Dora Christensen frá Kaupmannahöfn.

Troels Bendtsen fæddist 2. nóvember 1943 í Reykjavík. Hann var á þriðja degi tekinn í umsjón og ættleiðingu fósturforeldra sinna, hjónanna Þórunnar og Bendt Bendtsen. „Lífmóðir mín, sem kom fram árið 2008, er Dora Christensen frá Kaupmannahöfn. Hún kom til Íslands ásamt vinkonum sínum til að vinna „i huset“ eins og hún sagði, en varð innlyksa vegna stríðsins og komst fyrst heim til Danmerkur 1945.“

Troels er alinn upp í Vesturbænum, nánar tiltekið í Skjólunum þar sem hann bjó í 55 ár samtals. Troels dvaldi í sveit á sumrin, meðal annars á Grund í Kolbeinsstaðahreppi á Mýrum og í Hvallátrum á Breiðafirði. Hann vann einnig töluvert á Eyrinni við uppskipun og vinnu í vörugeymslum skipafélaganna.

Troels gekk í Gaggó við Hringbraut og síðan í Verslunarskólann og útskrifaðist 1962. „Í skólaleyfum vann ég hjá Vífilfelli og keyrði „kók-bíl“, það þótti mikill heiður.“

Eftir skóla vann Troels í Herrafataverslun P&Ó og öðrum fataverslunum, en hóf að kenna í Iðnskólanum í Reykjavík 1968, síðan í Flensborg og Námsflokkum Hafnarfjarðar ásamt öðrum. Hann hætti kennslu 1985. „Sumarstarf mitt til samtals 19 ára var sem leiðsögumaður við laxveiðiár víða um land og í öllum helstu ám, bæði sem fastráðinn og með eigin hópa.“

Árið 1963 hóf Savannatríóið starfsemi. Tríóið var ein vinsælasta hljómsveit sem hefur komið fram á Íslandi. Hún spilaði hvarvetna fyrir áhorfendur og plötur sveitarinnar seldust í stórum upplögum. „Við vorum saman að spila í fjögur ár, en þá var nóg komið enda lítið framboð í skemmtibransanum á þeim tíma. Árið 1968 var ég beðinn um að setja saman tríó fyrir Leikfélag Reykjavíkur. Beiðnin kom frá Jónasi Árnasyni, en það átti að setja upp leikritið „Þið munið hann Jörund“ í Iðnó. Það gekk síðan í hálft annað leikár.“ Tríóið var Þrjú á palli sem naut sömuleiðis mikilla vinsælda og plötur sveitarinnar seldust vel.

Troels stofnaði sitt eigið fyrirtæki 1985 og hefur rekið umboðsverslun síðan. „Meginviðskiptasambönd mín hafa verið við Ítalíu og í byrjun voru fyrirtæki þar ekki svo umsetin og því nokkuð auðvelt að finna og vinna fyrir bestu fyrirtækin í þeim greinum sem ég sótti í. Þetta gaf tilefni til viðskipta- og einkaferða. Síðan hefur landið verið okkur hjónum nánast draumaland.“

Troels vann hjá Sjónvarpinu og NDR (Nord Deutsche Rundfunk) við tökur á Brekkukotsannál og síðar Paradísarheimt. „Ég hef verið áhugaljósmyndari frá því í æsku og hef m.a. haldið ljósmyndasýningu í Norræna húsinu árið 1978, með myndum frá töku Brekkukotsannáls svo og fjörumyndum ú Skjólunum. Það tókst að selja allar myndirnar. Fyrir 12 árum eignuðumst við hjónin, í samvinnu við mág minn og mágkonu, lítið sveitasetur í Danmörku, nánar tiltekið nálægt Maribo á Lálandi. Þetta er gamalt og dæmigert hús með stráþaki og byggt ca. 1854, en að sjálfsögðu mikið endurnýjað innanhúss.“ Þar dvelur Troels núna á afmælinu.

Fjölskylda

Eiginkona Troels er Björg Sigurðardóttir, f. 23.9. 1944, læknaritari. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Kristjánsson, f. 25.12. 1912, d. 13.7. 2013, tæknifræðingur og yfirkennari við Iðnskólann í Reykjavík, og Mia Ruth Kristjánsson, f. 28.11. 1918, d. 10.9. 1974, húsmóðir.

Börn Troels og Bjargar eru: 1) Kjartan Jóhannsson Bendtsen, f. 31.12. 1970, starfsmaður hjá Origo, bús. á Seltjarnarnesi, eiginkona hans er Ásdís Grétarsdóttir og börn þeirra eru Tumi, Troels yngri og Teitur; 2) Ómar Bendtsen, f. 1.8. 1972, starfsmaður Isavia, bús. í Hafnarfirði. Sambýliskona hans er Elín Ósk Guðmundsdóttir og börn þeirra eru Ása Björg og Auður Mía; 3) Búi Bendtsen, f. 10.3. 1979, starfsmaður á Hótel Laxnesi, bús. í Reykjavík. Sambýliskona hans er Anna Maja Albertsdóttir og börn hans eru Alexander og Elísabet.

Uppeldissystir Troels er Berglind Ingibjörg Bendtsen, f. 4.4. 1951, húsmóðir í Kópavogi.

Fósturforeldrar Troels voru hjónin Þórunn Búadóttir, f. 25.5. 1915, d. 27.10. 1964, húsmóðir í Reykjavík, og Bendt Bendtsen, f. 14.12. 1906, d. 4.11. 1998, verslunarmaður í Reykjavík.

Hálfsystkini Troels sammæðra eru Benny Brennan, f. 1942, altmuligt-maður og rak m.a. dráttarbátafyrirtæki, bús. í Dragör, og Annette Gade, f. um 1950, endurskoðandi í Kaupmannahöfn.

Móðir Troels var Dora Christensen, f. 1920, d. 2016, húsmóðir í Kaupmannahöfn.