Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Atvikið þegar 13 kindur, níu ær og fjögur lömb, lokuðust inni og drápust í hrörlegu og aflögðu fjárhúsi á eyðibýli á ríkisjörðinni Eyri í Mjóafirði í Súðavíkurhreppi í sumar kann að breyta því hvernig opinberu eftirliti með slíkum fasteignum er háttað. Þetta segir Snævar Guðmundsson, forstjóri Ríkiseigna, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins í framhaldi af frétt blaðsins um málið í gær.

Vísað til ábúðarlaga

Svo virðist sem kindurnar hafi leitað inn í fjárhúsið fyrir tilviljun einhvern tíma í sumar sem leið en inngangurinn síðan hrunið og varnað þeim útgöngu. „Þær hafa drepist úr þorsta,“ sagði Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknir á Ísafirði, sem kölluð var á staðinn.

Snævar segir að gerður hafi verið almennur leigusamningur um jörðina við nágrannabónda að Látrum í nóvember 2000.

Leigutakinn nýtti jörðina til slægna, var með geldneyti í fjárhúsi, geymdi vélar í hlöðu og nýtti jörðina að öðru leyti til beitar. Í leigusamningnum sé vísað til ábúðarlaga um meðferð á landi og viðhald mannvirkja á jörðinni, eftir því sem við ætti.

„Samkvæmt því ber ábúanda að sinna almennu viðhaldi húsakosts og koma í veg fyrir að hætta stafi af, svo sem að loka dyrum og fergja efni sem getur fokið. Í samningnum er ekki kvöð um að leigutaki fari í kostnaðarsamar endurbætur,“ segir Snævar.

Úttekt og mat á hvaða húseignir megi ef til vill selja

Hann segir að Ríkiseignir hafi ekki skipulagt eftirlit með útleigðum bú- eða eyðijörðum. Atvikið á Eyri kunni að breyta því. Ríkiseignir hafi nýverið efnt til samstarfs við Minjastofnun um úttekt á fasteignum eyðibýla í ríkiseigu. Tilgangurinn sé að stuðla að verndun menningarminja og meta hvaða húseignir megi e.t.v. selja. Húsakostur eyðijarðarinnar Eyrar sé þar á meðal.