Barátta Gerald Robinson (t.v.) sækir að körfunni í Hertz-hellinum en Magnús Már Traustason (t.h.) reynir að gera sitt besta til að koma vörnum við.
Barátta Gerald Robinson (t.v.) sækir að körfunni í Hertz-hellinum en Magnús Már Traustason (t.h.) reynir að gera sitt besta til að koma vörnum við. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í höllunum Jóhann Ingi Hafþórsson Skúli B. Sigurðsson Keflavík vann afar sannfærandi 94:74 sigur á ÍR í Breiðholti í fimmtu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi.

Í höllunum

Jóhann Ingi Hafþórsson

Skúli B. Sigurðsson

Keflavík vann afar sannfærandi 94:74 sigur á ÍR í Breiðholti í fimmtu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Keflavík náði fljótlega tíu stiga forskoti og var staðan eftir fyrsta leikhlutann 27:15. ÍR-ingar voru aldrei líklegir til að jafna eftir það og nokkuð þægilegur útisigur raunin.

Keflvíkingar spiluðu leikinn afar vel og voru margir sem lögðu sitt af mörkum. Fimm leikmenn skoruðu yfir tíu stig og var um sannkallaða liðsframmistöðu að ræða. Í hvert skipti sem ÍR náði áhlaupi, svöruðu Keflvíkingar hinum megin og hleyptu þeim bláu og hvítu aldrei of nálægt sér. Skotnýting Keflavíkur fyrir utan þriggja stiga línuna var um 80 prósent í fyrri hálfleik og ofan á það spiluðu gestirnir afar góða vörn sem ÍR réði illa við.

ÍR var nokkuð vængbrotið og vantaði Matthías Orra Sigurðarson og Hákon Örn Hjálmarsson. Í þeirra fjarveru fékk Daði Berg Grétarsson tækifærið og nýtti hann það alls ekki. Gerald Robinson spilaði mjög vel en aðrir voru undir pari. Hvað eftir annað köstuðu ÍR-ingar boltanum mjög klaufalega í hendur Keflvíkinga sem þökkuðu kærlega fyrir sig. Justin Martin, stigahæsti leikmaður ÍR til þessa, var mjög slakur og Sigurkarl Róbert Jóhannesson náði sér ekki á strik. Vegna þess áttu ÍR-ingar fáa ása eftir uppi í erminni. ÍR þarf að fá meiddu mennina inn sem fyrst og þá sérstaklega Matthías sem er einn besti leikmaður deildarinnar er hann spilar vel. Keflavík er í góðum málum með fjóra sigra og aðeins eitt tap og verður forvitnilegt að sjá hversu langt Sverrir Þór Sverrisson nær með liðið.

Háspenna í Njarðvík

Eftir afleita frammistöðu í síðustu umferð gegn Tindastóli náðu Njarðvíkingar að koma sér aftur á sigurbraut með sigri gegn liði Hauka í Njarðvík í gær. Njarðvíkingar skoruðu 99 stig gegn 89 stigum gesta sinna en lokatölur gefa litla mynd af leiknum í heild sinni.

Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem hófu leikinn töluvert betur og af miklum krafti. Dagskipunin frá Ívari Ásgrímssyni, þjálfara Hauka, var að pressa fast á bakverði Njarðvíkinga og þá sérstaklega á eldri lappir Jeb Ivey. Jeb, sem hugsanlega spilaði sinn allra slakasta leik á Íslandi í síðustu umferð, svaraði kallinu þetta kvöldið og reyndist Njarðvíkingum drjúgur en hann skoraði 32 stig og gaf 5 stoðsendingar. Framan af leik voru Njarðvíkingar í bölvuðu basli og áttu í mestu vandræðum með að stoppa öflugan Marques Oliver sem skoraði 22 stig í fyrri hálfleik. Hann endaði leik með 29 stig og gat lítið beitt sér í seinni hálfleik sökum villuvandræða. En vandræði Njarðvíkinga eru fyrst og fremst í varnarleik þeirra og stóla þeir um of á sóknarleikinn. Iðulega þurfa þeir að skora 90 stig eða meira til að vinna leiki sína. Vörnina þarf að binda töluvert betur saman hjá grænklæddum.

Haukarnir eru með töluvert breytt lið frá síðasta ári og munar mest um Kára Jónsson. En bakvarðastaða þeirra er alls ekki illa mönnuð með Hilmari Henningssyni sem mætti beita sér töluvert meira í sóknarleik þeirra. Þetta kvöldið sprungu þeir á lokasprettinum en allt fram á síðustu mínútu voru þeir í fínum möguleika á að taka sigurinn. „Síðustu 5 mínútur leiksins misstum við dampinn í vörninni og það varð okkur að falli,“ sagði Kristinn Marinósson, leikmaður Hauka, í leikslok.

Stjarnan keyrði yfir Þórsara

Stjarnan vann þægilegan og auðveldan sigur gegn Þór Þorlákshöfn í Garðabæ en leiknum lauk með 89:73-sigri Garðbæinga. Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru 20 stigum yfir í hálfleik. Góður fyrri hálfleikur lagði grunninn að sigri. Garðbæingar sem eru með 8 stig eftir fyrstu fimm leiki sína en Þór er með tvö stig í ellefta sæti deildarinnar.

Loksins vann Grindavík

Grindavík vann nauman tveggja stiga sigur gegn Val í Grindavík en leiknum lauk með 90:88-sigri Grindvíkinga. Grindvíkingar leiddu með tveimur stigum í hálfleik en það var Ólafur Ólafsson sem tryggði heimamönnum í Grindavík sigur þegar hann setti niður tvö vítaskot á lokasekúndum leiksins. Þetta var fyrsti sigur Grindvíkinga síðan 1. umferð deildarinnar gegn Blikum en liðið er í áttunda sæti deildarinnar með fjögur stig. Valsmenn eru sem fyrr á botninum án stiga.