[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ekið var á 295 hreindýr frá árinu 1999 til apríl 2018, samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Náttúrustofu Austurlands (NA).

Sviðsljós

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ekið var á 295 hreindýr frá árinu 1999 til apríl 2018, samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Náttúrustofu Austurlands (NA). Einkum er ekið á hreindýr á veturna þegar aðstæður eru slæmar, hálka, myrkur og lélegt skyggni, á sama tíma og hreindýrin leita í auknum mæli niður á láglendi í nágrenni við vegi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu NA, Ekki keyra á hreindýr! sem samin var fyrir Vegagerðina. Höfundar skýrslunnar eru Kristín Ágústsdóttir, Skarphéðinn G. Þórisson og Rán Þórarinsdóttir. Tilgangurinn með verkefninu er að vekja athygli á og draga úr slysahættu á þjóðvegum Austurlands sem skapast vegna árekstra við hreindýr. Markmiðið er að fækka árekstrunum.

Ákeyrslur skýra allt að þriðjung af dánartíðni hreindýra, ef veiðar eru ekki teknar með. Á tíu árum, frá 2006 til 2015, urðu að meðaltali um 22 árekstrar á ári við hreindýr á vegum. Ökumenn og farþegar bíla sem lent hafa í árekstrunum hafa yfirleitt sloppið án alvarlegra meiðsla, en oft hefur orðið eignartjón.

Nokkur hættusvæði

Nokkur breyting hefur orðið á dreifingu dýra sem ekið hefur verið á síðastliðna tvo áratugi. Flestir árekstrarnir hafa orðið á milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs, einkum í Lóninu. Þar urðu alls 88 dýr, eða 30% allra dýra sem ekið var á, fyrir bíl. Næstflestar ákeyrslur urðu á Kárahnjúkavegi, alls 36 dýr, en þar hefur ekki verið ekið á hreindýr síðan virkjunarframkvæmdum lauk að mestu árið 2009.

Á árunum 1999-2009 urðu engin hreindýr fyrir bíl á leiðinni frá Hamarsfirði til Reyðarfjarðar og engir árekstrar urðu á veginum frá Háreksstaðaleið til Vopnafjarðar. Hins vegar var töluvert um árekstra við hreindýr á Kárahnjúkavegi á þeim tíma enda var aðalframkvæmdatími virkjunarinnar á árunum frá 2003-2009. Ekki var ekið á hreindýr á Kárahnjúkavegi frá 2010 til apríl 2018 en þá fjölgaði ákeyrslum á veginum af Háreksstaðaleið til Vopnafjarðar og eins á Fagradal, í Reyðarfirði og í Berufirði.

Mest drápust 13 dýr í einni ákeyrslu á Fljótsdalsheiðarvegi í desember 2007 í myrkri og hálku. Tarfar eru um 40% hreindýra sem keyrt er á, kýr 35% og kálfar 25%.

Ákeyrslum hefur fækkað á undanförnum árum þrátt fyrir að umferðarþungi hafi aukist á Austurlandi. Hreindýrastofninn í júlí hefur stækkað frá árinu 2000, þegar hann var um 3.000 dýr, í 6.400 dýr í júlí 2017. Ekki er augljós fylgni á milli fjölgunar hreindýra á Austurlandi og fjölda ákeyrslna, hvorki þegar litið er til stofnstærðar á landsvísu né heldur fjölda dýra t.d. á veiðisvæðum 8 og 9 þar sem árekstrar við hreindýr eru hvað algengastir.

Til stendur að þróa upplýsingaveitu um ákeyrslur á hreindýr og safna upplýsingunum í smáforrit. Vegfarendur geta þá sett inn upplýsingar um hreindýr við vegi eða fengið upplýsingar um hvar hætta stafar af hreindýrum. Hreindýravefsjá er í smíðum hjá Náttúrustofu Austurlands og ætti hún að geta þjónað þessum tilgangi að einhverju leyti.