Guðjónsdætur Frá vinstri talið eru hér Alexandra, Elín og Brynhildur. Á tölvuskjánum er Diljá í Ungverjalandi.
Guðjónsdætur Frá vinstri talið eru hér Alexandra, Elín og Brynhildur. Á tölvuskjánum er Diljá í Ungverjalandi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Taugin er sterk og oft getur ein lesið hug annarrar eða verið að velta sama málinu fyrir sér um leið og hinar. Kaldhæðinn húmor hafa þær líka sameiginlegan og geta hlegið innilega saman.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Taugin er sterk og oft getur ein lesið hug annarrar eða verið að velta sama málinu fyrir sér um leið og hinar. Kaldhæðinn húmor hafa þær líka sameiginlegan og geta hlegið innilega saman. Að öðru leyti eru þær um flest ólíkar, fjórburasysturnar Alexandra, Brynhildur, Diljá og Elín Guðjónsdætur sem urðu þrítugar í gær. Fæðing þeirra vakti mikla athygli á sínum tíma og allir vissu um fjórburana í Mosfellsbæ; dætur Margrétar Þóru Baldursdóttur og Guðjóns Sveins Valgeirssonar.

Allar með fjölskyldur

„Sennilega má segja að við systurnar höfum átt gott og farsælt líf, hver á sinn hátt. Við erum allar komnar með fjölskyldur, allt okkar fólk við góða heilsu og engin alvarleg áföll komið upp,“ sagði Elín þegar Morgunblaðið heimsótti systurnar í Mosfellsbæ í gær. Þar býr Alexandra; hún er lögfræðingur að mennt og þriggja barna móðir, Elín stýrir verslunum Vodafone og á einn son og Brynhildur, sem starfar hjá Deloitte, er barnshafandi og væntir sín á allra næstu dögum. Diljá býr með manni og syni í Debrecen í Ungverjalandi hvar hún er á fjórða ári í læknanámi. Hún var því fjarri góðu gamni í gær – og þó! Var kölluð til leiks í gegnum Skype-forritið og birtist því fólki þótt stödd væri í öðru landi .

„Hér áður fyrr komu oft myndir af okkur í blöðunum og á grunnskólaaldrinum fundum við vel áhugann sem fólk hafði á okkur. Það var þreytandi, en núna þegar við sjálfar erum komnar með börn finnst mér þessi athygli sem okkur var sýnd hins vegar mjög skiljanleg,“ segir Alexandra.

Systurnar voru fyrstu fjórburarnir á Íslandi þar sem allir lifðu. Hinn 31. október 1957 fæddust fjórburar hér á landi, þrír þeirra lifðu og einn lést á fyrsta ári.

Brynhildur er límið

„Við erum í góðu sambandi og fylgjumst að, til dæmis í gegnum Facebook og Skype sem hefur breytt ýmsu í samskiptum fólks. Og Diljá er alltaf mjög nærri, því útlönd eru ekki jafn fjarlæg og áður var,“ segir Brynhildur sem gengst við að vera límið í systrahópum og halda honum saman.

„Við höfðum lengi til siðs að fara saman út að borða á afmælisdeginum okkar, 1. nóvember, sem ekki hefur verið núna síðari árin enda er Diljá ekki á landinu. En hún kemur um jólin og þá hittumst við auðvitað og það verður um nóg að tala, svo sem börnin okkar sem þá verða orðin samanlagt sex.“