Í loftinu Simone Biles einbeitt á HM í Doha í gær.
Í loftinu Simone Biles einbeitt á HM í Doha í gær. — AFP
Hin bandaríska Simone Biles renndi stoðum undir þá skoðun margra í gær að hún sé hreinlega besta fimleikakona allra tíma. Ólympíumeistarinn ríkjandi vann þá heimsmeistaratitilinn í fjölþraut, á HM í Doha í Katar.

Hin bandaríska Simone Biles renndi stoðum undir þá skoðun margra í gær að hún sé hreinlega besta fimleikakona allra tíma. Ólympíumeistarinn ríkjandi vann þá heimsmeistaratitilinn í fjölþraut, á HM í Doha í Katar. Þetta er í fjórða sinn sem Biles vinnur titilinn og er hún fyrst kvenna til að verða heimsmeistari í fjölþraut fjórum sinnum.

Biles sýndi reyndar að hún er mannleg og gerði mistök bæði í stökki og á jafnvægisslá, en það kom ekki í veg fyrir að hún landaði gullverðlaununum. „Það var ekki ætlunin að láta alla fá hjartaáfall. Ég geri þetta ekki aftur,“ skrifaði Biles á Twitter-síðu sína eftir keppnina en hún hefur þó aldrei unnið stærri sigur í fjölþraut á HM.

Alls hefur Biles fengið 12 gullverðlaun á heimsmeistaramótum en Bandaríkin unnu liðakeppnina fyrr í vikunni og Biles getur svo bætt við titlum á einstökum áhöldum í dag og á morgun.

Biles, sem er 22 ára gömul, fékk samtals 57,491 stig eða hátt í tveimur stigum meira en hin japanska Mai Murakami sem fékk 55,798 stig. Murakami er fyrst japanskra fimleikakvenna til að vinna silfurverðlaun í fjölþraut á HM. Morgan Hurd frá Bandaríkjunum, sem varð heimsmeistari í fyrra þegar Biles tók sér frí frá keppni, endaði í 3. sæti rétt á eftir Murakami, með 55,732 stig.

Nýrnasteinarnir trufluðu ekki

Biles á samtals 16 HM-verðlaun í sínu safni, ef gull, silfur og brons er allt talið, og er aðeins fjórum medalíum frá meti hinnar rússnesku Svetlönu Khorkina. Hún gæti því jafnað það met í Doha, og það verður að teljast líklegt að hún setji met í fjölda gullverðlauna en það tækist henni með því að verða heimsmeistari á einu áhaldanna fjögurra sem keppt verður á í dag og á morgun. Keppt verður í stökki og á tvíslá í dag, og á jafnvægisslá og í gólfæfingum á morgun þegar heimsmeistaramótinu lýkur.

Biles hefur unnið mögnuð afrek sín í Doha þrátt fyrir að glíma við nýrnasteina en hún var flutt í skyndi á sjúkrahús vegna þeirra um síðustu helgi. Í gær sagði hún þá ekki hafa nein áhrif á sig.