Mark FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson skoraði 9 mörk í gær. Hér er eitt í uppsiglingu eftir að hann hefur snúið á Arnar Freyr Guðmundsson ÍR-ing.
Mark FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson skoraði 9 mörk í gær. Hér er eitt í uppsiglingu eftir að hann hefur snúið á Arnar Freyr Guðmundsson ÍR-ing. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í AUSTURBERGI Ívar Benediktsson iben@mbl.

Í AUSTURBERGI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Við erum á þeim stað í deildinni sem við viljum vera á,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir sigur á ÍR, 28:26, í Olísdeild karla í handknattleik í Austurbergi í gær í leik sem slegið var á frest í síðasta mánuði vegna þátttöku FH-inga í EHF-keppninni. Með sigrinum lyfti FH sér upp að hlið Hauka í annað til þriðja sætið með níu stig, er tveimur stigum á eftir toppliði Selfoss þegar sex umferðir eru að baki.

Eftir afar jafnan fyrri hálfleik þar sem munurinn á liðunum var aðeins einu sinni meira en eitt marka var Hafnarfjarðarliðið yfir þegar leikurinn var hálfnaður, 15:14.

Fljótlega í síðari hálfleik náði FH-liðið fjögurra marka forskot eftir að hafa nýtt sér ítrekuð mistök ÍR-inga í sóknarleiknum. FH-ingar skoruðu nokkur mörk eftir hraðaupphlaup. Eftir að hafa náð fjögurra marka forskoti þá virtist FH-liðið hafa tögl og hagldir í leiknum. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu til þess að komast inn í leikinn á ný. Allt kom fyrir ekki og FH vann nokkuð öruggan sigur sem hefði getað verið stærri.

FH-liðið lék lengst af nokkuð vel. Varnarleikur liðsins var góður, ekki síst í síðari hálfleik. Á sama tíma hresstist Birkir Fannar Bragason í markinu en hann varði 10 skot í síðari hálfleik. Sóknarleikur FH-ingar var agaður en hann fór eins og venjulega meira og minna í gegnum Ásbjörn Friðriksson. Ásbjörn er límið í sóknarleiknum og sá sem skapar hvað flest tækifæri. Birgir Már Birgisson nýtti vel sín færi. Einar Rafn Eiðsson vann sig jafnt og þétt inn í leikinn í síðari hálfleik eftir að hafa verið í erfiðleikum í þeim fyrri. Bjarni Ófeigur Valdimarsson á hinsvegar mikið inni. Hann hefur vart náð sér á strik ennþá eftir að hafa ákveðið í sumar að klæðast búningi FH á þessari leiktíð.

ÍR-ingar eru í þriðja neðsta sæti deildarinnar með aðeins þrjú stig að loknum sex leikjum. Staðan er væntanlega lakari en menn gerðu sér vonir um þegar flautað var til leiks í haust.

Björgvin Þór Hólmgeirsson hélt uppi sóknarleik ÍR, ekki síst í fyrri hálfleik, þegar hann skoraði sjö af tíu mörkum sínum. Skarð var svo sannarlega fyrir skildi að Sveinn Andri Sveinsson meiddist illa í fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Hætt er við að hann gæti misst af fleiri leikjum en hann fékk högg á ökklann, að því er virtist. Fyrir var Bergvin Þór Gíslason á sjúkralistanum. Hann gæti líka verið frá keppni um tíma.