Tryggingar Samsett hlutfall Sjóvár nam 91,3% á þriðja ársfjórðungi.
Tryggingar Samsett hlutfall Sjóvár nam 91,3% á þriðja ársfjórðungi.
Heildarhagnaður tryggingafélagsins Sjóvár nam 140 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra var um 472 milljóna króna tap að ræða.

Heildarhagnaður tryggingafélagsins Sjóvár nam 140 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra var um 472 milljóna króna tap að ræða. Hagnaður af vátryggingarstarfsemi félagsins nam 708 milljónum fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra nam upphæðin 499 milljónum króna. Tap af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta nam aftur á móti 426 milljónum króna. Ávöxtun eignasafns félagsins var neikvæð um 0,8% en 2,4% á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall Sjóvár nam 91,3% á þriðja ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra nam það 94,6%.

Eignir félagsins námu 45 milljörðum króna í lok september og eigið fé 13,5 milljörðum.

Sé litið til fyrstu níu mánaða ársins nemur hagnaður af vátryggingarstarfsemi fyrir skatta 1,15 milljörðum króna samanborið við 884 milljónir yfir sama tímabil í fyrra. Heildarhagnaður tímabilsins nemur 259 milljónum en hann nam 1,3 milljörðum í fyrra en tveir stórbrunar áttu sér stað á árinu. Í árshlutauppgjöri Sjóvár er tekið fram að horfur séu á því að samsett hlutfall verði 97% fyrir árið 2018 og að hagnaður fyrir skatta verði um 900 milljónir króna. Í tilkynningu segir Hermann Björnsson forstjóri að samsett hlutfall sé 3% undir því sem gert var ráð fyrir. „Í því tilliti er þetta besti þriðji ársfjórðungur frá því Sjóvá var tekið til skráningar á markað 2014. Afkoman fyrir fyrstu 9 mánuði ársins er einnig góð þegar litið er til samsetts hlutfalls sem nam 97,8%.“ peturhreins@mbl.is