Erla Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl 1932. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 23. október 2018.
Foreldrar hennar voru Magnús Kjærnested skipstjóri og Emelía Lárusdóttir. Erla var yngst sex systkina, elst var Málfríður sem lést barnung, Ragnar stýrimaður sem fórst með Goðafossi, Jóhanna, Lárus og Hrefna sem öll eru látin. Fyrri eiginmaður Erlu var Ólafur Þorláksson lögfræðingur, þau skildu. Börn þeirra eru 1) Anna Sigurveig hjúkrunarfræðingur, f. 24. september 1952, maki hennar er Björn Magnússon læknir. Börn þeirra eru a) Hildur kennari, með fyrri maka Kristni Péturssyni eignaðist hún þrjú börn, Önnu Mínervu, Arnar og Alfreð Gauta. Sambýlismaður Hildar er Björn Stefánsson skipstjóri. b) Arnar garðyrkjumaður. c) Ólafur kennari, sambýliskona Stella Steinþórsdóttir ljósmóðir, þau eiga þrjár dætur, Sölku Sóleyju, Erlu Sigríði og Yrsu. d) Erla sálfræðingur, maki hennar er Hálfdan Steinþórsson viðskiptafræðingur, þau eiga fjóra syni, Steinþór Snæ, Björn Diljan, Frosta og Bjart. 2. Ragna sálfræðingur, maki hennar var Páll Baldvin Baldvinsson höfundur, þau eiga þrjú börn, a)Vigdísi Hrefnu leikkonu, maki hennar er Örn Úlfar Höskuldsson smiður, þau eiga þrjú börn Úlfhildi Rögnu, Uglu og Örn Úlfar. b) Solveig myndlistarkona, sambýlismaður hennar er Gustavo Marcelo Blanco kvikmyndagerðarmaður. d) Páll Zophanías fjallaleiðsögumaður, sambýliskona hans er Sunna Sasha háskólanemi. 3. Emil Ólafsson sjávarlíffræðingur, f. 7. október 1957. Börn Emils eru: a) Lovísa María, félagsráðgjafi. Börn hennar eru Ívar Uggi og Sunna. b) Ívar tölvuleikjahönnuður. Móðir þeirra er Kristjana Arnarsdóttir. c) Íris háskólanemi í Aþenu, móðir hennar er Uarina Papacosta. d) Ritva Sigurveig og Óli. Móðir þeirra er Lara Arroyo. 4) Sunna Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, f. 11. janúar 1965, maki hennar er Þröstur Jóhannsson tónlistarkennari. Börn Sunnu og Magnúsar Inga Erlingssonar eru: a) Magnús Orri, grafískur hönnuður, sambýliskona hans Kristín Sigurðardóttir listakona, b). Emil Már, starfar við ferðaþjónustu í Barcelona, kærasta hans er Hildur Örlygsdóttir ljósmyndari, c) Daníel Máni, starfsmaður á frístundaheimili fyrir fötluð börn. Barn Sunnu og Snorra Más Skúlasonar er Kári grunnskólanemi.
Seinni eiginmaður Erlu var Hallvarður Einvarðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, f. 2. desember 1931, d. 8. desember 2016. Börn Hallvarðs eru 1) Elín Vigdís, f. 3. janúar 1964, lögfræðingur, maki Gísli Þorsteinsson rannsóknarlögreglumaður. Börn þeirra eru a) Hallvarður Jes leikari og b)Einar Steinn nemandi. 2) Einar Karl ríkislögmaður, f. 6. júní 1966. Börn hans og Kristínar Edwald eru a) Snædís og b) Helgi. Sambýliskona Einars Karls er Þórhildur Björk Þórdísardóttir lögfræðingur og barn þeirra er c) Þórdís Sesselja.
Útför Erlu fer fram frá Neskirkju í dag, 2. nóvember 2018, klukkan 13.

Elsku amma mín Erla er látin, amma mín sem fylgt hefur mér í rúm 47 ár, amma mín sem var mér sem önnur móðir, enda mamma aðeins 19 ára gömul þegar hún eignaðist mig.
Minningarnar hrannast upp, minningar um ömmu sem var einstök að mörgu leyti og á margan hátt á undan sinni samtíð. Hún amma var fagurkeri fram í fingurgóma og þess bar vitni í öllu hennar umhverfi og atlæti. Hún amma hafði t.a.m. dálæti á hvers kyns hönnun enda bar heimili hennar þess merki á allan hátt, nýtískulegt, glæsilegt og fágað. Ég var enda alltaf upp með mér að fara með vinkonur mínar til hennar í heimsókn, því ég vissi að þær myndu gapa í forundran yfir því að ömmur gæti átt svona nýmóðins heimili og það skipti engu máli hvort það var þegar hún var ung og með litla peninga milli handanna eða á efri árum þegar hagur vænkaðist, það var alltaf smart hjá ömmu. Og hreint. Við amma deildum t.d. sömu þráhyggjunni með vel skúruð gólf og ég held að hún hafi verið mér og systur minni, móður og þeim systrum og dætrum, mikilvæg fyrirmynd í lífinu og næmt fegurðarskyn hennar haft djúpstæð áhrif á okkur allar.
En næmt fegurðarskyn ömmu náði víðar en til húsgagna og annarra innanstokksmuna. Hún hafði í rauninni dálæti á öllu því sem fallegt var, hvort sem það var hönnun, fatnaður eða fólk.
Hún spurði mig oft, þegar nálgaðist einhverja veislu í fjölskyldunni Í hverju ætlar þú að vera? Og ég vissi að í spurningunni fólst ekki bara áhugi á klæðnaði mínum, heldur óbein skipun um að vera sem glæsilegust, henni til sóma en þótt sumir hefðu kannski tekið þessari afskiptasemi illa, þá þótti mér vænt um það, vænt um að ég gerði hana stolta af mér, og ég veit að hún var það, enda fylgdi þessu iðulega upphringing þar sem hún dáðist að því hversu fallega ég hefði litið út, hvort sem það var nú alltaf sannleikanum samkvæmt.
Þessi áhugi ömmu á útliti gat samt líka oft komið manni til að skella upp úr. Ég man þegar hún var einhvern tímann að horfa á Bold and the Beautiful, sem hún gerði á hverjum degi, og sagði:  Hildur, þú ættir að fá þér svona permanent eins og hún Mónika, það myndi klæða þig svo vel!  Eða þegar við vorum saman í fríi á Ítalíu og hún sagði: Ég myndi nú hafa bolinn aðeins flegnari, það er miklu smartara. Eða þegar ég var ellefu ára og hún tók sig til og litaði á mér augabrýrnar, mömmu til lítillar gleði, enda barnsandlitið rammað inn með tveimur stórum, svörtum og breiðum strikum en amma sagði að ég hefði aldrei litið betur út og við það sat.  Amma var bara svo stolt af sínu fólki og fór ekki í felur með það heldur, enda þuldi hún það yfirleitt upp fyrir hvern þann sem heyra vildi allt um börnin sín, tengdabörn og barnabörn, hvað þessi og hin gerði og svo framvegis. Já hún Hildur mín er dóttir frumburðar míns, hennar Önnu minnar, sem er gift lækni, hann er sko yfirlæknir á Selfossi, ofboðslega myndarlegur hann Bjössi minn.
Á þessum síðustu árum var amma oft inn og út af spítölum enda aldur og veikindi farin að segja til sín en íhugult augnaráð hennar og einstakt skopskyn var aldrei langt undan. Einu sinni þegar hún hafði verið lögð inn vegna beinbrots þá fór ég til hennar ásamt mömmu og við sátum hjá henni við sjúkrarúmið þar sem hún lá hálfsofandi. Við vorum frekar áhyggjufullar og héldum í höndina á henni og horfðum á hana þegar hún allt í einu lítur upp til okkar með sínu hvassa augnaráði, svona hálfpartinn eins og henni fyndist við afar hjákátlegar útlits, og segir Hva, eruð þið að bíða eftir því að ég hrökkvi upp af?  Við gátum ekki annað en hlegið innra með okkur og án efa litum við kjánalega út í hennar augum, enda var hún, á þeim tímapunkti og að hennar mati, fjarri því að gefa upp öndina.
Í annarri heimsókn okkar mömmu til ömmu á spítalann man ég að það kemur inn hjúkrunarfræðingur og talar lengi við ömmu, og ég tek eftir að amma er með varirnar eitthvað svo samanherptar, en brosir þó blíðlega til konunnar en þegar hún fer svo út, þá rekur amma út úr sér tunguna á eftir henni og segir: Æ, hún er svo leiðinleg þessi! Og við mamma skelltum uppúr. Því amma var alltaf kurteisin uppmáluð en lá þó ekki á skoðunum sínum við sína nánustu. Þess ber þó að geta að amma var afar þakklát fyrir alla þá hjálp og hjúkrun sem hún fékk í veikindum sínum og vildi sem minnst ónáða aðra eða biðja um aðstoð.
Elsku amma mín, það er ljúfsárt að rifja þessar minningar upp og það er líka erfitt að sættast við það að þú sért farin en ég hugga mig við að vita af þér hjá honum Hallvarði þínum, ástinni í lífi þínu sem tók á móti þér daginn sem þú féllst frá.
Amma mín, mér þykir svo vænt um þig.


Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.
Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.
Hverju orði fylgir þögn.
Og þögnin hverfur alltof fljótt.

En þó augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund.
Því að tár sem þerrað burt
aldrei nær að græða grund.

Þín,

Hildur.