Æfing Ýmsar stofnanir tóku þátt í æfingunni í stjórnstöð Landsnets í gær.
Æfing Ýmsar stofnanir tóku þátt í æfingunni í stjórnstöð Landsnets í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Umhverfismat vegna Suðurnesjalínu 2 er á lokametrunum, að sögn Írisar Baldursdóttur, framkvæmdastjóra kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Umhverfismat vegna Suðurnesjalínu 2 er á lokametrunum, að sögn Írisar Baldursdóttur, framkvæmdastjóra kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.

„Við vonumst til að geta skilað frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar í þessum mánuði og að geta hafið framkvæmdir síðla næsta árs,“ sagði Íris. Í umhverfismatinu eru nokkrir valkostir skoðaðir ítarlega, þar á meðal blandaðar leiðir þar sem horft er bæði til loftlína og jarðstrengja.

Gerðar voru athuganir á vettvangi fyrirhugaðrar línulagningar í sumar og eru sérfræðiskýrslur frá ýmsum rannsóknastofnunum að koma í hús. Íris sagði að verkefnaráð vegna Suðurnesjalínu 2 hefði starfað í hartnær tvö ár og samráð við sveitarfélög, stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila verið aukið í þessari lotu.

Viðbúnaðaræfing vegna mögulegs rafmagnsleysis á Suðurnesjum var haldin í stjórnstöð Landsnets í gær. Íris sagði að þar hefðu verið æfð viðbrögð við atburðum sem hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi raforku til Suðurnesja.

„Okkur er sérstaklega umhugað um atburði sem hafa mikil áhrif á samfélagið og valda víðtæku straumleysi. Hlutverk okkar er að tryggja afhendingaröryggi raforku. Viðmið okkar eru 99,99% afhendingaröryggi, sem eru lágmarkskröfur fyrir samfélag eins og okkar. Við vitum að línur bila og líka endabúnaður. Það að missa tenginguna við Suðurnesin er einn af þeim atburðum í raforkukerfinu sem hafa hvað mest áhrif í dag.“ Ástæðan er sú að aðeins ein háspennulína, Suðurnesjalína 1, tengir Reykjanesið við raforkudreifikerfið. Detti hún út verða Suðurnesin straumlaus. Íris segir að ekki sé hægt að tryggja viðunandi afhendingaröryggi til jafn stórs samfélags og er á Suðurnesjum með aðeins einni raflínu. „Í neyðaræfingu Landsnets með Almannavörnum, Isavia ásamt HS Veitum og HS Orku æfðum við einmitt viðbrögð við straumleysi í kjölfar bilunar á Suðurnesjalínu. Svona æfing er mjög mikilvæg fyrir okkur og lærdómur notaður til að tryggja gott viðbragð og umbætur ásamt því að slípa til samskipti milli aðila. Það er mun betra að draga þann lærdóm af æfingu en raunatburði. Að koma straumi á aftur er afar flókið ferli, með mikilli óvissu og tímafrekt,“ sagði Íris.

Rafmagnsleysi hefur áhrif á mikilvæga starfsemi á Suðurnesjum. Fyrst er að nefna Keflavíkurflugvöll en einnig ýmsan orkufrekan iðnað og hátækniiðnað, Orkugarðinn, gagnaverin, Bláa lónið og aðra ferðaþjónustu, fiskeldi og fiskvinnslu auk heimila, stofnana og annarra fyrirtækja.

„Suðurnesin, með stórum framleiðslueiningum eins og Reykjanesvirkjun og Svartsengi, eru líka mikilvæg lífæð fyrir aðra hluta landsins. Það hefur komið fyrir þegar Suðurnesjalína leysir út að raforkunotendur annars staðar á landinu verði líka straumlausir vegna þess að við missum 180 megavött út af netinu. Suðurnesin eru það mikilvægur hluti af raforkukerfinu að það þarf öruggari tengingu þangað,“ sagði Íris.