Þór Magnússon
Þór Magnússon
Eftir Þór Magnússon: "Og enn er sótt að gamla kirkjugarðinum. Grafnar eru upp jarðneskar leifar fólks vegna hótelbyggingar."

Ég hef verið Reykvíkingur í hartnær 70 ár.

Leið mín í skóla lá að jafnaði meðfram kirkjugarðinum forna við Aðalstræti. Hann var þá fallegur reitur, nokkur gömul tré uxu í vel hirtum blómabeðum sem hraunsteinum var raðað umhverfis og gangstígar á milli. Menn lögðu samt ekki leið sína þar yfir kirkjugarðinn sem þá var oftast kallaður Bæjarfógetagarður, heldur um gangstéttirnar. Garðurinn var nokkurt augnayndi, þá var miðborgin víða illa útlits og niðurnídd á pörtum.

Svo kom skipulagið 1963, víst samið af dönskum manni sem hafði ekki sögulegar tilfinningar til Reykjavíkur. Þá átti að leggja umferðaræð niður Túngötu og meðfram kirkjugarðinum og Alþingishúsinu, yfir Lækjargötu og síðan upp Amtmannsstíg og inn Grettisgötu. Einnig skyldi framlengja Suðurgötu um Grjótaþorpið þvert. Í kjölfarið hófst niðurrif húsa svo að breikka mætti götur. Húsið Uppsalir, á horni Aðalstrætis og Túngötu, var rifið og einnig næsta hús, Túngata 2, einhver myndarlegustu timburhús miðbæjarins en niðurnídd. Gamla Apótekið á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsensstrætis var brotið niður, lítið hús nærri Hótel Borg var flutt í Árbæjarsafn og Amtmannshúsið við Ingólfsstræti brotið niður. Fleiri áttu að víkja, svo sem stóra húsið Lækjargata 6.

Heyrt hef ég að þá hafi Alþingi stöðvað þessa þróun, mönnum þar hafi ekki litizt á að fá umferðaræð meðfram þinghúsinu og verið hætt við hugmyndina. – Hvernig skyldi þingið bregðast við ef ferðamannarútur taka að steypa úr sér hópum fólks að nýja hótelinu rétt við dyr þess, ýmist um kirkjugarðinn sjálfan eða af Austurvelli?

Lengi fyrirlitu margir gömlu byggðina, má minna á „dönsku fúaspýturnar“ ofan við Lækjargötu. Þakka má fyrir að ekki varð af niðurrifi húsanna við Tjarnargötu. Í eina tíð var búið að teikna samfellda blokkhúsabyggð meðfram allri götunni.

Það er í rauninni hrikalegt að vita hvernig hverju stórhýsinu á fætur öðru, og engu þeirra fögru, skal troðið niður í miðbæ Reykjavíkur. Það er rétt eins og flestir Reykvíkingar séu óvitandi um þær tröllauknu stórbyggingar sem rísa eða rísa eiga í miðbænum, því að fáir leggja leið sína í miðbæinn lengur. Hann er orðinn nánast fyrir útlendinga eina. Íslendingar eiga þangað fæstir erindi enda búið að stjaka velflestum þjónustustofnunum þaðan.

Og enn er sótt að gamla kirkjugarðinum. Grafnar eru upp jarðneskar leifar fólks vegna hótelbyggingar. Kirkjugarðurinn hefur um árabil verið steinlögð stétt, þar trampa hundruð manna eða þúsundir daglega. Nú hefur verið staflað upp vinnugámum í miðjum kirkjugarðinum og þar voru pylsuskúrar í fyrrasumar. Líklegast munu aðfarir sem þessar óvíða gerast meðal siðaðra menningarþjóða.

Aðgangur að nýja hótelinu stóra (fróðlegt verður að heyra hvaða útlendu nafni það mun heita) á að vera um kirkjugarðinn, og annar inngangur frá Austurvelli. Vallarstræti var nýlega breikkað og malbikað inn á Austurvöll. – Eru þessar aðfarir heiðursgjöf borgarinnar til þjóðarinnar á 100 ára fullveldisafmælinu?

Er von að mönnum gremjist hið mikla skeytingarleysi borgaryfirvalda um sögulegar minjar og ásýnd borgarinnar.

Við sem ömlum gegn ofurgræðgi stórgróðahyggjunnar höfum fengið þakkir margra fyrir andóf okkar, en fáir mæla yfirganginum bót.

Svo er komið að við búum ekki lengur í þessu landi fyrir okkur sjálf, heldur fyrir útlendinga. Það er okkur samt ofviða. Mannafli okkar sjálfra nægir hvergi og verðum því að flytja inn útlendinga til að þjóna útlendingum. Margt af þjónustuliðinu kann ekki íslenzkt mál.

Bjarni frá Vogi sendi skeyti frá Danmörku er illa horfði í málunum við Dani: „Upp með fánann! Ótíðindi!“

Höfundur er fyrrverandi þjóðminjavörður. thor@thjodminjasafn.is

Höf.: Þór Magnússon