[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef hrekkjavaka er ókei og ekki bönnuð innan 16 vil ég geta sýnt stráknum mínum, án samviskubits, Harrison Ford í Air Force One og bjóða upp á jólamyndina Die Hard.

Tek það strax fram að ég er aðdáandi hvers kyns tyllidaga. Mín vegna mætti dúndra hverri einustu bandarísku, rússnesku eða afrísku hátíð inn í almanakið okkar, með eða án sælgætisflóðs, og það væri bara stuð.

Ég er hins vegar einmitt þessa stundina undir áhrifum gamals grunnskólabróður, Oddgeirs Einarssonar lögfræðings, en hann ákvað í vikunni að taka að sér að vera bæði gamli og leiðinlegi gaurinn eins og hann sagði sjálfur. Gefum honum orðið: „Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt það pínulítið sérstakt að myndrænt efni úr hryllingsmyndum sem haft er fyrir að halda frá börnum, sé allt í einu komið út um allt, m.a. fyrir sjónir lítilla barna.“ Vísaði hann þar til hrekkjavöku og hversu mikið skringidæmi það í rauninni er að morðingjalegur hryllingur og blóð sé orðið að barnaskemmtun.

Kvikmyndaeftirlitið myndi án efa banna börnum undir 16 ára að vera á götum úti á hrekkjavöku.

Börn og fullorðnir með exi í hausnum, blóðug sár, hengingarólar um hálsinn, lítandi út eins og þau hafi lent í hrikalegum morðingjum, eða jafnvel verið dáin í góðan mánuð, það er allt í einu til fyrirmyndar meðan kvikmyndaeftirlitið bannar okkur ennþá að sýna krökkum undir 16 ára Bruce Willis fremja hetjudáðir í Die Hard.

Ég sjálf, 41 árs, er svo hrædd við mörg hver þeirra að ég þorði ekki að merkja mig inn á Google-kortið á Vesturbæjargrúppunni sem ein af þeim sem gefa sælgæti.

Ég er bara að velta fyrir mér hvort hrekkjavaka hafi eitthvað misskilist, er hrekkjavaka svona hrikalega blóðug og raðmorðingjaleg annars staðar í heiminum eða eru búningarnir þar eitthvað fjölbreyttari? Prinsessur og bangsar besta skinn, sjúkraliðar og pípulagningamenn?

Tek fram að ég er engan veginn búin að taka til í eigin garði, afkvæmi mín hafa verið dauðinn undanfarin ár en ég er hrifin af hugmyndinni um að tilveran sé samkvæm sjálfri sér. Ef hrekkjavaka er ókei og ekki bönnuð innan 16 vil ég geta sýnt stráknum mínum, án samviskubits, Harrison Ford í Air Force One og bjóða upp á jólamyndina Die Hard. Er okkur fræðilega mögulegt að banna þær hetjur en leyfa alblóðugu fólki með drápstól í kviðnum að skokka um hverfið?