Fjarvera Hólmar Örn Eyjólfsson missir af mörgum landsleikjum.
Fjarvera Hólmar Örn Eyjólfsson missir af mörgum landsleikjum. — Morgunblaðið/Eggert
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður frá keppni fram á haustið 2019.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður frá keppni fram á haustið 2019. Staðfest var í gærmorgun að hann hefði slitið krossband í hné í leik með Levski Sofia gegn Cherno More í búlgörsku bikarkeppninni á miðvikudaginn.

„Ég var að hlaupa með mótherja og ætlaði að stíga inn í hann en þá rann fóturinn til á grasinu þegar ég ætlaði að stíga í hann og við það kom snúningur á hnéð,“ sagði Hólmar við Morgunblaðið í gær, en atvikið gerðist eftir aðeins sex mínútna leik.

Óhætt er að segja að meiðslin komi á slæmum tíma á ferli Hólmars. Hann hefur lengi verið viðloðandi íslenska landsliðið, var m.a. í hópnum á HM í Rússlandi í sumar án þess að koma við sögu, en hefur síðan verið í byrjunarliði í tveimur síðustu leikjum Íslands, gegn Frakklandi og Sviss.

„Já, það er vissulega búið að ganga vel að undanförnu og súrt að lenda í þessu, en það gerir voðalega lítið fyrir mann að velta sér upp úr því. Þetta er staðan núna, og ég þarf bara að taka á því eins og maður og koma mér sem fyrst aftur í stand. Næsta í stöðunni er að finna besta stað til að láta skera sig upp og koma þessu í ferli. Þetta er bara verkefni sem þarf að klára,“ sagði Hólmar.

Hann er á sínu öðru ári með Levski og er í lykilhlutverki í varnarleik liðsins en Hólmar hefur leikið 12 af 13 deildaleikjum liðsins í haust og skorað í þeim tvö mörk. Levski er í öðru sæti í Búlgaríu, stigi á eftir meisturum Ludogorets. Hólmar kom til Levski í ágúst 2017 og samdi til fjögurra ára.

Reikna má með 10-11 mánaða fjarveru hjá Hólmari sem þá yrði ekki kominn aftur af stað fyrr en næsta haust. Ljóst er því að hann missir af nær allri undankeppni EM með íslenska landsliðinu, sem spilar alla tíu leiki sína í þeirri keppni á árinu 2019.