Saltaðar sítrónur eru gjarna kallaðar „marokkóskar sítrónur“ enda eru þær ómissandi í þarlendri matargerð. Það má nota allt innihaldið úr krukkunni.

Saltaðar sítrónur eru gjarna kallaðar „marokkóskar sítrónur“ enda eru þær ómissandi í þarlendri matargerð.

Það má nota allt innihaldið úr krukkunni. Börkurinn er gjarna skorinn smátt og settur út á matinn alveg í lok eldunartíma eða áður en hann er borinn fram. Aldinkjötið má nota sem krydd í eldamennsku og safann er frábært að nota til að krydda kjöt eða fisk eða til að dreypa yfir nánast hvað sem er.

Veljið sítrónur með þunnum berki. Þessar með þykka berkinum eru ekki góðar í uppskriftina. Það er mikilvægt að nota lífrænt ræktaðar sítrónur eða sítrónur sem ekki hafa verið sprautaðar með eitri.

Fyrir hverja sítrónu þarf 10 g af fínmöluðu salti og í tveggja lítra krukku passar oftast að setja 14 sítrónur.

14 sítrónur

140 g salt

Snyrtið endana af sítrónunum og skerið þær í fjóra báta. Veltið bátunum upp úr salti svo það loði við þær. Setjið þær í krukku og þrýstið vel svo safinn leki úr. Gætið þess að sítrónurnar séu á kafi í eigin safa. Ef safinn úr sítrónunum er ekki nægur má bæta dálitlum nýkreistum sítrónusafa í krukkuna.

Þekið, fergið, lokið krukkunni og komið henni fyrir á diski eða fati. Fyrstu dagana safnast saltið fyrir á botninum og hér og þar í krukkunni. Til að hjálpa til við að leysa saltið upp borgar sig að velta eða hvolfa krukkunni daglega þar til saltið er uppleyst.

Látið gerjast í 4-6 vikur við stofuhita og færið svo í kæli. Sítrónurnar verða bara enn betri með tímanum og geymast í það minnsta í eitt ár í kæli.

Dagný mælir með að borða hrökkbrauð með hummus, litlum bitum af saltpækluðum sítrónum og ristuðum sesamfræjum.