— Morgunblaðið/RAX
Hver er tilgangurinn með þessu málþingi? „Málþingið er hluti af Tannhjóli en Tjarnarbíó hefur verið að opna ferlið í leikhúsinu fyrir almenningi.
Hver er tilgangurinn með þessu málþingi?

„Málþingið er hluti af Tannhjóli en Tjarnarbíó hefur verið að opna ferlið í leikhúsinu fyrir almenningi. Leikhópar hafa verið með allskonar uppákomur í því sambandi og við aðstandendur Rejúníon ákváðum að vera með málþing um efni leikritsins. Gestum í sal er velkomið að taka þátt og deila reynslusögum. Vonandi verður þetta kósí.“

Hvað geturðu sagt mér um Rejúníon sem frumsýnt verður í Tjarnarbíói 30. nóvember?

„Leikritið fjallar um íslenska ofurkonu sem hefur staðið sig vel í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Síðan kemur að því að hún verður móðir og þá nær hún ekki að standa sig í því hlutverki vegna þess að hún er með fæðingarþunglyndi sem hún vill ekki takast á við. Verkið fjallar annars vegar um tengslaleysi móður og barns og hins vegar við manninn sinn, vini og samfélagið í heild.“

Er þetta þá dramatískt verk?

„Já, en með kómísku ívafi. Húmor sem byggist á sársauka er oftar en ekki góður frásagnarmáti. Við skoðum líka ýmislegt sem er svo fyndið, eins og til dæmis hvernig við komum fram á samfélagsmiðlum.“

Hvers vegna þetta efni?

„Þegar ég var ólétt að fyrsta barni mínu upplifði ég sjálf meðgönguþunglyndi og ákveðið tengslaleysi. Gekk í gegnum allskonar tilfinningar. Ég leitaði mér aldrei aðstoðar með þessar tilfinningar en umræðan var lokaðri á þeim tíma en hún er í dag. Þegar ég varð aftur ólétt fór ég að skoða þetta betur og byrjaði að skrifa verkið í stað þess að kíkja til sálfræðings.“

Er þetta fyrsta leikritið þitt?

„Ég hef verið í höfundasmiðju Leikfélags Hafnarfjarðar og skrifað kvikmyndahandrit sem var leiklesið í Tjarnarbíói en þetta er fyrsta leikritið mitt í fullri lengd. Það hefur verið ótrúleg upplifun að fylgjast með þessu mikla fagfólki í leikhópnum Lakehouse vinna að uppfærslunni undir stjórn Árna Kristjánssonar enda er leikrit á blaði eitt en leiksýning annað. Mér líst mjög vel á þetta.“

Annars ertu hagfræðingur

„Já, ég er hagfræðingur að mennt en vinn hjá umhverfissamtökunum SEEDS. Í hagfræðinni var ég mikið að skoða mannlega hegðun og segja má að leikritaskrifin séu rökrétt framhald af því.“

Og ætlarðu að skrifa fleiri leikrit?

„Já, ég stefni ótrauð að því.“