Fjármálaeftirlitið er nú með fleiri en eitt mál til skoðunar sem tengjast mögulegri markaðsmisnotkun.

Fjármálaeftirlitið er nú með fleiri en eitt mál til skoðunar sem tengjast mögulegri markaðsmisnotkun. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá stofnuninni en Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá FME um hvaða fyrirtæki ætti í hlut í máli sem Nasdaq OMX Iceland vísaði til FME á þriðja ársfjórðungi. Í Morgunblaðinu á fimmtudag var greint frá því að Nasdaq hefði í ársfjórðungsskýrslu sinni um eftirlitsmál á vettvangi kauphallarviðskipta í Evrópu greint frá því að einu máli er varðaði meinta markaðsmisnotkun hefði verið vísað til frekari skoðunar eftirlitsyfirvalda. Í svari FME kemur fram að stofnuninni berist reglulega „fjöldi ábendinga og vísana, m.a. um mögulega markaðsmisnotkun, bæði frá Kauphöll og öðrum,“ eins og það er orðað í svarinu. Þar segir einnig að farið sé yfir allar ábendingar og vísanir sem berast og metið hvort þörf sé á frekari aðgerðum.

Stofnunin gefur hins vegar ekki upp hvaða mál séu til skoðunar á hverjum tíma eða hvaða fyrirtæki eigi þar í hlut. ses@mbl.is