Svanur Guðmundsson
Svanur Guðmundsson
Eftir Svan Guðmundsson: "Við komum til með að missa stjórn á raforkumarkaði okkar með upptöku þriðja orkupakkans og getum ekki neitað lagningu raforkusæstrengs til landsins."

Það var fróðlegt að sitja fund með Peter Th. Ørebeck, mínum gamla mentor frá Tromsö. Peter Th. Ørebeck hefur skrifað margar greinar og bækur um auðlindastýringu og nýtingu takmarkaðra og endurnýjanlegra auðlinda og það áður en við Íslendingar tókum upp kvótastýringu. Í máli hans kom fram að við komum til með að missa stjórn á raforkumarkaði okkar með upptöku þriðja orkupakkans og getum ekki neitað lagningu raforkusæstrengs til landsins. Virkjast þar eldri ákvæði fyrsta og annars orkupakka og sá þriðji tekur yfir stjórn þeirra mála með ACER sem er stofnun á vegum Evrópusambandsins og lýtur þeirra boðvaldi en ekki íslenskra stjórnvalda.

Hugmyndir hafa verið uppi um sölu orkufyrirtækja sem að stærstum hluta hafa verið í eigu þjóðarinnar. Einnig eru uppi áform um markaðsvæðingu og uppskiptingu fyrirtækja innan orkugeirans með innleiðingu þriðja orkupakkans. Horfið verður frá því þjónustuhlutverki sem orkufyrirtækin hafa hingað til sinnt yfir í markaðsvæðingu að evrópskri fyrirmynd. Það leiðir til þess að þjóðin þarf að hugsa upp á nýtt nýtingu fallvatna og varmageyma landsins við úthlutun auðlindarnýtingar til virkjana og stýringu til þeirra.

Það er von mín að við Íslendingar berum gæfu til að sleppa því að samþykkja þriðja orkupakkann og þar með afhenda Evrópusambandinu yfirstjórn okkar orkuauðlinda. Ef á hinn bóginn við eigum engra annarra kosta völ þá þurfum við að leika mótleik og taka upp auðlindastýringu á vatni og landi eins og við höfum nú þegar gert varðandi fiskveiðarnar. Á þann eina hátt getum við tryggt yfirráð yfir auðlindum okkar.

Gert er ráð fyrir að orkuverð hækki mikið með tilkomu þriðja orkupakkans en það er meginmarkmið hans að jafna raforkuverð á markaðssvæðum Evrópusambandsins. Þar verður ekkert tillit tekið til annarra þátta, eins og fjarlægðar frá mörkuðum, starfskjara verkafólks eða veðurfars. Afkoma raforkufyrirtækja mun þá batna frá því sem nú er, en hafa má í huga að þau greiða ekkert fyrir afnot af auðlindinni, öfugt við þá sem veiða fisk við Íslandsstrendur.

Með auðlindastýringu er hægt að stýra vatni til virkjana óháð því hver eigandinn er og tryggja þannig hámarksnýtingu. Einnig væri hægt að skipuleggja hve mikið og hve hratt tekið væri úr orkugeymum sem eru í iðrum jarðar og þannig stýra hversu hratt við viljum nýta þá auðlind.

Auðlindastýringin myndi þannig samþætta notkun virkjana, með hámarksnýtingu fyrir augum til að tryggja sem besta nýtingu auðlindarinnar, þó hún verði markaðsvædd að forskrift Evrópusambandsins. Einnig væri hægt að koma því fyrirkomulagi á að hafa framleiðanda til þrautavara á raforku svo ekki verði orkuskortur í landinu. Væri orka flutt út óunnin um raforkusæstreng væri hægt að hafa auðlindagjaldið hærra líkt og gert er í sjávarútvegi við útflutning á óunnum fiski, sem tryggði innlendum kaupendum forgang á orkunni. Þannig væri tekið inn í auðlindarentuna útreikningur á þjóðhagslegum ávinningi af vinnslu afurða úr orkunni hér á landi í samkeppni við „hráan“ útflutning hennar um raforkusæstreng eins og sumir fjárfestar hafa látið sig dreyma um.

Fyrirtæki ættu að greiða auðlindagjald þegar rekstur er farinn að skila afrakstri umfram það sem telst eðlileg ávöxtun eigin fjár, að teknu tilliti til áhættu og sveiflu í rekstri. Þetta fyrirkomulag er núna viðhaft í sjávarútvegi. Það er ekkert óeðlilegt að sama fyrirkomulagi verði komið á í orkuvinnslu og með landnotkun þegar við höfum komið á stýringu sameiginlegra auðlinda þannig að við séum ekki að ganga á orkuforða náttúrunnar, gæði lands eða fiskistofna.

Við úthlutun aflaheimilda náðist hagkvæmni í sjávarútveginn og hagræðing innan greinarinnar. – Hagræðing sem leiddi til meira öryggis sjómanna, betri skipa, bætts skipulags á rekstri og jafnari og betri nýtingar auðlindarinnar en við höfum áður séð. Auðlindastýringin gaf eigendum heimildanna aukinn arð og fyrir það greiða þeir þjóðinni mikla fjármuni í formi auðlindagjalds. Sama er hægt að gera innan orkugeirans.

Með heildarendurskoðun á auðlindastýringu væri sjálfsagt að taka með í reikninginn stýringu á landi sem er í almannaeign. Skilgreint væri burðarþol lands með tilliti til ferðamanna og aðgangsstýringu stjórnað með auðlindagjaldi. Einnig væri skoðað með nýtingu lands undir vindrafstöðvar og staðsetningu þeirra. Takmörkunin mun leiða til hagræðingar og betra skipulags sem á að geta aukið arðsemi, til að mynda í ferðaþjónustu.

Þetta allt þurfum við að gera strax og áður en farið er að ræða upptöku þriðja orkupakka Evrópusambandsins, það er að segja ef við viljum yfirhöfuð taka hann upp. Jafnvel má búast við að Evrópusambandið hafi ekki lengur áhuga á að innleiða orkupakkann ef við værum búin að innleiða áður auðlindastýringu til sjávar og sveita.

Við þurfum að ákveða hvað við ætlum að gera við sameign þjóðarinnar. Nýtingin þarf að taka tillit til sjálfbærni, framtíðar og komandi kynslóða með hámarksafrakstur auðlindanna og sjálfstæði þjóðarinnar sem markmið. Það á enginn annar að gera það en við.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og sjálfstæðissinni. svanur@husaleiga.is

Höf.: Svan Guðmundsson