[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir skráningu í alþjóðlega kauphöll vera eðlilegt skref fyrir Marel og styðja við áframhaldandi vöxt og framþróun félagsins.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir skráningu í alþjóðlega kauphöll vera eðlilegt skref fyrir Marel og styðja við áframhaldandi vöxt og framþróun félagsins. Árni Oddur segir afskráningu Marels úr Kauphöll Íslands hafa komið til greina en eftir ítarlega skoðun og ráðleggingar sé niðurstaðan að stefna að tvíhliða skráningu hlutabréfa í Kaupmannahöfn, Amsterdam eða London auk áframhaldandi skráningar hér á landi en fyrirtækið verður áfram með höfuðstöðvar á Íslandi. „Við erum alþjóðlegt félag sem er ákaflega stolt af uppruna sínum og höfuðstöðvar Marels verða áfram á Íslandi,“ segir Árni Oddur í samtali við Morgunblaðið. Marel greindi frá því við níu mánaða uppgjör fyrirtækisins í vikunni að áform um skráningu í alþjóðlega kauphöll gengju samkvæmt áætlun og búið væri að þrengja kostina niður í kauphallirnar í Amsterdam, Kaupmannahöfn og Lundúnum.

Sammála um tvískráningu

„Við teljum að með tvíhliða skráningu tvinnum við best saman hagsmuni núverandi og framtíðarhluthafa,“ segir Árni Oddur.

En hvers vegna er mikilvægt að vera skráð á Íslandi?

„Það hefur í fyrsta lagi ekkert fyrirtæki í heiminum sem er með mjög góðan hluthafagrunn og hefur stutt félag til vaxtar frá sprota til alþjóðlegra leiðtoga tekið þá ákvörðun að afskrá sig og skrá sig á öðrum stað á einni nóttu. Við skulum heldur ekki gleyma því að Marel var skráð 1992 í íslensku kauphöllina, sem hefur þjónustað Marel alveg svakalega vel. Á þessu tímabili höfum við breyst úr 45 manna fyrirtæki í 6.000 manna alþjóðlegt fyrirtæki. Tekjurnar hafa vaxið úr sex milljónum evra í tæpar 1.200 milljónir evra á þessu tímabili,“ segir Árni.

„Núna erum við ekki bara framleiðandi á búnaði fyrir fisk í Evrópu heldur heimsleiðtogi í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur í fisk-, kjöt- og kjúklingaiðnaði. Stuðningur hluthafa hefur gert það að verkum að við höfum getað vaxið með yfirtökum til viðbótar við kröftugan innri vöxt. Við fjármögnuðum yfirtöku á Stork og Scanvægt með stuðningi hluthafa en síðustu ár höfum við gert það í gegnum sterkt sjóðstreymi og ekki þurft að kalla eftir auknu fjármagni frá hluthöfum,“ segir Árni.

Gengur ekki upp á Íslandi

Árni segir að Marel sé alþjóðlegt félag með tekjustrauma frá öllum heimsálfum en eingöngu 1% tekna kemur frá Íslandi og því sé eðlilegt næsta skref að finna alþjóðlegt leiksvið fyrir hluthafa félagsins. Í fyrrgreindum kauphöllum sé yfir 60% af umfangi viðskipta frá alþjóðafjárfestum en það hlutfall sé innan við 10% í íslensku kauphöllinni. Auk þess segir Árni Oddur að Marel sé orðið um 40% af heildarumfangi þeirrar íslensku og því sé góð áhættudreifing fyrir fyrirtækið að vera hluti af stærra fjármálakerfi.