Útfærslan og rýmið Verk Ingólfs Arnarssonar myndlistarmanns á Jarðhæð eru nákvæmlega útfærð fyrir rými salarins í Hafnarhúsinu.
Útfærslan og rýmið Verk Ingólfs Arnarssonar myndlistarmanns á Jarðhæð eru nákvæmlega útfærð fyrir rými salarins í Hafnarhúsinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Jarðhæð , var það fyrsta sem Ingólfi Arnarssyni myndlistarmanni datt í hug þegar hann á sínum tíma var spurður um yfirskrift sýningar, sem hann opnar kl. 16 í dag í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Jarðhæð , var það fyrsta sem Ingólfi Arnarssyni myndlistarmanni datt í hug þegar hann á sínum tíma var spurður um yfirskrift sýningar, sem hann opnar kl. 16 í dag í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Og þar við sat. Stundum blasa svörin einfaldlega við. Jarðhæð í A-salnum á jarðhæð safnsins samanstendur af 23 nýlegum verkum Ingólfs. Annars vegar 12 steinsteypuverkum, þar sem hann vatnslitar á grunnmálaðar steypuplötur, og hins vegar 11 blýantsteikningum. Að ógleymdum um 1.000 skyggnimyndum, sem hann hefur tekið víða og varpað verður á vegg við inngang sýningarinnar – eða útgang – allt eftir því hvar gestirnir hefja leikinn.

„Uppbygging sýningarinnar er rytmatísk. Eiginlega er um tvær sýningar að ræða, sem blandast saman og verða að einni þegar þessi ólíku veggverk renna saman í eina heild og mynda línulaga frásögn,“ segir Ingólfur.

Teikningar hafa ætíð verið einn stærsti þátturinn í listsköpun Ingólfs, og fínar línur, nákvæmni og tími hans aðalsmerki. Hann hafði þó lítið sem ekkert fengist við steinsteypuverk frá því hann sýndi í Skaftfelli árið 1996, þar til nýverið að hann vann tólf slík sérstaklega fyrir Jarðhæð . Eins og raunar á við um öll verkin á sýningunni útfærði hann þau sérstaklega með hliðsjón af sýningarrýminu.

Andblærinn, birtan og rýmið

„Mjög ákjósanleg staða að hafa fyrirvara og geta unnið, eða að minnsta kosti valið verkin þannig að þau spili með umhverfinu og rýminu. Ég var þó ekki með neinn sýningarstað í huga þegar ég byrjaði að vinna verkin fyrir um þremur árum. Fyrir um ári þegar ljóst var að sýningin yrði í A-salnum, gat ég aftur á móti farið að gera verkin með tilliti til þess og leggja grunn að heildarútlitinu.“

Ingólfur kveðst því næst hafa farið allnokkra göngutúrana niður í Hafnarhús, gengið um salinn, velt vöngum og klórað sér í hausnum.

„Allt öðruvísi tilfinning heldur en að fá sendar myndir frá söfnunum og þurfa að máta sýningu í huganum samkvæmt þeim og tölum á blaði. Með því að koma á staðinn getur maður upplifað andblæinn og fengið tilfinningu fyrir birtu og rými svo nokkuð sé nefnt,“ segir hann.

Í umsögn á vef Listasafns Reykjavíkur stendur að vel megi halda því fram að verk Ingólfs séu aldrei einangruð fyrirbæri heldur ætíð hluti af úthugsaðri innsetningu og sýningarrými. Ályktunin er efalítið dregin af fyrirkomulaginu á fjölda sýninga hér heima og erlendis sem Ingólfur hefur haldið frá því hann lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og hélt til framhaldsnáms við Jan van Eyck-listaháskólann í Hollandi. Frá upphafi myndlistarferilsins hefur hann líka skipulagt sýningar á verkum íslenskra og erlendra listamanna. Ingólfur var einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7 og virkur í starfi sýningarsalarins Önnur hæð á níunda áratugnum. Samhlið störfum að eigin myndlist hefur hann kennt myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og verið prófessor við Listaháskóla Íslands.

Fylgdi hugboði sínu

Þótt verkin á Jarðhæð séu unnin á síðustu fjórum árum og að mörgu leyti skyld fyrri verkum, segir Ingólfur þau um margt ólík þeim sem hann áður hefur sýnt. „Ég hef verið að vinna með ákveðinn hugmyndaforða og forsendur. Teikningarnar eru 27 cm x 22 cm, töluvert stærri en mínar fyrri teikningar, og tæknilega þannig unnar að vinnsluaðferðin er sýnileg. Grunnhugmynd steinsteypunnar er sú sama og áður, en þær eru í öðrum stærðum og hlutföllum. Það fyrsta sem mér datt í hug var að salurinn byði upp á að tefla saman á sýningunni teikningum og steinsteypu. Ég hafði alltaf haldið þessum listformum meira aðskildum á sýningum, en í þetta skipti ákvað ég að fylgja fyrsta hugboðinu.“

Krúsidúllur hafa hvorki átt greiða leið í verk Ingólfs né heldur fígúrur ýmiss konar. Hann er augljóslega maður þess stílhreina. Í teikningunum á sýningunni eru í formin mismunandi en öll í fíngerðum gráum tónum. Hann fer heldur ekki offari í litadýrðinni í vatnslitamyndunum, þar sem eru litafletir í mörgum blæbrigðum af einum og sama litnum ásamt þeim svarta.

Á fyrrnefndri vefsíðu Listasafns Reykjavíkur segir að nákvæmlega úthugsuð verk Ingólfs hafi verið kennd við mínimalisma. En skrifar listamaðurinn undir þá skilgreiningu?

„Ég er ekki mikið fyrir þessa merkimiða. Sumir nota skilgreininguna sem einhvers konar hækju, en hvað sjálfan mig áhrærir er ég hættur að berjast gegn þessu. Ef menn vilja endilega tengja verk mín við mínimalisma, þá læt ég mér á sama standa. Og hvað er mínimalískt þegar öllu er á botninn hvolft? Þegar maður flettir orðinu upp á netinu lendir maður á síðum um lífsstíl en ekki listastefnu,“ segir Ingólfur.