Tapio Telur öfund eitt þeirra afla sem lágu að baki því að fólk vildi knésetja Þórð, föður Möngu.
Tapio Telur öfund eitt þeirra afla sem lágu að baki því að fólk vildi knésetja Þórð, föður Möngu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er full ástæða fyrir okkur nútímafólk að líta til baka og sjá afleiðingar nornaveiða, þær birtast með ýmsum hætti í nútímanum,“ segir Tapio Koivukari um hvaða erindi saga hans frá 17. öld um galdra eigi við nútímann.

„Það er full ástæða fyrir okkur nútímafólk að líta til baka og sjá afleiðingar nornaveiða, þær birtast með ýmsum hætti í nútímanum,“ segir Tapio Koivukari um hvaða erindi saga hans frá 17. öld um galdra eigi við nútímann. Þar segir frá Galdra-Möngu sem bjó á Ströndum og þurfti að leggja á flótta eftir að faðir hennar var brenndur á báli fyrir galdra.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Galdrar voru alþýðuvísindi síns tíma og kirkjan taldi galdra vera hættulausa á miðöldum, nema þeir gætu valdið sálarskaða hjá þeim sem þá stunduðu. En seinna smíðuðu þýskir munkar þá kenningu að galdrar gætu skipt raunverulegu máli, að þeir gætu valdið slysum og veikindum. Menn sem stunduðu galdra voru þá álitnir í beinu sambandi við djöfulinn. Þess vegna bar að leita að, afhjúpa, rannsaka, dæma og taka af lífi galdrafólk, til að hreinsa það illa frá samfélagi mannanna,“ segir finnski rithöfundurinn Tapio Koivukari, en hann sendir nú frá sér skáldsögu um Galdra-Möngu og byggir hana á máli sem átti sér stað í raunheimum á 17. öld. Þá bjó Manga, Margrét Þórðardóttir, í Munaðarnesi á Ströndum, ung heimasæta, en faðir hennar var brenndur á báli fyrir galdra í Trékyllisvík árið 1654.

„Munaðarnesfólkið var talið kunna ýmislegt fyrir sér og saga mín fylgir Möngu á flóttanum eftir að faðir hennar var brenndur, en hún var útskúfuð og ásökuð um fjölkynngi af sveitungum sínum. Samfélagið var stéttskipt og það ræður fyrir vikið miklu um réttindastöðu fólks í hvaða stöðu það er fætt. Kotungssonur hefur ekki sama rétt og sonur sjálfseignarbónda, og ég tel þetta misrétti hafa alið á öfund og gremju, sem hefur kraumað undir yfirborðinu. Þórði föður Möngu gekk vel í lífinu, hann var flinkur og klár og komst vel af, og þá var stutt í öfundina. Öfundin er eitt þeirra afla sem ég tel að geti hafa legið að baki því að fólk vildi knésetja Þórð og að allt fór úr böndunum,“ segir Tapio, sem kynnti sér sögu Þórðar og Möngu dóttur hans vel.

„Þetta fólk var til og þessir atburðir áttu sér stað. Það eru til heimildir um þessa múgsefjun sem fór af stað norður í Árneshreppi. Konur féllu í öngvit í messum og Þórði var kennt um öll hin óútskýrðu atvik. En saga mín er þó skáldsaga sem byggist á heimildum.“

Þurfti að hafa fyrir því að lifa sig inn í heim trúar á áhrifamátt djöfulsins

Tapio heyrði fyrst af Galdra-Möngu þegar hann bjó á Ísafirði fyrir 25 árum ásamt íslenskri konu sinni, Huldu Leifsdóttur myndlistarkonu.

„Þegar ég var að safna efni í bókina mína um morðin á hvalföngurunum, Ariasman, þá flaug mér í hug að ég gæti kannski líka gert bók um Galdra-Möngu. Mér fannst hún áhugaverð þessi múgsefjun og krampaköst kvenna í kirkjunni, hvað hefði átt sér stað og hvað lægi að baki. Manga slapp að lokum, en aftur á móti var vinnukona í Selárdal brennd á báli, eina konan sem brennd var fyrir galdra á Íslandi. Hún var að öllum líkindum blásaklaus. Ég kaus að hafa Möngu sem aðalpersónu bókarinnar, af því hún er sigurvegari, hún sleppur undan ranglætinu og það gefur lesendum von.“

Tapio segir að sér hafi fundist erfitt að setja sig inn í þennan heim galdra og oftar en einu sinni efaðist hann um að nokkuð yrði úr bókinni.

„En ég gat ekki slitið mig frá þessu. Mér finnst gaman að kynna mér það sem er ólíkt því sem ég þekki, ég er guðfræðingur og þurfti virkilega að hafa fyrir því að lifa mig inn í þennan heim trúar á áhrifamátt djöfulsins og trúar á galdra. Pælingar Matthíasar Viðars Sæmundssonar heitins í bókunum hans um galdra hjálpuðu mér mikið, því þar fer hann inn í þennan heim og hvað þetta merkti hjá þeim mönnum sem voru að kukla. Ég las mér líka til um þann tíma sem galdraofsóknir voru í öðrum löndum, heima í Finnlandi og á meginlandi Evrópu, því ég vildi setja mig inn í heimsmynd þess tíma,“ segir Tapio, sem m.a. komst að því að miklu færra fólk var brennt fyrir galdra á Íslandi en í öðrum löndum.

„Það er líka séríslenskt að nánast einvörðungu voru karlmenn brenndir hér, og sama átti við um finnskumælandi sveitir í Finnlandi, þar var meirihluti þeirra sem dæmdir voru fyrir galdra karlmenn.“

Tapio segist líka hafa kynnt sér vel íslenska þjóðtrú, fyrirboða og drauma, draugagang, álfa og huldufólk.

„Manga fær til dæmis vitni um það í draumi að hún verði að láta sig hverfa úr sókninni. Ég er sannfærður um að heimsmynd venjulegs fólks á þessum tíma var þess eðlis að fólk tók virkilega mark á draumum. Og álfar og huldufólk voru hluti af veruleika fólks. Á þessum tíma efuðust prestar almennt heldur ekki um tilvist álfa, þó sumir þeirra hafi litið á álfa sem djöfla í dulargervi. Alþýðumenning innihélt álfatrú og slíkt, sérstaklega í dreifðari byggðum þar sem fólk var í nánum tengslum við náttúruna, en það fólk var fyrir vikið næmara, ég fer ekki ofan af því. Líf í nútímablokkum með rafmagnsljósum og tölvum gerir okkur mannfólkið daufara og ónæmara.“

Blikur á lofti í heiminum og nú er uppgangur fasískra hugsana

Þegar Tapio er spurður að því hvaða erindi bók um galdraofsóknir frá sautjándu öld eigi við okkur nútímafólk, segir hann það vera bjög brýnt erindi.

„Því þó að við höldum almennt að allt stefni til hins betra, þá er tilfellið að margt getur farið versnandi. Mér finnst núna blikur á lofti í heiminum og mörgu fer mjög svo aftur. Til dæmis að æ fleiri fyrirlíta vísindi, fyrirlíta rökhyggju, lýðræði og mannréttindi. Þetta er allt meira og minna í hættu, af því margir halda að það sé ekki mikilvægt að halda þetta í heiðri. Nú er líka uppgangur fasískra hugsana, en til þess að gerast alvöru fasisti þarf einmitt að sniðganga lýðræði, mannréttindi og vísindi, eða láta eins og það skipti ekki máli, heldur aðeins það eitt að hafa sterka leiðtoga sem hafa vit fyrir almenningi og segja almúganum hvernig á að gera hlutina. Og hlusta ekkert á rök. Það er full ástæða fyrir okkur nútímafólk að líta til baka og sjá afleiðingar nornaveiða, þær birtast með ýmsum hætti í nútímanum. Til dæmis getur fólk verið dæmt í fésbókarumræðum og tapað þar mannorðinu. Sögupersónurnar í bókinni minni um Galdra-Möngu eru venjulegt fólk, bæði þeir sem dæma og þeir sem eru dæmdir. En það er harmleikur okkar mannanna að venjulegt fólk getur gert hræðilega hluti. Hræðilegt fólk gerir líka venjulega hluti. Ekkert er svart/hvítt eða fyrirsjáanlegt í samfélagi mannanna.“

Tapio tekur fram að hann sé einstaklega ánægður með þýðingu Sigurðar Karlssonar á bókinni, en þeir tveir hafa unnið saman lengi og Sigurður hefur þýtt allar bækur Tapio á íslensku.

„Það er mikill kostur að Sigurður er lærður leikari, hann leikur í raun textann, hann fer alveg ofan í saumana.“