Andabær Sjálfur Andrés Önd er ekki í stóru hlutverki þar.
Andabær Sjálfur Andrés Önd er ekki í stóru hlutverki þar. — Morgunblaðið/Kristján
Að undanförnu hef ég af og til sest niður með dóttursyni mínum og horft á Sögur úr Andabæ á RÚV.

Að undanförnu hef ég af og til sest niður með dóttursyni mínum og horft á Sögur úr Andabæ á RÚV. Hann er sex ára og hefur gríðarlega gaman af þáttunum, ekki síður en ég hafði af því að lesa Andrés Önd á dönsku á sínum tíma (og læra þar með að skilja Norðmenn en það er önnur saga). En mér finnst verulega hallað á mína uppáhaldspersónu frá barnæskunni, sjálfan Andrés Önd (sem ég hélt lengi vel að væri danskur). Hann virðist vera algjör aukapersóna í þáttunum, sést aðallega í inngangskaflanum, og þá sjaldan honum bregður fyrir í sjálfum þáttunum er sá sem talar fyrir hann gjörsamlega óskiljanlegur. „Já afi, ég skil hann ekki heldur. Ég veit ekki um neinn sem skilur hann!“ segir sá stutti. Ég minnist þess ekki að Andrés hafi verið með sérstaka málgalla í Andrésblöðunum. Andrésína og fleiri úr fjölskyldunni eru líka í hálfgerðum dvala en Rip, Rap og Rup halda uppi fjörinu ásamt einhverjum nýjum andastelpum og Jóakim Aðalönd. Svo fór mamma Bjarnabófanna hamförum í þætti sem ég sá um daginn. Ég er búinn að biðja stráksa um að láta mig vita næst þegar Andrés verður með. Þá ætla ég að horfa.

Víðir Sigurðsson