Málverk Verk á sýningu Steingríms í Tveimur hröfnum.
Málverk Verk á sýningu Steingríms í Tveimur hröfnum.
Myndlistarmaðurinn Steingrímur Gauti Ingólfsson opnaði sýningu í gær í galleríinu Tveimur hröfnum. Sýningin ber titilinn Ekki gera neitt og í texta sem Starkaður Sigurðarson ritar um sýninguna segir m.a: „Steingrímur Gauti heldur áfram að mála.

Myndlistarmaðurinn Steingrímur Gauti Ingólfsson opnaði sýningu í gær í galleríinu Tveimur hröfnum. Sýningin ber titilinn Ekki gera neitt og í texta sem Starkaður Sigurðarson ritar um sýninguna segir m.a: „Steingrímur Gauti heldur áfram að mála. Hérna eru ný málverk. Unnin núna af hendi sem er orðin vön. Málarinn meira og meira að tala ekki bara við annað fólk, heldur við sjálfan sig. Viðureignin ekki bara við það að setja upp sýningu heldur við það að mála, málverkið, málverkið sitt. Hvað hef ég málað áður? Er þetta fyrir mig eða ykkur? Hvað vantar? Samtalið er víðara, sjálfhverfara, það er viðkvæmt af því það endar aldrei, en ákvörðunin er tekin: þetta eru málverk, ég er að mála.

Þessi málverk eigast við sjálf. Togast á um hvað þau vilja sýna okkur, og hvað þau vilja ekki sýna okkur. Er það eitthvað stórt, eða eitthvað lítið? Kyrrt eða á hreyfingu? Eitthvað sem við sjáum eða eitthvað sem er falið? Það er eitthvað hérna sem er undir og eitthvað sem er yfir; eitthvað sem er yfirborðið, og eitthvað sem er um hvernig málverk sýnir okkur eitthvað. Það er óvissa, og leit, en líka eitthvað sem hefur fundist. Og þá finnur maður líka fyrir því hversu viðkvæmt þetta sem fundist hefur er, hversu lítið það getur verið, og einfalt. En það er flókið að búa til þennan eina lit sem gerir málverkið list, þessa einu línu, eða slettu, eða staf, þetta gat sem sýnir það sem er undir þessum svarta lit, eða ákvörðunina að mála yfir allt það sem er ekki listaverkið.“

Steingrímur Gauti fæddist árið 1986 og útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2015. Hann nam einnig við Universität der Künste í Berlín og Myndlistaskólann í Reykjavík og hefur verið virkur í sýningarhaldi frá útskrift. Sýning Steingríms í Tveimur hröfnum er sjötta einkasýning hans.