Kristín Birna Fossdal og Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir.
Kristín Birna Fossdal og Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir. — Ljósmynd/Gunnar Svanberg
Kristín Birna Fossdal rafvirkjameistari hefur unnið við fagið frá árinu 1996. „Ég byrjaði 15 ára gömul að vinna við viðgerðir,“ segir Kristín en það var í raun hending sem réð því að hún valdi sér þessa braut. „Í 10.

Kristín Birna Fossdal rafvirkjameistari hefur unnið við fagið frá árinu 1996. „Ég byrjaði 15 ára gömul að vinna við viðgerðir,“ segir Kristín en það var í raun hending sem réð því að hún valdi sér þessa braut. „Í 10. bekk áttum við að velja okkur hvert við vildum fara í starfskynningu. Það vildi svo til að það var rafvirki að vinna heima akkúrat þennan morgun og ég bara bað hann um að taka mig í starfskynningu. Hann bauð mér vinnu eftir kynninguna,“ segir Kristín, sem hóf þegar störf við viðgerðir um sumarið eftir 10. bekk.

Svo vel kunni hún við starfskynninguna og sumarvinnuna að hún fór beint að læra fagið. Hún tók sveinsprófið árið 2001. „Þegar ég útskrifast úr sveinsprófinu þá var mér sagt að ég væri níunda konan hér á landi til að ljúka því. Það hefur bæst mikið við síðan þá,“ segir Kristín, en hún varð rafvirkjameistari árið 2010.

Hún segir Anítu hafa verið afbragðsnema. „Hún á eftir að spjara sig. Hún er dugleg og vill læra. Núna er hún orðin fullnuma rafvirki og ég er bara nokkuð stolt af henni,“ segir meistarinn um nemann.

En Kristín vill gjarnan sjá fleiri konur sækja í rafvirkjun. „Ég held kannski að of margar stelpur sjái rafvirkjun fyrir sér sem eitthvert „skítadjobb“ og að þær þurfi að vera á skítugu verkstæði. En þetta er alls ekki þannig. Starfið er mjög fjölbreytt og það hentar konum ekki síður en körlum, jafnvel hentar konum bara betur en körlum. Þetta er alls ekki bara karlastarf. Þetta er til dæmis ekki líkamlega erfitt starf, eins og margir kynnu að halda. Þetta er mjög fjölbreytt starf og þú getur valið þér hvaða leið þú ferð.“

Á vinnustað Kristínar og Anítu, Orku náttúrunnar, eru alla jafna fjögur nemapláss fyrir iðnnema. Að sögn Kristínar eru tvö pláss ætluð stelpum og tvö ætluð strákum, en hugmyndin með því er að mynda hvata fyrir stelpur í iðnnámi að koma inn á nemasamning.

„Ég myndi vilja fá fleiri konur í þetta fag. Við sem störfum við þetta þurfum líka að verða sýnilegri, vera duglegri að segja frá því að það eru konur í þessu fagi líka,“ segir Kristín Birna.