Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Seðlabanki Íslands tilkynnti í gær að reglum frá júní 2016 um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris hefði verið breytt á þá vegu að bindingarhlutfall reglnanna færi úr 40% niður í 20%.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Seðlabanki Íslands tilkynnti í gær að reglum frá júní 2016 um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris hefði verið breytt á þá vegu að bindingarhlutfall reglnanna færi úr 40% niður í 20%. Sagt er í tilkynningu bankans að markmið bindingarskyldunnar hafi verið að tempra og hafa áhrif á samsetningu innstreymis erlends fjármagns á innlendan skuldabréfamarkað og hávaxtainnistæður, auk þess sem hún átti að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar. Minni vaxtamunur gagnvart útlöndum og lægra gengi krónunnar hafi hins vegar skapað aðstæður til þess að lækka hlutfallið.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að lækkun bindiskyldunnar sé mjög jákvætt og tímabært skref. „Að okkar mati hafa rökin fyrir beitingu innflæðishaftanna verið fremur veik við þær aðstæður sem við höfum búið við undanfarið, enda má líta á beitingu slíkra hafta sem neyðarúrræði og slíka neyð hefur ekki verið að sjá í íslensku efnahagsumhverfi.“

Ásdís bætir við að ef aðgerðin opni ekki á verulegt innflæði fjármagns og ógni ekki fjármálalegum stöðugleika í landinu búist hún fastlega við því að Seðlabankinn stígi frekari skref og lækki bindiskylduna í 0% eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur m.a. ítrekað mælt með. 6