Höfundur Óskar Guðmundsson við vegg með myndum af Þorsteini Jakobssyni sem kallaður var Steini Hreða.
Höfundur Óskar Guðmundsson við vegg með myndum af Þorsteini Jakobssyni sem kallaður var Steini Hreða. — Ljósmynd/Guðlaugur Óskarsson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Saga fullveldisársins, 1918, í Borgarfirði er að hluta til sögð með orðum borgfirsks vinnumanns, Þorsteins Jakobssonar, sem kallaður var Steini Hreða.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Saga fullveldisársins, 1918, í Borgarfirði er að hluta til sögð með orðum borgfirsks vinnumanns, Þorsteins Jakobssonar, sem kallaður var Steini Hreða. „Við heiðrum minningu hans sérstaklega, segjum frá þessum gleymda syni héraðsins og andans stórmenni,“ segir Óskar Guðmundsson, rithöfundur í Véum í Reykholti, höfundur sýningarinnar.

Sýning Snorrastofu er í hátíðarsal stofunnar í gamla héraðsskólahúsinu. Hún verður opnuð í dag, kl. 14, og þá fylgir Óskar sýningunni úr hlaði með fyrirlestri. Sýningin verður einnig opin helgina 1. og 2. desember en annars eftir samkomulagi.

Óskar segir að fullveldissýningin sé hefðbundin sögusýning þar sem saga fullveldisársins í Borgarfirði er sögð. Höfundurinn notar handskrifuð blöð og minnispunkta Þorsteins Jakobssonar til að segja söguna og margs konar aðrar heimildir um viðburði í héraðinu.

Óskar hóf heimildarvinnu sína hjá Félagi eldri borgara í Borgarfjarðardölum og komst þar á bragðið. Til eru á söfnum handrituð blöð sem Þorsteinn gaf út, meðal annars blaðið Geir sem hann gaf út í 60 ár.

Gáfað náttúrubarn en sérsinna

„Hann var einnig það eftirminnilegur maður að menn skrifuðu um hann og enn muna margir eftir honum. Ég get ekki notað þessar heimildir nema takmarkað og það bíður betri tíma að vinna frekar úr þeim,“ segir Óskar. Hann lýsir Steina Hreða sem gáfuðu náttúrubarni. Hann ólst upp á Hreðavatni og kenndi sig við þann bæ. Þorsteinn var afburða verkmaður og vann langan vinnudag en þótti mjög sérsinna og einkennilegur á köflum. Gekk til dæmis berfættur, berhentur og berhöfðaður.

„Ég dreg þær ályktanir af þessari vinnu að Borgfirðingar og Mýramenn hafi verið miklu nánari á fyrrihluta aldarinnar en síðar varð. Allir lögðust saman á árarnar í margvíslegum framfaramálum. Að því er að hyggja að ég er að fjalla um tímabil þar sem efnahagslægð var ríkjandi. Mér finnst áhugavert hvernig unnið var úr þeim aðstæðum. Sjálfum finnst mér eins og frelsi og framfarir hafi hafist af miklum þrótti á heimastjórnartímanum, frekar en á fullveldisárinu þótt það hafi í sjálfu sér verið merkur áfangi. Ég skoða allt árið í samhengi við mannfólkið. Menningarstofnanir gjörbreyttu samfélaginu, eins og Hvítárbakkaskólinn, Hvanneyrarskóli og Mjólkurskólinn á Hvítárvöllum. Þá reis hið kúgaða kyn, konur, á fætur og þess sér margvísleg merki,“ segir Óskar.