Hvergi ófriðlegra en í Mið-Austurlöndum

Loftárásum var haldið áfram í Jemen í gær af hálfu Sádi-Araba og bandamanna þeirra þvert á áköll bæði Bandaríkjamanna og Sameinuðu þjóðanna. Hafa bæði Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Mike Pompeo utanríkisráðherra hvatt til þess að endi yrði bundinn á stríðið í Jemen og skorað á Sádi-Araba að hætta loftárásunum.

Ástandið í Jemen eftir rúmlega þriggja ára styrjöld er skelfilegt. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær er rakið að fjórtán milljónir manna þurfi á aðstoð að halda og rúmlega helmingur þeirra sé á barnsaldri. Óttast er að hungursneyð muni bresta á í Jemen á næstu mánuðum. Heilbrigðiskerfið er í lamasessi og smitsjúkdómar á borð við kóleru breiðast út.

Ekki er vitað hvað margir hafa fallið í stríðinu eða látist vegna átakanna. Talan tíu þúsund er iðulega nefnd, en margir telja að mannfallið sé mun ef ekki margfalt meira.

Átökin hófust með uppreisn Húta í mars 2015. Þeir eru sítar og njóta stuðnings Írana.

Sádar eru svarnir fjendur Írana og vilja síst að þeim vaxi ásmegin. Þeir hafa því lagst á sveif með súnníum í landinu og látið sprengjum rigna yfir Jemen. Af og til hafa átökin ratað inn í borð alþjóðlegra fjölmiðla, en það er vegna morðsins á Jamal Khashoggi í ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl og fallandi gengis Mohammeds bin Salmans, arftaka krúnunnar í Sádi-Arabíu, að athyglin beinist nú að Jemen.

Mið-Austurlönd hafa verið vettvangur spennu og átaka um langt skeið og undanfarin sjö ár hafa verið tími sérstaklega skæðra blóðsúhellinga, sem hafa leikið samfélög grátt. Fyrir þann tíma voru við völd einræðisherrar, sem ekkert virtist geta haggað. Nú hefur þeim verið sópað burt með hrikalegum afleiðingum, nema í Sýrlandi þar sem harðstjórinn Bashar al-Assad setur sjálfan sig ofar öllu öðru, staðráðinn í að halda völdum sama hvað það kostar mikla eyðileggingu og mörg mannslíf.

Hræringarnar í Sádi-Arabíu um þessar mundir helgast meðal annars af því að ráðandi öfl í landinu óttast að þar gæti almenningur ruðst upp á dekk. Þau boða því breytingar, en reyna að skammta þær og stýra harðri hendi. Hvort það mun takast er annað mál.

Tölur frá Sameinuðu þjóðunum bera ástandinu vitni eins og þýski blaðamaðurinn Rainer Hermann rekur í bók sinni Arabisches Beben (Arabískur landskjálfti). Í arabaheiminum búa 5% jarðarbúa. Þar eru 45% allra hryðjuverka framin. Þar er að finna 47% þeirra sem hafa flosnað upp frá heimilum sínum og eru á vergangi heima fyrir. Þaðan koma 57,5% flóttamanna sem hafa yfirgefið heimaland sitt. Að auki eru tveir af hverjum þremur mönnum, sem hafa fallið eða særst í átökum, arabar.

Ekki er búist við því að ástandið muni batna á næstunni. Sameinuðu þjóðirnar telja að 2050 muni þrír af hverjum fjórum aröbum búa í löndum þar sem mikil hætta sé á átökum. Sú ályktun er meðal annars dregin af útgjöldum til vopnakaupa og hernaðarmála. Í arabaheiminum voru þau á tímabilinu 1988 til 2014 að jafnaði 75% hærri á hvern íbúa en að meðaltali í heiminum. Eins og Hermann bendir á eru menn hvergi í heiminum jafn gráir fyrir járnum og í Austurlöndum nær.

Þá eru innviðir þessara landa komnir að þolmörkum og jafnvel yfir þau. Hvergi er fólksfjölgun jafn mikil nema í Afríku sunnan Sahara. Eins og efnahagsástandinu er háttað í þessum löndum verður enga vinnu að fá fyrir allt þetta unga fólk.

Ferskt vatn er af mjög skornum skammti í þessum heimshluta. Reiknað hefur verið út að í arabaheiminum er notkun vatns 16% umfram það sem verður til í endurnýjanlegum vatnsbólum. Ástandið er sennilega verst í Jemen. Talað er um að hver maður þurfi að lágmarki 500 rúmmetra af vatni á ári til daglegra nota. Meðalnotkunin í Jemen er 88 rúmmetrar og í höfuðborginni þarf að bora niður á þúsund metra dýpi til að ná niður á vatn.

Ekki er nokkur leið að sjá hvað muni koma út úr þessum umbrotum í arabaheiminum. Átakalínan liggur milli greina íslams, súnnía og síta, en baráttan snýst um völd og ítök og eins hægt að búast við því að ástandið muni versna áður en um hægist.