Hægri bakvörður Manchester United á langa sendingu inn í vítateiginn. Miðvörður Liverpool stekkur upp og skallar boltann frá. Dómarinn blæs umsvifalaust í flautu sína og bendir á vítapunktinn! Gæti þetta gerst? Þá er ég ekki að tala um dómaramistök.
Hægri bakvörður Manchester United á langa sendingu inn í vítateiginn. Miðvörður Liverpool stekkur upp og skallar boltann frá. Dómarinn blæs umsvifalaust í flautu sína og bendir á vítapunktinn!

Gæti þetta gerst? Þá er ég ekki að tala um dómaramistök. Já, það er ekki útilokað að í knattspyrnuleikjum framtíðarinnar verði bannað að skalla boltann.

Þetta yrði líklega stærsta breytingin á þessari vinsælustu íþrótt heims frá því markverðinum var bannað að taka boltann með höndum eftir sendingu frá samherja. Sennilega stærri.

Það er erfitt að ímynda sér fótboltaleik þar sem bannað er að reka höfuðið viljandi í boltann. Góðir skallamenn þykja ómissandi í hverju liði. En þessi róttæka breyting hefur þegar verið í gildi í tvö ár í Bandaríkjunum hjá börnum yngri en 11 ára og kallað er eftir henni víðar.

Forseti UEFA hefur sagt að skoðað verði alvarlega að taka þetta upp alls staðar í þessum aldursflokki í Evrópu ef ástæða sé til. Samtök enskra atvinnumanna vilja að Englendingar fari að dæmi frænda sinna í vestri.

Það eru höfuðhöggin og rannsóknir á afleiðingum þeirra sem hafa smám saman fengið meiri athygli á síðustu misserum. Mesta hættan stafar ekki endilega af því að skalla boltann, heldur af árekstrunum sem verða þegar tveir eða fleiri leikmenn stökkva upp og skella saman.

Ef þær rannsóknir sem eru víða í gangi sýna fram á með óyggjandi hætti að börnum og ungmennum sé hætta búin af því að skalla fótbolta á KSÍ að taka til sinna ráða. Engin spurning.