Vetur Hekla í vetrarbúningi virðist gnæfa yfir þéttbýlið á Hellu, en aðdráttarlinsa breytir fjarlægðum.
Vetur Hekla í vetrarbúningi virðist gnæfa yfir þéttbýlið á Hellu, en aðdráttarlinsa breytir fjarlægðum. — Morgunblaðið/Óli Már Aronsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Óli Már Aronsson Hellu Nýlega var birt skýrsla sem Rangárþing ytra lét gera um komur og dvöl ferðamanna í sveitarfélaginu. Skýrslan tekur til áranna frá 2008 til 2017.

Úr bæjarlífinu

Óli Már Aronsson

Hellu

Nýlega var birt skýrsla sem Rangárþing ytra lét gera um komur og dvöl ferðamanna í sveitarfélaginu. Skýrslan tekur til áranna frá 2008 til 2017. Áætlað er í skýrslunni að 230 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið í Rangárvallasýslu árið 2008 en 1.381 þúsund árið 2017, sem er sexföldun á ársgrundvelli. Það vekur athygli að yfir sumarmánuðina þrjá er fjölgunin aðeins 3,4-föld en 13-föld yfir vetrarmánuðina.

Brúarframkvæmdir yfir Þverá neðan við Odda ganga fremur rólega vegna mikilla anna hjá brúarverktökum, en nú sést fyrir endann á fjármögnun verksins og áætlað er að því ljúki að fullu á næsta ári. Brúin mun m.a. stórauka öryggi íbúa sunnan Þverár sem flóttaleið ef til hamfaraflóðs kemur á svæðinu.

Nýtt deiliskipulag fyrir Landmannalaugasvæðið tók gildi fyrr á þessu ári og Rangárþing ytra fékk úthlutaðar 60 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að lagfæra og endurbyggja framtíðarbílastæði við Námakvísl. Framkvæmdir hafa tafist vegna leyfisveitinga, en vonast er til að því verkefni ljúki á næsta ári. Öll þessi mál Landmannalauga eru unnin í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun sem hefur yfirumsjón með framkvæmdum.

Verslunin Mosfell á Hellu hættir starfsemi upp úr áramótum ef enginn tekur við af núverandi eiganda, Einari Kristinssyni, sem hefur ákveðið að láta gott heita. Mosfell hefur verið rekin í vel yfir 50 ár og nú nýlega auglýsti Einar að hann hygðist hætta rekstrinum þar sem hann er að komast á níræðisaldur. Óskar hann eftir að áhugasamir gefi sig fram sem vilja halda rekstri verslunarinnar áfram.

Rangárþing ytra hefur fest kaup á húseign Fannbergs ehf. við Þrúðvang 18. Lóðin stendur við hlið leikskólans Heklukots og verður húsið og lóðin nýtt til stækkunar leikskólans. Reiknað er með að ný deild verði í húsinu og hún verði komin í gagnið um eða upp úr áramótum. Samningar standa nú yfir um að Fannberg fasteignasala og skrifstofa KPMG muni flytja á efri hæðina í húsnæði Arion banka við Þrúðvang 5 á Hellu.

Neslundur ehf. er félag sem var stofnað á sínum tíma til að byggja hentugar íbúðir fyrir 60 ára og eldri í nágrenni við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu. Nú er hafist handa við undirbúning að því að byggja fyrstu 4 íbúðirnar og verður væntanlega byrjað á þeim fljótlega. Íbúðirnar verða u.þ.b. 80 fermetrar að stærð hver og fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir ca. 100 milljónum króna í verkið allt. Ef fjármögnun tekst eins og áætlað er, verða þetta leiguíbúðir. Það byggist á að hagstæð lán og framlög til leiguíbúða fáist frá ríki og sveitarfélagi. Takist það ekki verða þær seldar.

Lionsklúbburinn Skyggnir mun núna í nóvember standa fyrir sykursýkismælingum meðal almennings í Rangárvallasýslu eins og gert hefur verið af og til undanfarin ár. Mælingarnar fara fram við verslanir á Hellu og Hvolsvelli um miðjan nóvember, með aðstoð hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvunum. Lionsklúbburinn greiðir þann kostnað sem fellur til, en mælingin er ókeypis.

Íbúðablokk í eigu Rangárþings ytra að Þrúðvangi 31 var nýlega seld Glób ehf. sem hyggst leigja íbúðirnar áfram á almennum markaði. Söluverðið var 108 milljónir króna. Sveitarfélagið er með allar íbúðirnar á leigu út árið 2019 eða þar til það hefur eignast nýjar félagslegar íbúðir í stað þeirra sem seldar voru. Húsið á sér langa og merkilega sögu enda hýsti það eitt sinn m.a. Kaupfélagið Þór og Skattstofu Suðurlands. Í framhaldi af sölunni á Þrúðvangi 31 gerði sveitarfélagið samkomulag við þrjá byggingarverktaka á svæðinu um kaup á 6 nýjum íbúðum sem nýttar verða til félagslegrar útleigu.

Byggingaframkvæmdir á Hellu hafa farið ört vaxandi síðasta árið og má sjá fram á talsvert framboð af nýjum fullbúnum raðhúsaíbúðum næstu 1-2 árin, fyrir utan nokkur einbýlishús sem einstaklingar eru að byggja. Þar má t.d. nefna tvö 4ra íbúða raðhús sem Naglafar ehf. er komið af stað með og önnur tvö 4ra íbúða raðhús sem eigandi Stracta hótels er að reisa og eru nú þegar komin upp úr jörð. Fleiri raðhúsalóðum hefur verið úthlutað þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar enn þá. Í öllu sveitarfélaginu munu alls vera um 50 íbúðir í byggingu.

Karlakór Rangæinga heldur uppi öflugu starfi og framundan eru stórtónleikar hjá kórnum þar sem fram koma með honum tenórinn Óskar Pétursson og Valgeir Guðjónsson Stuðmaður. Tónleikarnir verða í íþróttamiðstöðinni í Þykkvabæ 10. nóvember og hefjast kl. 15.