[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október. Ráðstefnan var haldin í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá gosi í Kötlu. Fjögur hundruð manns lögðu leið sína til Víkur þennan föstudag.

Það var góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október. Ráðstefnan var haldin í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá gosi í Kötlu. Fjögur hundruð manns lögðu leið sína til Víkur þennan föstudag.

Þar sem ég sat og hlustaði á hvert erindið á fætur öðru fór ég að velta fyrir mér öllum þeim orðum sem við Íslendingar eigum um eldgos, eða jarðelda eins og segir í eldri textum.

Það eru orð eins og aska, vikur, móða, bólstrar, gufumökkur, gosmökkur, öskustrókur, gjóska, vikur og áður var talað um sand eða sandöskulag. Mor eða morbálka kalla Skaftfellingar mistur í lofti sem stafar af því að aska eða jökulleir fýkur um í þurru veðri.

Lýsingar á flóði sem kom á fyrsta degi Kötlugossins voru jökulhlaup, vatnshlaup, jökulflóð og vatnsflóð. Það sem flóðið skildi eftir á sandinum var jökulborgir, jakahrönn eða jökulhrönn. Þessi orð lýsa þeim ísbjörgum sem jökullinn fleytir fram. Til að lýsa krafti flóðsins er sagt í eldri frásögn: „Einn slíkur jaki lenti á móbergsdrangi sem sagt er að hafi kurlast við áreksturinn.“ Myndir frá Gjálpargosinu 1996 sýndu hvernig jakarnir brutu steypta brúarstólpa og styðja þessa frásögn.

Það er áhugavert að sjá í gömlum frásögnum af eldgosum hvernig menn leggja sig fram um að lýsa þvi sem er ólýsanlegt. Sögumennirnir vita að þeim verður ekki trúað svo ótrúlegt er margt sem gerist í náttúruhamförum. Í flestum frásögnunum er lýsing á myrkrinu sem fylgir þéttu öskufalli og notuð orð eins og niðamyrkur og sorti. Sýslumaður í Álftaverinu lýsti myrkrinu með þessum orðum: „Svo myrkt að enginn sá annan þó í hendur hjeldust og þó maður bæri höndina upp að andliti sínu sá maður hana ekki.“ Þessar lýsingar voru flestum framandi og varla gat þetta hafa verið alveg svona en þeir sem lentu í öskufallinu frá Eyjafjallajökli og ári síðar Grímsvötnum geta staðfest að myrkrið í miklu öskufalli er algjört.

Þekkt er myndin af Eyjafjallajökli þar sem eldingar lýsa upp öskustrókinn. Lýsingar á þessu fyrirbæri eru margar frá Kötlugosum og þá notað orðið eldglæringar. Önnur orð eru: Ljósagangur, tindruðu eldglossar, glampar og leiftur. Orðið reiðarslag kemur oft við sögu og merkir þá högg af eldingu. Í dag notum við þetta orð um áfall, eitthvað sem kemur skyndilega og umturnar lífi okkar eins og eldgosin gerðu og gera enn.

Katla er mjög nærri byggð og fólk heyrði hvin, bresti, stórbresti, skruggur, öskrandi þrumur og mjög margir tala um dunur og dynki. Þessi hávaði var að nóttu sem degi þannig að varla hefur fólki verið svefnsamt þessa 24 daga sem gosið stóð.

Það var nefnilega þannig að gosið stóð frá 12. október 1918 til 4. nóvember. Þykir mér harla langt síðan ég fór á ráðstefnu til Víkur en hversu langur þessi tími var í hugum fólksins í Skaftafellssýslu 1918 eigum við bágt með að ímynda okkur.

Lilja Magnúsdóttir