Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hún er stór, og hún er smá. Hún er skeifu framan á. Stafar henni fnykur frá. Fram sig teygir út í sjá. Harpa á Hjarðarfelli svarar: Ég hef stóra og stutta tá. Stendur heststá skeifu á.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hún er stór, og hún er smá.

Hún er skeifu framan á.

Stafar henni fnykur frá.

Fram sig teygir út í sjá.

Harpa á Hjarðarfelli svarar:

Ég hef stóra og stutta tá.

Stendur heststá skeifu á.

Stundum tánum fýla er frá.

Fjarða milli skagar tá.

Guðrún Bjarnadóttir leysir gátuna þannig:

Á litlutá stend og stórutá,

og Stjarna með skeifu á tá rétt hjá,

en táfýlan skekkir skyn mitt smá

á Skagatá við úfinn sjá.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Tá er stór, og tá er smá.

Tá er skeifu framan á.

Tánni stafar fýla frá.

Fram í sjóinn gengur tá.

Þá er limra:

Hárprúð var Gerða á Grjótá,

glaðsinna, lipur og fótfrá,

uns brjáluð og galin

og bandvitlaus talin

Bergþóra af henni hjó tá.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund:

Létt nú bæri ljóðastrenginn

laugardagsins morgni á,

vetur þó í garð sé genginn,

í gátuna er vert að spá:

Mikið bannsett bull er þetta.

Birtist þegar rakt er á.

Klessu sá frá kúnni detta.

Klæðnaður er blautur sá.

Sigmar Ingason rataði ekki á rétta lausn en svar hans er skemmtilegt og hefur víða skírskotun í borgarpólitíkinni eins og menn þekkja:

Útrásirnar oft við illa pössum

afrennslið skal síst af öllu tafið,

afurðir úr óteljandi rössum

um þær flæða út í bláa hafið.

Á fimmtudag fyrir rúmri viku sagði Ingólfur Ómar að senn liði að vetri og því gott að ylja sér við kveðskap:

Þó að hret og húmið svart

herji á um vetur.

Láttu ætíð ljósið bjart

lýsa sálartetur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is