Pétur Guðmundsson fæddist á Siglufirði 7. júlí 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 25. október 2018.

Pétur var sonur hjónanna Dýrleifar Bergsdóttur frá Ólafsfirði og Guðmundar Konráðssonar frá Sléttuhlíð í Skagafirði. Pétur ólst upp á Hafnargötu 16 á Siglufirði og bjó þar alla sína tíð. Eftir að foreldrar hans létust bjó hann þar með bróður sínum Ólafi sem var hans helsti samferðamaður í gegnum lífið.

Útför Péturs fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 3. nóvember 2018, klukkan 14.

Við Pétur vorum bræðrasynir og bjuggum við saman hlið við hlið alla okkar barnæsku. Húsin eru enn í eigu innan fjölskyldu okkar og því hefur nálægðin verið mikil og góð í gegnum öll þessi ár. Pétur og bróðir hans Óli hafa því verið stór partur af mínu lífi allt fram til dagsins í dag. Oft var talað um þá bræður sem einn og sama manninn „Óla og Pétur“ þar sem þeir unnu saman, deildu sömu áhugamálum og var annar aldrei langt undan hinum ef þeir sáust í frítíma sínum eða niðri á bryggju þar sem þá var oftast að finna.

Pétur byrjaði snemma að vinna sem sendill í Kaupfélaginu og á síldarplani Rauðku þar sem hann var þróarmaður. Einnig vann hann m.a. í byggingarvinnu og var landmaður við bát og síðan á sjó á Hringi SI 34 og á Skagfirðingi eða Tappatogaranum svokallaða.

Þegar við ræddum um liðna tíma þá sagði hann mér frá því að erfiðasta vinnan sem hann hafði unnið var að moka síld með síldargöfflum upp í löndunarskúffur þegar flutningaskipin komu með Hvalfjarðarsíldina á Sigló. Þá var Pétur aðeins 18 ára. Fljótt tók sjómannslífið við hjá þeim bræðrum Óla og Pétri og á haustin og vorin var farið á sjó á trillunni þeirra sem bar nafnið Ófeigur.

Voru margar ferðir farnar á sel og svartfugl og varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fara með þeim í þær ferðir, þá fyrst sem stráklingur.

Árið 1969 fengu þeir pabba minn Konna Konn og föðurbróður þeirra til að byggja fyrir sig átta tonna afturbyggðan trébát sem þeir nefndu Farsæl en sá bátur reyndist þeim mikil happafleyta. Bræðurnir gerðu bátinn út í rúm 20 ár en hann er nú í eigu Síldarminjasafnsins á Siglufirði sem mér þykir ákaflega vænt um.

Pétur var mikill íþróttamaður, hann keppti bæði í svigi og stórsvigi á Landsmótum fyrir hönd Siglufjarðar og einnig í badminton og komst hann oft á verðlaunapall. Pétur var einstaklega laghentur og smíðaði bæði úr tré og járni. Seinni árin var hann mikill grúskari og nýtti sér nýjustu tölvutækni til að viða að sér fróðleik.

Veiðimennskan var Pétri í blóð borin líkt og öðrum karlpeningi í Konna ættinni eins og hún er oft kölluð.

Hann hafði m.a. gaman af rjúpna- og gæsaveiðum og einnig voru ófáar ferðir farnar á vorin í Málmey í eggjatöku. Við Kiddi bróðir deildum sömu áhugamálum með þeim bræðrum og vorum við svo lánsamir að fara í ófáar veiðiferðir í gegnum árin.

Við eigum okkar veiðifélag saman sem nefnist Fiðurfélagið og fórum við síðast í veiði á haustdögum en Pétur komst ekki með í þá ferð vegna veikinda. Minningar þessar eru ómetanlegar og oft var glatt á hjalla hjá okkur frændum.

Góður drengur er nú fallinn í valinn.

Ég sendi Óla mínar innilegustu samúðarkveðjur og er ég þakklátur fyrir samveruna með þeim bræðrum í gegnum öll þessi ár. Minning Péturs lifir með okkur áfram.

Sigurður Konráðsson

(Siggi Konn).