Margs konar fræðsluefni er að finna á vefnum www.synumkarakter.is.
Margs konar fræðsluefni er að finna á vefnum www.synumkarakter.is. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Átaksverkefnið Sýnum karakter er upphaflega hugarfóstur dr. Viðars og Valdimars Gunnarssonar, þjálfara hjá HSK, en fljótlega kom dr. Hafrún Kristjánsdóttir, lektor og sviðsstjóri íþróttasviðs HR, inn í verkefnið á móti Viðari.

Átaksverkefnið Sýnum karakter er upphaflega hugarfóstur dr. Viðars og Valdimars Gunnarssonar, þjálfara hjá HSK, en fljótlega kom dr. Hafrún Kristjánsdóttir, lektor og sviðsstjóri íþróttasviðs HR, inn í verkefnið á móti Viðari. „Hugmyndin er sú að við hljótum að geta þjálfað sjálfstraust eins og við þjálfum stökkkraft, getum þjálfað leiðtoga eins og við getum þjálfað hraða og svo framvegis. Að við getum þjálfað andlega færni allt eins og líkamlega færni,“ útskýrir Viðar.

Hann segir að þrátt fyrir að til hafi verið námskrár hjá íþróttafélögunum um líkamlega þjálfun hafi þar ekkert verið að finna um andlega þjálfun. Svo Viðar og Valdimar lögðu drög að námskrá yfir það hvaða þætti andlegrar færni væri hægt að þjálfa og á hvaða aldri. ÍSÍ og UMFÍ tóku hugmyndinni opnum örmum og settu átaksverkefnið Sýnum karakter á laggirnar fyrir um fjórum árum. Nú heimsækja þau Hafrún og Viðar reglulega íþróttafélög og fræða skipuleggjendur og þjálfara um námskrána og hvernig hægt sé að byggja upp andlega þáttinn, jafnt sem hinn líkamlega, hjá ungum íþróttaiðkendum.

„Við hjálpum þeim að ýta verkefninu úr vör og að móta og aðlaga það að sínum kúltúr. Grunnefnið er samið af okkur, um þessa lykilþætti sem við viljum leggja áherslu á, en það á að vera lifandi og það er mikil þekking úti í grasrótinni svo við settum upp upplýsingasíður sem eru skapandi og lifandi. Þar er tækifæri fyrir þjálfara til að senda inn lýsingar á því hvað þeir eru að gera sem virkar vel og deila sinni reynslu, til að skapa meiri þekkingu. Við lítum á þetta sem verkfærakistu fyrir þá sem eru að vinna með börnum og unglingum til að hjálpa sér að styrkja þessa þætti, andlega og félagslega færni iðkenda.“