[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Það er full ástæða fyrir fjárlaganefnd Alþingis að fara yfir þetta mál og fá allar upplýsingar upp á borðið. Það þarf að upplýsa með skýrum hætti á hverju Íslandspóstur hefur verið að tapa og hverju ekki.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það er full ástæða fyrir fjárlaganefnd Alþingis að fara yfir þetta mál og fá allar upplýsingar upp á borðið. Það þarf að upplýsa með skýrum hætti á hverju Íslandspóstur hefur verið að tapa og hverju ekki. Þá þarf einnig að upplýsa hvort það standist skoðun að ekkert hafi verið flutt milli einka- og samkeppnisrekstrarins.“

Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, inntur eftir viðbrögðum við fréttum Morgunblaðsins af síversnandi rekstrarhorfum hjá Íslandspósti. Í blaðinu í gær sagði Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri fyrirtækisins, að ef fram héldi sem horfði myndu stjórnvöld þurfa að veita Íslandspósti frekari fyrirgreiðslu, umfram það 500 milljóna króna skammtímalán sem fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að veita fyrirtækinu í september síðastliðnum. Síðan þá hefur enn meiri samdráttur orðið í bréfsendingum innan svokallaðs einkaréttar, að sögn Ingimundar. „Við hnjótum um þessar skýringar Póstsins, þ.e. að fækkun bréfsendinga innan einkaréttar sé ástæða rekstrarstöðu fyrirtækisins. Ástæðan er sú að Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur lýst því yfir að þessi hluti rekstrarins skili ásættanlegri rekstrarniðurstöðu. Stofnunin hefur aðgang að bókhaldsupplýsingum fyrirtækisins og er því í góðri stöðu til að meta þetta,“ segir Ólafur.

Urðu ekki við beiðni um hækkun

Íslandspóstur hefur fyrr á þessu ári óskað eftir frekari gjaldskrárhækkunum, en þær getur fyrirtækið ekki ráðist í án atbeina PFS. Stofnunin hefur ekki talið ástæðu til að taka þá beiðni til greina.

„Fyrst sú er reyndin þá er það annaðhvort til marks um að PFS sé ósammála Íslandspósti um ástæðurnar að baki því tapi sem nú hefur orðið á rekstrinum, eða þá að stofnunin er að taka á sig ábyrgðina á þessum taprekstri.“

Meðal þess sem Íslandspóstur hefur nefnt sem ástæðu versnandi rekstrarstöðu innan einkaréttarins er sú staðreynd að fyrirtækið hefur þurft að niðurgreiða sívaxandi póstsendingar frá Kína. Vegna samnings innan vébanda Alþjóðapóstssambandsins, sem Ísland er aðili að, ber íslenskum stjórnvöldum að niðurgreiða póstsendingar sem berast frá þróunarlöndum. Greint hefur verið frá því að tap Íslandspósts vegna þessa nemi um 475 milljónum króna á ári.