[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Áhugi á eyðibýlum á Íslandi hefur stóraukist á undanförnum árum. Yfirgefin hús fjarri alfaraleið hafa eitthvert óútskýrt aðdráttarafl sem heillar marga og vekur forvitni um sögu og örlög óþekkts fólks.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Áhugi á eyðibýlum á Íslandi hefur stóraukist á undanförnum árum. Yfirgefin hús fjarri alfaraleið hafa eitthvert óútskýrt aðdráttarafl sem heillar marga og vekur forvitni um sögu og örlög óþekkts fólks. Húsin eru af ýmsu tagi, svo sem íbúðarhús, fjárhús, kofar alls konar eða verksmiðju- og vinnsluhús. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera ákaflega illa farin og sum að hruni komin. Sum hafa verið auð og yfirgefin áratugum saman, önnur skemur.

Þessi áhugi hefur birst í mörgum myndum. Einstaklingar og hópar fara í gönguferðir til að leita þessi hús uppi og skoða þau. Þau verða kvikmyndagerðarmönnum, ljósmyndurum, málurum og skáldum að yrkisefni. Á árunum 2011 til 2014 skráði hópur áhugamanna skipulega nær átta hundruð yfirgefin íbúðarhús í öllum sveitum landsins. Var afraksturinn gefinn út í 7 binda ritröð, Eyðibýli á Íslandi, með texta um húsin og ljósmyndum af þeim öllum. Markmið verkefnisins var að rannsaka og skrá umfang og menningarlegt vægi eyðibýla og annarra yfirgefinna íbúðarhúsa á landsbyggðinni. Jafnframt að stuðla að björgun áhugaverðra og byggingarsögulega mikilvægra húsa, m.a. með endurgerð og nýtingu í ferðaþjónustu.

Þá muna eflaust margir eftir því að fyrir tveimur árum sýndi RÚV sex þætti í röð um eyðibýli þar sem saga mannlífsins að baki hinum yfirgefnu húsum var rakin.

Eignarhald eyðibýla er með ýmsum hætti og ekkert yfirlit til um það þar sem flest eru þau utan við allar opinberar skrár. Þó eru nokkur á ríkisjörðum, þar sem hefðbundinn búskapur er yfirleitt ekki lengur stundaður, og því á forræði ríkisins. Óljóst er um eignarhald mjög margra og upplýsingar um þá sem síðast bjuggu í húsunum eða voru ábúendur jarðanna ekki alltaf fyrirliggjandi.

Ekkert eftirlit

Nú hafa vaknað spurningar um hvort hafa þurfi meira eftirlit með þessum eyðibýlum og tryggja með einhverjum hætti að fólk sem áhuga hefur á að skoða þau fari sér ekki voða í slíkum heimsóknum. Sannleikurinn er sá að allmörg þessara húsa eru svo ótraust að gólf geta brostið og útveggir og innréttingar hrunið. Fólk getur stórslasast fari það ekki varlega. Og ekki bara fólk því eins og frétt Morgunblaðsins fyrr í vikunni sýnir, getur t.d. sauðfé stafað hættu af því að fara inn í sum yfirgefin hús. 13 kindur leituðu inn í hrörlegt fjárhús á eyðibýlinu Eyri í Mjóafirði í Súðavíkurheppi einhvern tíma í sumar og áttu þaðan ekki afturkvæmt. Inngangurinn virðist hafa hrunið og varnað þeim útgöngu. Þær dóu úr þorsta. Aðkoman var ömurleg þegar kindurnar fundust í byrjun október.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær segir Snævar Guðmundsson, forstjóri Ríkiseigna, sem fara með forræði eyðijarða í eigu ríkisins, að stofnunin hafi fram að þessu ekki haft skipulagt eftirlit með útleigðum bú- eða eyðijörðum. Atvikið á Eyri í sumar kunni að breyta því.

En eyðibýli ríkisins eru aðeins hluti af hinum yfirgefnu húsum um land allt. Eftirlit með ríkiseignum tryggir ekki að öruggt sé að skoða hin húsin öll.

En spyrja má líka hvort hér hljóti ekki að gilda sem aðalregla að hver og einn sem er að sniglast í kringum eyðibýli eða lítur þar inn geri það á eigin ábyrgð. Hinn stóraukni áhugi skapar þó líklega þörf á því að athygli sé með einhverjum hætti vakin á þeim hættum sem slíkum heimsóknum geta fylgt.