Ólafur Axel Jónsson fæddist 15. september 1934 á Kjartansstöðum í Skagafirði. Hann lést á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 26. október 2018.

Foreldrar hans voru Jón Friðbjörnsson og Hrefna Jóhannsdóttir. Bróðir Ólafs er Friðbjörn Þ. Jónsson, f. 18. júlí 1936, kvæntur Sigrúnu Ámundadóttur, f. 29. mars 1934. Ólafur kvæntist Báru Þ. Svavarsdóttur 29. desember 1956, dóttur Petreu Guðmundsdóttur og Svavars D. Þorvaldssonar.

Þau eignuðust þrjár dætur, tvíburana Hafdísi og Guðbjörgu, f. 6. október 1956, og Ragnheiði Hrefnu, f. 30. apríl 1963. Maður Hafdísar er Jón Stefán Karlsson, f. 24.4. 1950, og eru þau búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru tvö: a) Ólafur Axel, f. 29.1. 1978, kvæntur Birnu Guðbjartsdóttur, f. 6.6. 1978, börn þeirra eru Dagur Sölvi, Bjarki og Eva Björt. b) Thelma Marín, f. 7.1. 1987.

Maður Guðbjargar er Finnur Kristinsson, f. 24.4. 1953, og eru þau búsett á Skagaströnd. Dætur þeirra eru þrjár: a) Guðný Kristín, f. 19.2. 1974, sonur hennar er Eldar Ágúst. b) Petrea, f. 9.11. 1980, börn hennar eru Gabríel Logi, Veigar Már og Lárey Yrja. c) Arnrún Bára, f. 18.3. 1989, hennar maður er Kristján Ásgeirsson Blöndal, f. 7.6. 1989, dóttir þeirra er Arney Röfn.

Maður Ragnheiðar Hrefnu er Birgir Þórðarson, f. 7.6. 1960, og eru þau bændur á Ríp í Skagafirði. Börn þeirra eru fjögur; a) Birgir Örn, f. 9.10. 1980, í sambúð með Brynju Dan Gunnarsdóttur, f. 25.8. 1985, hennar sonur er Máni Snær. b) Elvar Örn, f. 2.2. 1990, í sambúð með Elínu Petru Gunnarsdóttur, f. 12.2. 1993. Börn þeirra eru Birgitta Katrín og Þorvaldur Heiðar. c) Sigurður Heiðar, f. 10.9. 1991, í sambúð með Sigurlínu Erlu Magnúsdóttur, f. 11.10. 1991. Börn þeirra eru Þórður Bragi og Fanndís Vala. d) Ólöf Bára, f. 22.9. 2004.

Ólafur bjó alla tíð á Sauðárkróki og var alltaf kallaður Óli Jóns. Hann vann í nær 30 ár hjá Bílabúð Kaupfélags Skagfirðinga og var mikill áhugamaður um lax- og silungsveiði. Hann hafði mikla ástríðu fyrir sjósókn og samhliða störfum hjá Kaupfélaginu átti hann trillur með nokkrum félögum í gegnum árin. Óli og Bára ráku ásamt foreldrum hans myndarlegt fjárbú á Nöfunum á Sauðárkróki til fjölda ára.

Óli átti mörg áhugamál og hafði meðal annars gaman af söng og lestri góðra bóka. Á meðan heilsan leyfði söng hann með kór eldri borgara á Sauðárkróki. Frá 47 ára aldri glímdi Óli við veikindi sem hann tókst á við með einstöku æðruleysi.

Útför Óla fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 3. nóvember 2018, klukkan 14.

Elsku Óli minn.

Ég óska þess að þér líði vel, laus við allar þrautir.

Þó að fölni fögur rós og ferskur

þagni blær,

þó að slökkni lífsins ljós

leiftrar ætíð skær,

heilög minning helguð þér

á harðri lífsins braut,

geymd í huga og hjarta mér

um horfinn förunaut.

Við tengdum okkar traustu bönd

með trú á sterkan þátt.

Þú gafst mér bæði hjarta og hönd

og hamingjunnar mátt.

Hin sæla minning sefar mig

er sorgin leitar að.

Nú bið ég guð að blessa þig

og búa nýjan stað.

(Hákon Aðalsteinsson)

Ég þakka þér alla okkar góðu sambúð í öll þessi ár. Þú hugsaðir alltaf um að mér liði vel hvernig sem þér leið. Þakka þér alla þá ást og umhyggju sem þú veittir mér.

Þín

Bára.

Elsku pabbi okkar. Við kveðjum þig með söknuði, þakklæti, ást og virðingu.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þína dætur,

Hafdís, Guðbjörg og Ragnheiður Hrefna (Hebba).

Óli tengdafaðir minn hefur kvatt þessa jarðvist og er farinn að róa á önnur mið. Þessi gamla kempa og ættarhöfðingi er allur og er hans sárt saknað.

Á kynni okkar Óla bar aldrei skugga. Þegar við Guðbjörg mín fórum að draga okkur saman þá tóku þau Óli og Bára mér einstaklega vel þó að ung værum.

Þegar ég sótti nám á Iðnskólanum á Sauðárkróki fengum við að vera inni á heimili þeirra Óla og Báru þó að þröngt væri á Freyjugötunni. Heimilislífið var einstakt og gott. Samband þeirra Óla og Báru var fallegt og virðingin sem þau báru hvort fyrir öðru var sérstök í 63 ár. Þetta var gott veganesti fyrir okkur Guðbjörgu mína gegnum okkar líf.

Óli studdi okkur í einu og öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, meira að segja þegar við fluttum til Kína. „Þetta gæti verið spennandi, drengur,“ sagði hann.

Ég átti það til að hrekkja Óla stundum. Á 70 ára afmæli Óla hélt ég smátölu um hrekkina sem ég hafði gert honum. „Þú getur verið dálítið hrekkjóttur drengur,“ sagði hann og tók utan um mig og skellihló að öllu saman. Svona var Óli, alltaf til í að sjá spaugilegu hlutina.

Óli var afskaplega kappsamur maður. „Drífðu þig, drengur,“ sagði Óli stundum. Veikindi fóru snemma að hrjá hann. Hann gekk í gegnum fjölmargar hjartaþræðingar og skurðaðgerðir. Alveg sama hvað gekk á, alltaf spratt Óli upp og gekk til sinna starfa eins og ekkert hefði í skorist. „Það er ekkert að mér“ sagði hann og vildi ekkert um veikindi tala. Læknar sögðu að hann væri gangandi kraftaverk.

Hugurinn var alltaf skýr þó að heilsan bilaði. Óli fylgdist vel með öllum báta- og skipaferðum. Hann átti skektur með öðrum og var einn af þessum gömlu góðu sem alltaf héldu rækt við sjó og sjómennsku. Þótti honum ekki slæmt að eiga tengdason sem var sjómaður. Við Guðbjörg mín heyrðum í útvarpinu að kvöldið áður hefði bátur sokkið á Skagafirði en mannbjörg orðið. Hringdum í Óla um leið. „Jú, þetta var svo sem ekkert. Verst að missa bátinn,“ sagði Óli og var hinn hressasti. „En ansi var kalt í björgunarbátnum.“ Hann bætti þó við að hann saknaði gamla kaffibrúsans síns. Síðar þegar báturinn fannst á hafsbotni og var hífður upp, þá fannst kaffibrúsinn, Óla til mikillar ánægju. Kaffibrúsi þessi er enn í notkun í fjárhúsunum á Ríp. Í sumar fóru Rípurbræður í fiskiróður út á fjörðinn. Óli fylgdist með þeim. Komu bræðurnir seint til hafnar. Óli var hættur að aka bíl en laumaðist niður á bryggju þegar þeir komu að landi. Óli snarast út fáklæddur og segir: „Eruð þið brjálaðir strákar að veiða svona mikið á þessu litla horni, hvenær haldið þið að þið verðið búnir að flaka þetta?“

Um morguninn komst upp um hann er hann fór að segja Báru sinni hvað þeir höfðu veitt. Hinn 18. ágúst síðastliðinn komum við saman allir afkomendur Óla og Báru. Mikið var gaman að sjá hve Óli skemmti sér vel. Fyrir um tveim mánuðum áttum við Óli saman afar ánægjulega stund, einlægt samtal. Þarna sá ég svo vel „Báruglampann“ í augum Óla þegar hann minntist á Báru. Þessarar samverustundar mun ég minnast meðan ég lifi.

Þakka samfylgdina gegnum árin.

Finnur.

Elsku afi.

Hún er erfið sú hugsun að vita til þess að fá ekki að hitta þig aftur við eldhúsborðið á Fornósnum, amma að taka til kræsingar handa okkur og við að ræða um daginn og veginn eins og við gerðum vanalega, en hins vegar er ég ævinlega þakklátur fyrir allan þann tíma sem við fengum saman. Alveg frá fæðingu minni hefurðu haft áhrif á mitt líf, einstök fyrirmynd sem ég hef alltaf litið svo mikið upp til, með einstaklega fallegt hjarta og góðmennskan uppmáluð. Það var sjaldan langt í húmorinn hjá þér og minnist ég þess með bros á vör þó svo að nokkrar sprengitöflur hafi sjaldnar en ekki runnið niður í leiðinni. Elsku afi, í mínum huga varstu ofurhetja og þér þótti ekkert betra en að hafa fólkið þitt í kringum þig og þá sérstaklega hana ömmu, þessa einstöku manneskju sem þú sást ekki sólina fyrir.

Minning þín mun lifa með mér endalaust.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

(Bubbi Morthens)

Þinn

Birgir Örn.

Elsku Óli afi okkar.

Það sem við erum ánægð með öll árin sem við fengum að ganga í gegnum saman. Barátta þín í gegnum lífið var ekki þrautalaus en alltaf á einhvern ótrúlegan hátt reifstu þig upp úr þínum veikindum og mættir eldhress aftur til ömmu. Þær eru ófáar minningarnar sem rifjast upp fyrir manni. Allar ferðirnar sem við fórum saman á sjóinn með þér og allt sem þú kenndir okkur þar er svo dýrmætt í dag. Veiðiferðirnar síðustu ár voru ekki samar án þín en það var alltaf hægt að hafa samband, fá góð veiðiráð og það var alveg á hreinu að þú varst mættur með kíkirinn út í glugga að fylgjast með okkur. Áhugi þinn á sveitalífinu var mikill og það var alveg sama hvaða árstími það var alltaf varstu tilbúinn að mæta og reyna að hjálpa til. Þau eru ófá samtölin sem við vorum búnir að ræða saman sveitamálin og áhugi þinn jókst bara með aldrinum og það var alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu eftir næsta verkefni og því að fá upplýsingar um hver útkoman væri en Það var þetta jákvæða hugafar og hamingja sem fylgdi þessum samtölum okkar sem gerði þau enn þá skemmtilegri og eftirminnilegri.

Sagan með skyrið og sykurinn er eitthvað sem fékk þig og ömmu alltaf til að hlæja. Þú laumaðist til að setja sykurinn undir skyrið á meðan amma sá ekki til og það var alveg sama hversu oft við sögðum hana, alltaf mátti sjá bros. Gleði og gaman var eitthvað sem við reyndum alltaf að hafa að leiðarljósi þegar við sátum og spjölluðum við ykkur ömmu og munu hlátursköstin okkar saman lifa lengi með okkur. Þú munt alltaf vera fyrirmynd í okkar lífi og öll ævintýrin og allar stundirnar sem við áttum saman munu lifa um ókomna tíð.

Takk fyrir allt, elsku Óli afi

okkar.

Þín

Elvar Örn, Elín Petra,

Birgitta Katrín og

Þorvaldur Heiðar.

Elsku afi minn.

Nú sit ég hér og skrifa um þig og rifja upp allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Þú varst kletturinn minn og verður það alltaf. Ég gat alltaf leitað til þín og rætt við þig um hvað sem er. Ég mun aldrei gleyma þeim stundum þegar við vorum saman. Mikið ofboðslega fannst mér alltaf gott að kúra hjá þér og ömmu og njóta nærveru ykkar. Margar minningar streyma um hug minn núna um þessar góðu stundir með þér og ömmu.

Alltaf var jafn gaman að fá að vera hjá þér og sjá hvað þú hafðir gaman af því að koma til okkar í sveitinni og vera með okkur. Mikið ofboðslega sem ég á eftir að sakna þín og þeirra stundum. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, ég veit að þú verður alltaf með mér og passar upp á mig eins og þú gerðir alltaf. Ég skal lofa að passa vel upp á ömmu fyrir þig.

Nú farinn ertu mér frá,

hvað geri ég þá ?

Þig hafa ég vil

og segja mér til.

Nú verð ég að kveðja,

fæ ekkert um það að velja.

Þú kvaddir með hlátri,

það er ekki skrítið að ég gráti.

Í hjarta mér þú verður,

þaðan aldrei hverfur

Ég minningu þína geymi,

en aldrei gleymi.

Elsku hjartans afi minn,

nú friðinn ég finn.

Þá kveð ég þig um sinn,

og kyssi þína kinn.

Hvíl í friði, elsku afi.

Þín

Ólöf Bára.

Elsku afi og langafi.

Nú hugsar maður til þeirra góðu stunda sem við áttum saman og erfitt er að hugsa til þess að þú munir ekki koma reglulega yfir í sveit og fylgjast með því sem um er að vera eða heyra rödd þína sem bauð mann alltaf hjartanlega velkomin á Fornós. Frá því að ég var lítill polli tókstu alltaf vel á móti manni og stutt var í grín og glens nálægt þér. Þú varst mér mikil fyrirmynd og hafðir mikil áhrif á líf mitt og munt gera það áfram um ókomna tíð. Það var alltaf jafn gaman að koma við hjá ykkur ömmu og spjalla um lífið og tilveruna, sitja við eldhúsborðið og horfa út á sjóinn þar sem þinn áhugi var mikill. Alltaf hafðir þú jafn mikinn áhuga á því sem maður var að takast á við og vildir að manni tækist vel til í öllu því sem maður tók sér fyrir hendur. Eftir að Lína og krakkarnir komu í líf okkar var alltaf gaman að koma í ömmu og afa hús og beðið með eftirvæntingu að komast til ömmu Báru og Óla afa. Börnin litu mikið upp til afa sem alltaf var reiðubúinn að spjalla og leika með í dótinu og eyða tíma með þeim hvernig sem heilsan var.

Annan eins ljúfling og glaðlyndis mann er erfitt að finna, jákvæðnin og góðmennskan ávallt í fyrirrúmi. Eigum við endalaust af dýrmætum gæðastundum sem við áttum öll saman og öll sú umhyggja og ást sem þú hefur gefið okkur er ómetanleg.

Takk afi, fyrir þann tíma sem þú gafst okkur.

Í bænum okkar, besti afi

biðjum fyrir þér

að Guð sem yfir öllu ræður,

allt sem veit og sér,

leiði þig að ljóssins vegi

lát' þig finna að,

engin sorg og enginn kvilli

á þar samastað.

Við biðjum þess í bænum okkar

bakvið lítil tár,

að Guð sem lífið gaf og slökkti

græði sorgarsár.

Við þökkum Guði gjafir allar

gleði og vinarfund

og hve mörg var ávallt með þér

ánægjunnar stund.

(Sigurður Hansen)

Hvíl í friði, elsku afi, við vitum að þú munt ávallt fylgja okkur.

Sigurður Heiðar,

Sigurlína Erla, Þórður Bragi og Fanndís Vala.

Elsku yndislegi Óli afi minn.

Mér finnst svo erfitt að hugsa til þess að ég eigi aldrei eftir að upplifa þitt hlýja faðmlag aftur, sjá hversu glaður þú varðst þegar að þú sást mann í hurðargættinni eða finna þig lesandi í sófanum inn í herbergi og stela einu knúsi frá þér. Það var líka alltaf svo dásamlegt að fylgjast með þér og ömmu. Sjá og finna hversu ánægð þið voruð hvort með annað eftir öll þessi ár.

Þú varst ótrúlegur maður og ég veit ekki hvort þú vissir það en þú varst og ert enn þá ein af mínum helstu fyrirmyndum. Hvernig þú tókst á við lífið af jákvæðni, æðruleysi og óbilandi kjarki. Þú efaðist aldrei þótt að áföllin dyndu á. Aldrei fann maður fyrir því að þú værir eitthvað heilsuveill. Þú fórst áfram á bjartsýninni og viljanum og alltaf komstu út sem sigurvegari.

Þú skilur eftir þig svo stórt skarð í hjarta mínu sem er samt fullt af fallegum minningum um hversu frábær þú varst. Hjartahlýr, innilegur og dásamlegur afi sem var alltaf tilbúinn að leyfa manni að hvíla höfuðið á bumbunni sinni. Orð fá ekki lýst hversu mikið ég á eftir að sakna þín. Þú varst einstakur. Ég reyni að finna huggun í því að nú eigi ég einn verndarengil í viðbót til að passa upp á mig og mína. Ég er svo glöð að þú og Arney hafi fengið að kynnast og náð svona vel saman. Hún var svo hrifin af Óla afa sínum, enda varla annað hægt.

Takk fyrir allt, elsku besti afi minn. Ég er svo innilega þakklát fyrir hvað við fengum að hafa þig lengi hjá okkur og að mín síðustu orð til þín voru hversu vænt mér þætti um þig. Ég mun geyma þig og varðveita í hjarta mínu að eilífu.

Þín,

Arnrún Bára.