„Þetta er mjög mikil saga og maður skynjar sterkt hversu mikið tilfinningalegt álag þetta hefur verið á lítið barn,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem skráð hefur ævisögu Hasims Ægis Khan.
„Þetta er mjög mikil saga og maður skynjar sterkt hversu mikið tilfinningalegt álag þetta hefur verið á lítið barn,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem skráð hefur ævisögu Hasims Ægis Khan. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lífshlaup Hasims Ægis Khan er með miklum ólíkindum. Þegar hann var sex ára var hann borinn út af fósturömmu sinni og endaði á götunni í annarri borg. Þar þurfti hann að læra nýtt tungumál.

Lífshlaup Hasims Ægis Khan er með miklum ólíkindum. Þegar hann var sex ára var hann borinn út af fósturömmu sinni og endaði á götunni í annarri borg. Þar þurfti hann að læra nýtt tungumál. Þegar Hasim var tólf ára var hann ættleiddur til Íslands en lenti á vergangi skömmu seinna eftir að fjölskyldan skilaði honum, ef svo má að orði komast. Við tók strembinn tími þar sem Hasim barðist bókstaflega fyrir lífi sínu. Einn og umkomulaus í framandi landi. Og hafði betur. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hefur skráð þessa átakanlegu sögu og kom bókin út fyrir helgina. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Vampírur og beinagrindur fylgja mér upp götuna. Hrekkjavakan er greinilega komin til Íslands. Eins og þetta föruneyti er furðulegt er það viðeigandi þetta svala vetrarsíðdegi enda var barnæska mannsins sem ég er að fara að hitta hrollvekju líkust. Alltént dettur mér ekkert betra orð í hug til að lýsa þeim skelfilegu raunum sem Hasim Ægir Khan gekk í gegnum; fyrst á Indlandi, þar sem hann er borinn og barnfæddur, og síðan hér í fásinninu, eftir að örlögin skiluðu honum til Íslands.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem skráð hefur sögu Hasims, tekur á móti mér og býður mér til stofu, þar sem Hasim hefur komið sér makindalega fyrir með kaffibolla og vínarbrauð. Hann heilsar glaðlega og býður af sér góðan þokka. Hann ber það ekki með sér að hafa lifað erfiðara lífi en gengur og gerist hér um slóðir – og þótt víðar væri leitað. Bókin, Hasim – götustrákur í Kalkútta og Reykjavík, kom út fyrir helgi og Hasim er hér staddur til að fylgja henni úr hlaði en hann hefur búið undanfarin ár í Noregi.

Yfir hálfan hnöttinn

Ungur fékk Hasim vindinn í fangið. Sex ára gamall var hann settur aleinn upp í lest í Gömlu-Delhí og endaði sólarhring síðar í Kalkútta, þar sem enginn tók á móti honum og fólk talaði framandi tungumál. Næstu árin var hann umkomulaus og einn í heiminum. Sumir voru honum góðir en hann varð líka fyrir ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi, að því er fram kemur í kynningu JPV útgáfu sem gefur bókina út.

Tólf ára var Hasim sendur yfir hálfan hnöttinn, úr hitanum og mannþrönginni í Kalkútta í snjóinn og fámennið í Þorlákshöfn; úr örbirgð í allsnægtir. Allt í einu átti hann foreldra og systkini – en enginn skildi hann og hann skildi engan. Og ári síðar var hann aftur einn. Beiskur, sár, ráðvilltur og rótlaus. Rændur tungumáli sínu og menningu. Ættleiðingin hafði gengið til baka; fólkið treysti sér ekki til að ala hann upp. Eftir það lenti Hasim milli stafs og hurðar í kerfinu á Íslandi og lifði lífi sem enginn maður getur óskað sér eða yfir höfuð skilið – án þess að hafa verið þar sjálfur. Um tíma leigði hann herbergi með umrenningum í miðbæ Reykjavíkur. Enn á grunnskólaaldri.

Tilfinningalega þungt

„Það er alveg rétt, líf mitt hefur ekki verið auðvelt,“ byrjar Hasim á ljómandi góðri íslensku. „Það var erfitt að vera unglingur á Íslandi og tilfinningalega þungt að eiga engan að, þannig lagað, og geta ekki talað við nokkurn mann um það sem ég hafði alla tíð byrgt inni í mér.“

Hann kveðst hafa kynnst mörgu góðu fólki á þessum tíma en enginn komst inn fyrir brynjuna. Hasim treysti ekki nokkrum manni. „Ég hafði heyrt um Hasim og langaði að kynnast honum; saga hans vakti áhuga minn,“ rifjar Þóra Kristín upp. „Hann langaði að segja mér sögu sína og fljótlega kom upp sú hugmynd að skrifa unglingabók um líf hans. Hasim var hins vegar ofboðslega sært og reitt barn á þessum tíma; eiginlega eins og eldspúandi dreki, þannig að ég tók bókarskrifin út af borðinu. Þau yrðu að bíða betri tíma, þegar fjarlægðin væri orðin meiri. Þessar raunir voru einfaldlega of nálægt okkur í tíma til að forsvaranlegt væri að rifja söguna upp. Hasim var eitt stórt gapandi sár.“

Hasim er sammála þessu mati. „Ég var alls ekki tilbúinn á þessum tíma og er mjög feginn að ekki varð af þessu. Sú saga hefði orðið allt öðruvísi en sú sem liggur fyrir í dag. Það var nógu sárt og erfitt að rifja þetta allt saman upp núna, þegar ég bý að mun meiri þroska. Í bókinni er allt ferðalagið, frá vöggu og fram á þennan dag.“

Uppsöfnuð reiði

Eftir á að hyggja kveðst Hasim hafa haft litla sem enga stjórn á lífi sínu sem unglingur. „Reiðin var uppsöfnuð. Ég var brotinn þegar ég kom hingað og ekki bætti úr skák að fjölskyldan sem tók mig að sér hafnaði mér; setti mig út á götu. Ég þekkti svo sem hvernig það var að vera á götunni en Indland og Ísland eru hins vegar eins og svart og hvítt. Í því sambandi eru veðurfarið og menningin bara byrjunin. Það var vissulega erfitt að vera á götunni á Indlandi en þar voru samt fjölmörg önnur börn í sömu stöðu og ég. Hérna á Íslandi skar ég mig úr. Öll önnur börn áttu fjölskyldu og samastað. Fyrir vikið var mun erfiðara að vera á götunni hér en á Indlandi og höfnunin ennþá meiri. Oft hafði mér liðið illa en aldrei eins og á þessum tíma. Ég var gjörsamlega umkomulaus. Hafði engan til að tala við þegar mér leið illa og engan til að gleðjast með mér þegar vel gekk. Eru það ekki sjálfsögð mannréttindi?“

Það tók Hasim þrjú ár að ná tökum á íslenskunni en hann fékk meðal annars hjálp frá Námsflokkum Reykjavíkur. „Það var gott fólk,“ segir hann með áherslu. „Auk þess að kenna mér íslensku var alltaf eitthvað gott að borða þar en ég var alltaf svangur og ofboðslega horaður. Eitthvað annað en núna.“

Hann hlær.

Hver er ég?

„Ég var ennþá reiður út í umhverfi mitt og lærdómurinn hjálpaði mér; gaf mér tilgang. Grundvallarspurningar brunnu á mér: Hver er ég og hvar á ég að vera? Ég þekkti ekki mitt eigið sjálf. Ég var öðruvísi en önnur börn í útliti og var reglulega spurður hvaðan ég væri. Því gat ég ekki svarað. Það var sárt.“

– Varstu erfiður?

„Svaraði ég þessu neitandi væri ég að skrökva. Ég var erfiður; vandræðaunglingur, eins og það er kallað. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég gerði ýmislegt sem ég hefði ekki átt að gera og sé eftir því í dag. Ég hafnaði fólki, eins og fólk hafnaði mér. Ég kunni ekkert annað.“

Þóra Kristín segir mikilvægt að skoða málið í samhengi. „Hasim var bara tólf ára þegar hann kom til Íslands, hafði upplifað ótrúlega margt og mætt gríðarlegum áskorunum á stuttri ævi. Hann hafði farið mikils á mis tilfinningalega. Þegar hann kom hingað þurfti hann að læra allt upp á nýtt; tungumálið, að borða, klæða sig og svo framvegis. Auk þess sem veðurfarið var honum framandi. Þetta gat ekki verið ólíkara þeim heimi sem Hasim hafði kynnst. Erfiðleikarnir stigmögnuðust og svo fór allt í háaloft.“

– Hefurðu hitt þessa fyrrverandi fjölskyldu þína aftur, Hasim?

„Já, ég reyndi það nokkrum árum seinna en er ekki í neinu sambandi við þau í dag.“

Þóra Kristín þekkir ekki önnur dæmi þess að ættleiðing hafi farið forgörðum hér á landi, eins og í þessu tilviki. Rætt var að senda Hasim aftur til Indlands en úr varð að tveir kennarar hans í Þorlákshöfn tóku hann tímabundið upp á sína arma. Síðan lenti hann á vergangi.

„Fólk vildi vel,“ segir Þóra Kristín, „en Hasim var hins vegar mjög skaddaður eftir það sem á undan var gengið, tortrygginn og treysti ekki nokkrum manni. Lokaði sig af. Börn þurfa skilyrðislausa ást. Í stað þess að undið væri ofan af henni stigmagnaðist reiðin.“

Enginn tók ábyrgð á honum

– Þetta hlýtur að vera áfellisdómur yfir kerfinu hér heima?

„Svo sannarlega. Kerfið brást Hasim gjörsamlega. Í því var glufa sem gerði fólki kleift að gera hann að sveitarómaga. Enginn tók ábyrgð á honum. Þetta er auðvitað óforskömmuð meðferð á barni sem tekið getur ævina að vinna úr,“ segir Þóra Kristín og Hasim tekur sjálfur í sama streng:

„Maður verður ennþá reiðari þegar maður hugsar um þetta vegna þess að Ísland er svo gott land og allar boðleiðir í kerfinu eiga að vera svo stuttar.“

Þau gera stutt hlé á máli sínu.

„En þetta gerðist,“ heldur Þóra Kristín svo áfram. „Það er blákaldur veruleiki og við þurfum að horfast í augu við það og læra af því. Við vitum um fjölda flóttabarna sem er snúið við frá Íslandi og sent í yfirfullar flóttamannabúðir eftir að hafa gengið hér í skóla og skotið hérna rótum. Þau fylgja vissulega foreldrum sínum, öfugt við Hasim, sem átti engan að, en börn eiga alltaf að njóta vafans og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um réttindi þeirra enda eigum við aðild að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Hasim var þó ekki afskiptur, þannig lagað, fólk reyndi áfram að nálgast hann. „Hægt og rólega kom fólk inn í líf mitt, til dæmis kennarar í Austurbæjarskóla, þangað sem ég var sendur. Ég eignaðist líka góðan vin sem vann hjá Rauða krossinum,“ segir Hasim. „Um leið og ég fór að tala við þetta fólk, létta á mér, fór mér að líða betur. Brynjan féll auðvitað ekki strax, fólk þarf að vera mjög opið og þolinmótt til að nálgast og hjálpa svona unglingi en þessi viðleitni skipti máli. Ég elska þetta fólk í dag.“

Klessti á vegg

Hann var þó sannarlega ekki kominn í var. Þvert á móti. „Hasim varð reiðari og reiðari,“ útskýrir Þóra Kristín. „Að því kom að reiðin bar hann ofurliði og hann klessti á vegg. Ástandið var grafalvarlegt og um tíma leit ekki út fyrir að hann kæmi til með að ná sér á strik.“

– Hugleiddirðu að svipta þig lífi?

„Já, og það gekk raunar svo langt að ég reyndi að fyrirfara mér. Sá enga aðra leið út úr þessu öngstræti,“ svarar Hasim.

Hægt og bítandi byrjaði Hasim að rétta úr kútnum. Tæplega tvítugur kynntist hann íslenskri stúlku og eignaðist með henni son. Að sögn Þóru Kristínar leikur enginn vafi á því að það hjálpaði honum að þroskast og ná tökum á lífi sínu enda þótt reiðin hafi áfram kraumað undir niðri. „Fjölskylda hennar reyndist honum afskaplega vel.“

Upp úr sambandinu slitnaði en Hasim reyndi eftir föngum að taka þátt í uppeldi sonar síns, Hafsteins. „Hann er orðinn átján ára og býr hjá móður sinni, sem heldur mjög vel utan um hann. Þetta var ekki alltaf auðvelt meðan hann var að vaxa úr grasi en samband okkar er gott í dag. Hafsteinn er dæmigerður íslenskur unglingur,“ segir Hasim brosandi.

Líður vel í Noregi

Síðar ferðaðist Hasim til Pakistans og kynntist pakistanskri konu, Attia. Þau gengu í hjónaband og eiga saman fjögur börn í dag, á aldrinum þriggja til ellefu ára, og búa í Noregi.

„Eftir hrun gekk mér illa að fá vinnu á Íslandi, þannig að ég ákvað eins og svo margir aðrir að freista gæfunnar í Noregi. Ég fékk góða vinnu þar við laxeldi og okkur líður ljómandi vel. Mér gengur allt í haginn í dag, guði sé lof, og fyrir það er ég óendanlega þakklátur. “

Börnin hafa enn sem komið er takmarkaða vitneskju um erfiðleikana sem faðir þeirra gekk í gegnum en Hasim hefur áform um að segja þeim alla sólarsöguna, þegar þau hafa aldur til.

Börnin hafa lagað sig vel að aðstæðum í Noregi og tala norsku en ekki íslensku. Á heimilinu talar fjölskyldan urdu, móðurmál Hasims sem hann þurfti að læra upp á nýtt. „Ég lærði að tala urdu upp á nýtt af indverskum dans- og söngvamyndum sem eru á hindí sem er mjög líkt urdu,“ segir hann hlæjandi. „Ég kann hins vegar hvorki að lesa né skrifa málið. Ég er líka búinn að læra norskuna og þar sem íslenska og norska eru svo lík mál, skilja börnin mig þegar ég tala íslenskuna „illa“.“

Hann hlær aftur.

Hasim hefur bundist tengdafjölskyldu sinni í Pakistan traustum böndum og þangað fara þau Attia reglulega með börnin í frí. Loksins tilheyrir hann fjölskyldu.

Hvernig man hún eftir mér?

Spurð hvers vegna hún hafi ráðist í að skrá sögu Hasims nú svarar Þóra Kristín: „Ég hef oft hugsað til Hasims og hvernig hafi farið fyrir honum. Þegar ég var fréttastjóri á Fréttatímanum og var að velta fyrir mér áhugaverðum viðmælendum kom hann upp í hugann. Áður en ég hafði haft uppi á Hasim fór Fréttatíminn á hausinn en ég lét eigi að síður kné fylgja kviði. Fann hann í Noregi og spurði hvort hann væri ekki tilbúinn að segja sína sögu.“

Hasim varð undrandi þegar hann heyrði frá Þóru Kristínu. Það hafði raunar ekkert með bókina að gera. „Mér fannst bara merkilegt og vænt um að hún skyldi muna eftir mér og hefði hugsað til mín allan þennan tíma. Það snerti mig. Hvernig man hún eftir mér? Hvað sögu mína varðar þá höfum við konan mín spjallað reglulega saman um hana gegnum tíðina og þremur vikum áður en Þóra Kristín hringdi þá hafði ég verið að segja konunni minni frá henni og að hún hefði viljað skrifa um mig bók þegar ég var unglingur. Og nú var hún allt í einu í símanum. Magnað.“

Hasim þurfti ekki að hugsa sig lengi um; nú var hann tilbúinn að kryfja líf sitt og segja þessa óvenjulegu sögu. Þau byrjuðu að spjalla.

Frábær söguhetja

„Ég reyni að vinna þetta heildstætt,“ segir Þóra Kristín. „Tala við fjölmargt fólk í kringum Hasim og skoða gögn af ýmsu tagi en útgangspunkturinn er samt í Hasim sjálfum. Hann er frábær söguhetja, lífsglaður og skemmtilegur, þegar þannig liggur á honum. Þetta tók samt á taugarnar og ég fékk reglulega samviskubit. Er ég að ganga of hart að honum? Þegar upp er staðið held ég samt að Hasim hafi haft mjög gott af þessu en líklega er best að hann svari því sjálfur.“

Hasim kinkar ákafur kolli. „Algjörlega. Ég er allur léttari eftir að hafa sagt þessa sögu – og þá er ég ekki að tala í kílóum.“

Þau hlæja bæði.

„Hasim er óvenjulega góður kokkur; það sér á mér eftir þessa samvinnu,“ segir Þóra Kristín brosandi. „Hann eldar til dæmis gómsætt íslenskt lambalæri að pakistönskum hætti. Hann er kominn langt frá þeim tíma þegar hann lifði á núðlum og mjólk úr Bónus.“

Hasim brosir. „Rétt er það. Ég hef mjög gaman af því að elda og lærði margt af sjálfum mér þegar ég var einn á báti. Ekki var öðrum tilraunadýrum til að dreifa.“

Allir fengu að lýsa sinni hlið

Spurður hvort hann kvíði viðtökum nú þegar sagan er komin á prent veltir Hasim vöngum. „Aðeins, já. Ég veit ekki hvernig fólk sem kemur við sögu í bókinni mun taka þessu. Annars verður það bara að hafa sinn gang,“ segir hann og Þóra Kristín bætir við að allir sem vildu hafi fengið að lýsa sinni hlið í bókinni.

Spurð hvort til standi að þýða bókina á önnur tungumál segir Þóra Kristín ekkert liggja fyrir í þeim efnum en hún sé vitaskuld opin fyrir því. Horfa má til Skandinavíu og hins enskumælandi heims í því sambandi og svo er til lítill markaður sem heitir Indland. En það eru auðvitað bara fabúleringar blaðamanns.

Hasim hefur fengið ákveðna fjarlægð á líf sitt á Íslandi og hugsar með hlýju hingað upp á skerið. „Í Noregi er ég oft spurður hvaðan ég sé og ég svara því alltaf til að ég sé Íslendingur. En þú lítur ekki út fyrir það? segir fólk þá á móti. Það gildir svo sem einu, ég er samt Íslendingur og ákaflega stoltur af því. Jú, jú, líf mitt á Íslandi var lengi vel enginn dans á rósum en hefði ég ekki komið hingað veit ég ekki hvað hefði orðið um mig. Allt endaði þetta líka vel, það skiptir mestu máli. Ég elska Ísland!“

Vegabréf, hvað er það?

Spurður hvort hann sé með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og indverskt, hristir Hasim höfuðið. „Nei, nei, nei, ég er bara með íslenskt ríkisfang. Hef ekkert við hitt að gera.“

Þóra Kristín bendir á að Hasim hafi lengi verið án ríkisfangs úr því að ættleiðingin rann út í sandinn. Það kom í ljós þegar hann átti að fara til Svíþjóðar sem unglingur að keppa í frjálsum íþróttum þar sem hann þótti mikið efni. Ríkisfangslaus átti hann ekkert vegabréf og komst fyrir vikið ekki með í ferðina. „Ég botnaði hvorki upp né niður í þessu; hafði aldrei heyrt um vegabréf enda er það hlutur sem foreldrar manns græja fyrir mann. Ef maður á foreldra,“ segir Hasim.

Ríkisfangið fékk hann eftir þetta með lögum frá Alþingi og rígheldur að vonum í það. Laskaður er landlaus maður.

Hasim hefur aðeins einu sinni komið til Indlands eftir að hann var sendur til Íslands. Þá var hann um tvítugt og heimsótti meðal annars barnaheimilið sem hann bjó á og fór að finna móður sína. „Hún var ekki í sömu borg og mér hafði verið sagt, þannig að ég þurfti að hafa fyrir því að finna hana. Nú er hún látin.“

Mjög mikil saga

Þóra Kristín vissi undan og ofan af sögu Hasims þegar samstarf þeirra hófst en segir eigi að síður margt hafa komið sér á óvart. „Þetta er mjög mikil saga og maður skynjar sterkt hversu mikið tilfinningalegt álag þetta hefur verið á lítið barn. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir íslenska götubarnið að horfa upp á félaga sína eiga allt sem þá dreymdi um sjálfa, meðan það átti ekkert. Einmanaleikinn var algjör og engin völ á þessari skilyrðislausu ást sem við þurfum öll á að halda til að vaxa og þroskast. Það er í raun ótrúlegt að Hasim hafi lifað þetta af. Algjört kraftaverk.“

Höfundurinn tileinkar bókina milljónum vegalausra barna úti um allan heim sem rekast alls staðar á veggi. „Það er lífseig mýta að börn geti lagað sig að öllu. Í mínum huga er þetta einfaldlega rangt og við þurfum nauðsynlega að bregðast við til að sitja ekki uppi með milljónir bálreiðra barna. Barna eins og Hasim. Viljum við það?“

Heldur þétt utan um börnin

Talið berst að lokum að framtíðinni sem Hasim horfir til björtum augum. Eins og fyrr segir kann fjölskyldan vel við sig í Noregi og hann á síður von á því að flytja aftur heim, alltént ekki í bráð. „Annars er lífið svo fljótt að taka nýja stefnu; þurfi ég að koma heim þá geri ég það. Ég hef ekki í annan tíma verið sterkari og kvíði fyrir vikið ekki breytingum á mínum högum. Nú hugsa ég í lausnum.“

Þóra Kristín tekur undir það. „Hasim er orðinn alþjóðlegt fyrirbæri og getur búið hvar sem er.“

Sjálfur kinkar hann kolli til samþykkis. „Ég get búið hvar sem er, svo lengi sem börnin mín þurfa ekki að lifa eins lífi og ég gerði. Ég held mjög þétt utan um börnin mín; oft og tíðum of þétt geri ég ráð fyrir en ég get bara ekki annað.“

Lái honum hver sem vill.