Arndís Þórarinsdóttir segir að fólk sé farið að vera meðvitað um að barnabókin skipti máli.
Arndís Þórarinsdóttir segir að fólk sé farið að vera meðvitað um að barnabókin skipti máli. — Morgunblaðið/Hari
Lífið í Brókarenda, sem birtist í nýrri barnabók Arndísar Þórarinsdóttur, snýst um nærbuxur, eða réttara sagt nærbuxnaverksmiðju. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Fyrsta smásaga Arndísar Þórarinsdóttur birtist árið 2005 og fyrsta skáldsagan, Játningar mjólkurfernuskálds, kom út 2011. Sú bók segir frá unglingsstúlku sem neyðist til að hefja skólagöngu á nýjum stað. Ný skáldsaga hennar, Nærbuxnaverksmiðjan, er ætluð yngri lesendum og segir frá ævintýrum Gutta og Ólínu í Brókarenda, en þar snýst lífið um nærbuxur og nærbuxnaverksmiðjuna sem gnæft hefur yfir hverfið svo lengi sem elstu börn muna.

— Bókin byggist á býsna óvenjulegri hugmynd, hvaðan er hún komin?

„Ég spurði son minn, sem þá var fimm ára: Jæja Þórarinn minn, ef mamma myndi skrifa sögu fyrir þig, um hvað ætti hún að vera? Við vorum búin að vera að lesa mjög mikið af Kafteini Ofurbrók svo að hann svaraði að bragði að sagan ætti að vera um nærbuxur. Og vélmenni, af því að hann er áhugamaður um vélmenni, og vélmenni sem skýtur nærbuxum. Svo þurfti ég að greiða úr þessu, varð að skrifa eftir þessari fyrirsögn. Hann fékk svo handritið í jólagjöf um síðustu jól.“

Sigmundur Breiðfjörð myndskreytir bókina og Arndís lýsir mikilli ánægju með myndir hans. „Ég hef aldrei hitt Sigmund samt, við höfum verið í tölvupóstsambandi, en hann býr í Kanada. Maður sér það svo í myndunum hvað honum hefur þótt skemmtilegt sjálfum að teikna alla þessa nærbuxnabrandara, það er svo mikill leikur í myndunum.“

— Það hlýtur líka að hafa verið skemmtilegt fyrir þig að skrifa bókina með öllum þessum orðaleikjum og útúrsnúningum.

„Maður er alltaf pínulítið hræddur um að maður sé að kenna börnunum einhverja vitleysu áður en þau læra eitthvað rétt. Það verður að fara einhvern milliveg og það verður líka að vera gaman fyrir þá sem eru að lesa fyrir börnin, en ég skrifaði söguna einmitt svolítið til þess að vera lesin upphátt. Ég vildi hafa umfjöllunarefni sem höfðaði til fimm til sjö ára barna, en textinn er þungur þannig að sagan virkar alveg fyrir eldri krakka.“

Brókarflokkur í aðsigi

— Sérðu fyrir þér að þessi bók sé byrjun á einhverju?

„Ég vona það. Þegar ritstjórinn minn nefndi brókarflokk þá var ekki hægt annað en að taka undir það, við Sigmundur erum bæði til í tuskið,“ segir Arndís og skellir upp úr.

— Það kemur talsvert út af nýjum íslenskum barnabókum í ár, er uppsveifla í bókum fyrir börn?

„Já, og ég held að þetta sé afleiðing af mjög heilbrigðri umræðu síðustu tveggja ára. Í samhengi við PISA-niðurstöður og rannsóknir á lestri þá kemur hratt upp sú niðurstaða að það var bara ekki og er ekki nóg af bókum fyrir börn sem lesa mikið. Þau eru bara búin með það sem kemur út í febrúar og þá er ekkert væntanlegt mánuðum saman. Það er ekki hægt að lesa Enid Blyton endalaust árið 2018.

Ég held að að einhverju leyti sé þetta viðbragð frá höfundum og útgefendum, þetta ákall um bækur heyrist og það er mjög gott að það er að virka. Það kom í síðustu viku frétt frá Menntamálastofnun um að lesfimi væri að aukast meðal barna og þau telja að þetta hangi allt saman, öll þessi umræða, öll þessi lestrarhvatning – fólk er farið að vera meðvitað um að barnabókin skiptir máli. Það verður að vera gaman að lesa til að maður nenni að læra að lesa.“