Jóhanna M. Thorlacius
Jóhanna M. Thorlacius
Eftir Jóhönnu M. Thorlacius: "Lýsingar Önnu Rögnu á bernskuheimilinu standast ekki. Hvorki tímalína, sviðsetning, aldur né heilsa. Fyrir nú utan karakter og sál."

Mér er vandaverk á höndum að bera sannleikanum vitni eftir að óhróðri var dreift um foreldra mína, löngu látin heiðurshjón, á samfélagsmiðlum síðastliðinn vetur og rataði þaðan í fjölmiðla, vandaða og óvandaða.

Hversu þörf sem metoo-bylgjan er, þá fljóta með frásagnir sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Samviskunnar vegna verð ég að lýsa aðstæðum fjölskyldunnar til að vega á móti staðhæfingum yngri systur minnar.

Hún er fædd af yndislegu fólki, rosknum foreldrum sem hefðu getað verið amma hennar og langafi. Magnús Thorlacius var hæstaréttarlögmaður, Hanna Fossberg heimavinnandi. Hann var frímúrari, hún kenndi jóga um skeið.

Móðirin var kvíðagjörn og vínhneigð. Því fylgdi vanræksla en faðirinn elskaði konuna sína takmarkalaust og dáði þá góðu manneskju sem hún hafði að geyma. Hann var nítjándu aldar maður sem elskaði guðsgjafirnar, börnin sín þrjú, en kunni ekki að styðja þau. Amman veitti skjól og eldri systkinin nutu góðs af því en ekki yngsta barnið.

Systir mín var fíngerð eins og blómálfur, sífellt hugsi og auðvitað elskuð. Stundum var kímt yfir áráttu hjá smábarninu. En hár aldur foreldra, áfengisvandi móður og heilsubrestur þeirra beggja ollu því að hún var afskipt barn, tengslamyndun fór úr skorðum og taktvísi varð æ meir ábótavant.

Snögg umskipti urðu þegar systir mín var níu ára. Faðirinn greindist með krabbamein 1976, móðirin fann sinn innri styrk og varð að hetju fyrir hann. Hún steinhætti að drekka, fór að vinna úti allan daginn, grindhoraðist og studdi þjáða manninn sinn sem breyttist skjótt í gamalmenni. Vönduð og innileg vinátta hjónanna bara óx, þó að háöldruð amman fengi umönnun á heimilinu á sama tíma. Yngsta barnið, Anna Ragna, sat hjá nú sem fyrr.

Ég tel að hefðu aðstæður verið betri myndi systir mín hafa sprottið heil úr grasi þrátt fyrir viðkvæmt upplag sitt. Hefði hún verið sterkari að upplagi myndu ofangreindar aðstæður ekki hafa valdið henni skaða. En allt lagðist á eitt og viðkvæmt barn varð að ungmenni með knýjandi þörf fyrir útskýringar á eigin persónuörðugleikum.

Eftir andlát föðurins 1978 óx fram snefsin og ísköld unglingsstúlka. Örþreytt móðirin lamaðist 1983. Um 1985/86 hafnaði stúlkan veikburða móður sinni sem dó 1987; höfnunin náði út yfir gröf og dauða. Við álösuðum systur okkar aldrei. Seinna sagði hún frá sektarkennd yfir þessu – en þá var hún líka tilbúin með blóraböggul:

Útskýringar hennar fundu sér frjóan en fráleitan farveg þegar umræða um kynferðislega áreitni og misnotkun varð almenn um 1990. Keypt var athygli ráðgjafa sem fengu einhliða staðhæfingar, árum saman. Svo virðist sem æ sterkari sögum hafi hún dreift, sífellt víðar. Loks var henni ekki stætt á öðru en stíga fram árið 2017 og standa við orð sín.

Fyrsta fullyrðingin við mig var í símtali 1994/5, örfá hranaleg orð. „Takk fyrir að segja mér þetta,“ var mitt meðvirka svar, sjokkið var lamandi.

Eftir nokkurn tíma áttaði ég mig: Hún hafnaði móður okkar ómaklega tæpum áratug fyrr með framkomu og orðbragði; nú var komin röðin að föðurnum og það samkvæmt nýjum tíðaranda.

Ekki virtist árennilegt að ræða við systur mína, jafn hvöss og hún hafði verið í þessu símtali. Nokkur ár liðu. Hún virtist vera í góðum höndum hjá manni sínum en stygg gagnvart okkur. Ég lagði mig fram um að börnin okkar væru vinir. Við létum sem ekkert væri.

Á þessum árum frétti ég af stakri frásögn sem hún hafði birt í kvennablaði. Tvennt sló mig: Sagan er mögulega sönn en verknaður er enginn. Léttstígt barn tiplar upp í hjónarúm í myrkri og leggur hönd á eitthvað sem það þekkir ekki, auðvitað ekki. Í fáti bregðast foreldranir við eins og öll önnur hjón: Móðirin vefur barnið örmum, faðirinn baksar snöggt við að koma sér frá. Af þessu grandalausa fræi tel ég að spretti allir aðrir órar systur minnar.

Árið 2003 notaði hún tölvupóst, bað um hlustun og krafðist þess að ég héti fyrir fram stuðningi við sig. Krafan var óuppfyllanleg. Ég fór undan í flæmingi. Taldi útilokað að glíma við hana ein og bauð að við færum saman til ráðgjafa, að hennar vali, en það afþakkaði hún ítrekað.

Sjálf afþakkaði ég frekari spuna um heiðvirt fólk sem ég þekki og elska en reyndi að halda jafnframt í systur mína. Eftir nokkrar vikur birtist samt á skjánum fráleit fullyrðing um nauðgun móður okkar. Upp úr því varð ég að segja þessu rafræna samtali lokið og fá frið. Síðan höfum við varla hist. Aldrei bað ég hana að þegja enda engu að leyna.

Birting síðastliðinn vetur tiltekur þessar tvær sögur, ýktar svo um munar, og aðrar tvær enn viðurstyggilegri. Sorinn er alger. Neðst koma dylgjur um vitneskju fjölskyldunnar og áralanga þöggun. Ekkert er fjær sanni.

Lýsingar Önnu Rögnu á bernskuheimilinu standast ekki. Hvorki tímalína, sviðsetning, aldur né heilsa. Fyrir nú utan karakter og sál; þetta gæti aldrei hafa átt sér stað. Ég þarf hvorki sönnun né afsönnun. Samtíminn hirðir um hvorugt.

Ég tel að sektarkennd og vanmetakennd orsaki tilhæfulausar ásakanir systur minnar. Við hana vil ég aðeins segja eitt: Aldrei varstu sek. Hvorki þá né nú. Né heldur nokkur annar.

Hér lýkur andsvari mínu.

Höfundur er fyrrverandi vefritstjóri.