Kanada Viðbrigði að koma til Ottawa, segir Pétur Ásgeirsson.
Kanada Viðbrigði að koma til Ottawa, segir Pétur Ásgeirsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Eftir að hafa verið rúm fjögur ár í Nuuk á Grænlandi eru töluverð viðbrigði að koma til Ottawa, þar sem býr ein milljón manna.

Eftir að hafa verið rúm fjögur ár í Nuuk á Grænlandi eru töluverð viðbrigði að koma til Ottawa, þar sem býr ein milljón manna. Kanada er áhugavert land og viðfangsefnin í starfinu sömuleiðis,“ segir Pétur Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Kanada, en hann er 56 ára í dag. Pétur er Borgnesingur, sonur Ásgeirs Péturssonar sýslumanns og Sigrúnar Hannesdóttur konu hans. Á unglingsárum flutti Pétur suður með fjölskyldu sinni og fór seinna til hagfræðináms í Skotlandi. Á þrítugsaldri hóf hann störf í menntamálaráðuneytinu og seinna í utanríkisþjónustunni, þar sem hann hefur starfað í nítján ár.

„Í Kanada þekkja allir Ísland; flestir sem ég hitti hafa annaðhvort komið þangað eða eiga ættingja og vini sem verið hafa þar og fundist landið afar áhugavert. Að koma til Manitoba og kynnast mannlífi Vestur-Íslendinganna er merkilegt, en talið er að um 200 þúsund manns þar um slóðir séu afkomendur vesturfaranna. Verkefnum sendiráðsins má skipta í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi að annast tengsl við kanadísk stjórnvöld, í öðru lagi að efla viðskipti á milli landanna og í þriðja lagi að efla samskipti milli Kanada og Íslands. Við þetta bætist svo þjónusta sendiráðsins við íslenska ríkisborgara í Kanada. Varðandi viðskiptin leggjum við áherslu á viðskipti á sviði sjávarútvegs. Þar horfum við meðal annars til þess að sjávarútvegur á Atlantshafsströnd Kanada er í sókn og í því geta falist tækifæri fyrir íslenska aðila,“ segir Pétur sem er kvæntur Jóhönnu Gunnarsdóttur og eiga þau tvo syni, Ásgeir og Magnús.

„Síðustu árin hafa siglingar verið helsta áhugamálið. Við áttum bát á Grænlandi og þar sigldum við Ásgeir sonur minn víða við austurströndina og gerðum um það bók, sem við kölluðum Á norðurslóð, ferðasaga frá Grænlandi sem kom út í fyrra. Hér í Kanada höfum við hins vegar mikið siglt á Rideau Canal; skipaskurðinum fræga sem er frá 19. öldinni og er á heimsminjaskrá UNESCO.“ sbs@mbl.is