Aníta með börnunum sínum tveimur, þeim Mikael Rafni og Helen Aríu Björgvinsbörnum.
Aníta með börnunum sínum tveimur, þeim Mikael Rafni og Helen Aríu Björgvinsbörnum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á dögunum gerðist það í fyrsta sinn að kona lauk sveinsprófi í rafvirkjun með konu sem meistara. Bæði meistarinn og sveinninn segja rafvirkjun henta bæði konum og körlum. Eyrún Magnúsdóttir eyrun@mbl.is

Fyrir fjórum árum hafði Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir engin sérstök áform um að setjast á skólabekk. Engu að síður útskrifaðist hún með sveinspróf í rafvirkjun um liðna helgi. Hún er því fullgildur rafvirki og komst með útskrift sinni í hóp aðeins um 50 kvenna sem lokið hafa sveinsprófi í rafiðngreinum hér á landi. Útskriftin var söguleg fyrir þær sakir að meistari Anítu í starfsnámi sínu er einnig kona, rafvirkjameistarinn Kristín Birna Fossdal. Samkvæmt upplýsingum frá Rafiðnaðarsambandinu mun þetta vera í fyrsta sinn sem kona er meistari annarrar konu í rafiðngrein hér á landi, og jafnvel þótt víðar væri leitað. Af einhverjum ástæðum hafa rafiðngreinar eins og rafvirkjun og rafeindavirkjun höfðað frekar til karla en kvenna, en konur eru aðeins um eitt prósent félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu.

Boðin vinna á staðnum

Aníta er ánægð með að hafa fundið rafvirkjun og valið hana sem starfsvettvang, en sagan af því hvernig það atvikaðist hófst á biluðum farsíma í fæðingarorlofi.

„Ég átti á sínum tíma iPhone 4S og skjárinn á honum brotnaði. Ég var með lítið á milli handanna á þessum tíma og fannst ótrúlega dýrt að láta gera við símann. Þannig að ég pantaði skjá á netinu og skipti um hann sjálf. Það gekk upp og síminn var eins og nýr. Skömmu eftir það fór hátalarinn í símanum að stríða mér og ég ákvað að panta hátalara og skipta honum út líka. Það gekk en hljóðið virkaði samt ekki og þannig neyddist ég til að fara með hann í viðgerð.“ Hún sagði frá því á verkstæðinu að hún hefði skipt sjálf um skjá og hátalara en ekki tekist að koma hljóðinu í lag. Henni fannst viðmótið frekar sérstakt og afgreiðslumaðurinn horfði á hana eins og hún væri eitthvað skrítin. Sá sem afgreiddi hvarf svo á bak við en kom aftur og bauð henni vinnu við fjarskiptaviðgerðir. Það sem henni fannst skrítið viðmót var þá miklu frekar undrun yfir því hversu vel henni hafði tekist til við að skipta um skjáinn og hátalara. Í ljós kom að það hafði verið móðurborðið í símanum sem var bilað, þannig að nýr hátalari hefði ekki dugað til.

Þá segist Aníta hafa hugsað með sér: „hvað ef ég gæti lagað móðurborðið í símanum mínum sjálf?“ og hún lét ekki þar við sitja heldur skráði sig í nám í rafvirkjun eftir að hafa unnið á áðurnefndu verkstæði við viðgerðir á farsímum og fjarskiptatækjum í nokkra mánuði. Hún byrjaði í kvöldskóla með vinnu haustið 2014 en fór svo í fullan dagskóla og lauk náminu á methraða. Nú, haustið 2018, hefur hún lokið bóklega náminu, námssamningi og sveinsprófi og er orðin rafvirki.

Í skólanum fékk hún kynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur og fannst áhugavert og spennandi að fara að starfa þar, við ansi mikið stærri vélbúnað en síma og spjaldtölvur sem hún hafði kynnst viðgerðum á í upphafi. Hún hóf störf hjá Orku náttúrunnar (ON) fyrir einu og hálfu ári, fyrst meðfram skóla en nú í fullu starfi sem rafvirki.

„Þegar ég kem í viðtal hjá ON þá var það eiginlega ákveðið þar og þá að Stína yrði minn meistari og fyrir mér var það miklu meira spennandi en að fá karlmann. Hún er bráðgáfuð, ótrúlega fyndin, algjör snillingur og í dag mín helsta fyrirmynd í þessum geira.

Það skemmtilegasta við starfið er hvað það er fjölbreytt. Vélarstoppin finnst mér skemmtilegust, þá eru allir á hlaupum og allt stappað af starfsfólki sem keppist við að vinna hratt og hörðum höndum. Annars hef ég mikið verið í að laga og smíða stýriskápa fyrir gufuveituna en núna upp á síðkastið hafa dagarnir einkennst af miklum lagfæringum og breytingum vegna úttektar. Ég vissi ekkert hvað ég var að koma mér út í þegar ég skráði mig í þetta nám, en með tímanum þá einhvern veginn hefur þetta vaxið með mér og áhuginn verður alltaf meiri og meiri. Það er fátt meira spennandi en að vinna á svona stórum vinnustað með svona stórar vélar og í raun frekar hættulegu umhverfi. Það er ákveðin spenna sem felst í því.“

Hún segist líka kunna vel við það, sem áhugamanneskja um allt sem tengist rafmagni, að starfa alveg við uppsprettuna þar sem rafmagnið er framleitt. „Þegar ég var í skólanum var ég ekkert farin að hugsa svona langt. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera við þetta nám og það var ekki fyrr en ég fékk kynninguna í skólanum sem ég ákvað að mig langaði að starfa hjá Orku náttúrunnar. Umfram það fékk ég einnig kynningu á háskólum í Danmörku og þá var það rafmagnstæknifræði sem greip mig,“ en hún segir kennara sína við Fjölbrautaskólann í Breiðholti hafa hvatt sig til að kynna sér frekara nám. Í vor heldur hún til Danmerkur með börnin, sem nú eru orðin tvö, í háskólanám.

Fann sig ekki í menntaskóla

Aníta, sem nú er 27 ára, fór eins og svo margir í hefðbundinn framhaldsskóla strax að loknu skyldunámi en fann sig aldrei þar og hætti. „Ég byrjaði að flakka á milli brauta í menntaskóla en fann mig aldrei almennilega, svo einhvern veginn rataði ég á rangan veg í lífinu og flosnaði upp úr skóla.“ Hún flutti síðan til útlanda en kom heim þegar hún varð ólétt. Og það var einmitt í fæðingarorlofi með því barni sem hún kynntist rafvirkjuninni.

Þá fann hún í fyrsta sinn nám sem hún tengdi við og henni fannst skemmtilegt.

„Svo fór ég í þetta nám, þá varð allt skýrara. Ég sá þarna leið til að búa mér og barninu mínu góða framtíð. Alveg frá því ég var barn hef ég alltaf verið góð í öllu svona verklegu. Allt sem tengist því að nota hugann og vinna með höndum hefur verið heillandi fyrir mér. Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla var ég yfirleitt að gera eitthvað sem mér þótti síður skemmtilegt og ég hugsa oft að ef maður hefði haft gaman af því sem maður var að læra, þá hefði maður kannski enst í náminu.“

Kynningu ábótavant

Hún telur að oftar en ekki vanti kynningu á námi sem er í boði fyrir ungt fólk. Henni hefði til dæmis aldrei dottið í hug að fara í rafvirkjun ef ekki væri fyrir það að henni var fyrir tilviljun boðið starf á fjarskiptaverkstæði.

„Þegar ég hugsa til baka þá sé ég hvað það vantaði að kynna betur hvað maður gæti gert. Maður bara fer í einhvern framhaldsskóla og maður á að fara að læra eitthvað og maður veit ekki neitt. Maður er ekkert upplýstur eða fræddur um það almennilega hvert hver braut leiðir mann.

Þegar ég byrjaði að læra rafvirkjun var hver einasti tími í skólanum spennandi og skemmtilegur. Við fengum að gera svo margt í skólanum; hanna stýringar fyrir allskonar færibönd sem fóru þvers og kruss, tengdum umferðarljós, smíðuðum fm-sendi og spennugjafa og alls konar. Allt mjög gaman. Og ég fékk líka að prófa svo mikið meðan ég var á námssamningi hjá ON. Þá vann ég í götuljósum, húsarafmagni, virkjunum, veitum, ljósleiðara og bara öllu. Það er mikilvægt að prófa sem flest,“ segir Aníta, sem ekki hikar við að mæla með faginu fyrir ungt fólk sem er að velta fyrir sér námi.

„Rafmagnið er svo skemmtilegt og fjölbreytt. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvað rafmagnið er stór hluti af okkar lífi. Rafmagnið er hvar sem við erum, allar byggingar, tæknin, skólarnir, bílarnir – allt er háð rafmagni. Þú getur unnið við svo margt. En rafmagn er aldrei einfalt. Maður þarf alltaf að einbeita sér og hugsa um hvað maður er að gera,“ segir þessi nýbakaði rafvirki.