[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 3.11. 1958 og ólst upp í Skrauthólum á Kjalarnesi.

Ragnheiður Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 3.11. 1958 og ólst upp í Skrauthólum á Kjalarnesi. Hún gekk í barnaskólann á Klébergi og lauk síðan landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit, stúdentspróf tók hún frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og útskrifaðist sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands 1982. Auk þess stundaði hún nám í almennri bókmenntafræði og lögfræði við HÍ.

Ragnheiður var fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar veturinn 1982-83 og starfaði þar einnig veturna '83-'84 og '88-'89. Hún lék síðan hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Alþýðuleikhúsinu og ýmsum frjálsum leikhópum auk leiks í útvarpi og sjónvarpi til ársins 1996. Meðfram leikarastarfinu kenndi Ragnheiður leiklist í grunn- og framhaldsskólum og leikstýrði sýningum hjá áhugamannaleikfélögum og í framhaldsskólum. Hún starfaði einnig á skrifstofu Félags íslenskra leikara og hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga. Árin 1992-1994 gegndi Ragnheiður hlutastarfi sem sérfræðingur í Lista- og safnadeild menntamála-ráðuneytisins. 1994-1996 vann hún með Gunnari Steini Pálssyni við almannatengsl hjá GSP-almannatengslum. Ragnheiður tók við framkvæmdastjórn Rithöfundasambands Íslands í ársbyrjun 1996.

Ragnheiður sat þrjú tímabil í Leiklistarráði og í fimm ár var hún í sérfræðinganefnd á vegum Norrænu menningargáttarinnar. Hún sat í valnefnd Evrópska rithöfundaráðsins í 12 ár þar af formaður í 6 ár. Auk þessa hefur Ragnheiður setið í ýmsum starfshópum og ráðum innan lands sem utan á vegum Rithöfundasambandsins.

„Ég er mikill lestrarhestur, var orðin fluglæs fyrir fjögurra ára afmælið og er eiginlega alæta á lesefni. Ég get t.d. nánast fullyrt að ég hafi lesið eitthvað eftir alla félagsmenn Rithöfundasambandsins en þeir eru nú tæplega 550. Og nú er ég í leshring með frábærum og litríkum hópi kvenna og þar detta stundum inn bækur sem ekki hafa áður orðið á vegi mínum en opna nýja og óvænta sýn.

Leiklistin skipar auðvitað stóran sess í lífi mínu þó að ég hafi lagt hana á hilluna sem starfsvettvang fyrir rúmum tuttugu árum. Við bekkjarsystkinin úr Leiklistarskólanum, G-bekkurinn, hittumst þegar við getum enda varla til skemmtilegri hópur. Fjölskyldan er nánast öll viðriðin geirann og stundum eru þau með svo mörg járn í eldinum að ég sé fátt í leikhúsunum annað en það sem mín allra nánustu eru að sýsla við.

Við hjónin vorum lengi búin að velta fyrir okkur áhugamáli sem við gætum stundað með börnunum okkar, Hirti og Siggu Láru. Við gengum saman Laugaveginn með Ferðafélagi Íslands þegar þau voru 9 og 13 ára og þá varð ekki aftur snúið. Síðan höfum við ferðast vítt og breitt um hálendið, vaðið firði og klifið fjöll. Við Jón vorum síðan svo ótrúlega heppin að komast í félagsskap Trimmklúbbs Seltjarnarness – TKS en þar starfar öflugur gönguhópur sem fer a.m.k. eina fimm til sex daga göngu á hverju sumri auk þess að fara krefjandi ferðir að vorlagi. Þetta er harður kjarni 45-55 manna og kvenna sem víla fátt fyrir sér þegar kemur að þrekraunum til fjalla. Þarna er líka á ferðinni þvílíkt samansafn af skemmtilegum og fróðum einstaklingum að leit er að öðru eins.

Svo má ég ekki gleyma að minnast á saumaklúbbinn minn sem á aldur sinn að rekja aftur til áranna í MH. Við eigum allar sextugsafmæli á árinu en ég er yngst, næsta vor stefnum við á stelpuferð til útlanda til að fagna áfanganum saman.

Og síðast en ekki síst, Jón Egill sonarsonur minn er núna þriggja og hálfs, við erum bestu vinir og það allra skemmtilegasta sem ég veit er að eiga með honum stundir.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ragnheiðar er Jón J. Hjartarson f. 20.1.1942, leikari og rithöfundur. Þau giftu sig 21. maí 1988 eftir 6 ára sambúð. Foreldrar Jóns. Hjörtur Jónsson, f. 28.10. 1902, d. 10.8 1963, útvegsbóndi og hreppstjóri á Hellissandi, og k.h. Jóhanna Vigfúsdóttir, f. 11.6. 1911, d. 29.4. 1994, organisti og húsfreyja á Hellissandi..

Börn Ragnheiðar og Jóns eru: 1) Hjörtur Jóhann, f. 29. 5. 1985, leikari í Reykjavík, kona hans er Brynja Björnsdóttir leikmyndahönnuður, sonur þeirra er Jón Egill Hjartarson, f. 29.4. 2015; 2) Sigríður Láretta, f. 20.10. 1988, leikari og háskólanemi í Reykjavík.

Stjúpdætur Ragnheiðar eru 1) Helga Braga Jónsdóttir, f. 5.11. 1963, leikari og flugfreyja; 2) Ingveldur Ýr Jónsdóttir, f. 26.7. 1966 óperusöngkona, hennar maður er Ársæll Hafsteinsson, dóttir Ingveldar er Jasmín Kristjánsdóttir, f. 11.3. 1999; 3) Jódís Jóhannsdóttir, f. 5.2.1966, bókari.

Bræður Ragnheiðar eru Grétar Tryggvason, f. 1956, prófessor í vélaverkfræði og deildarforseti Mechanical Engineering við Johns Hopkins-háskólann í Bandaríkjunum, kona hans er Elfa Jónsdóttir myndlistarmaður, og Stefán Tryggva- og Sigríðarson, f. 1957, lífskúnstner og eigandi Hótel Natur við Eyjafjörð, kona hans er Inga Margrét Árnadóttir, eigandi Hótel Natur. Hálfsystkini, samfeðra: Ásta, f. 1923, d. 2011, Gunnar, f. 1924, d. 1984, Láretta, f. 1926, d. 1993, Svanhvít, f. 1927, d. 2016, Jón Leví, f. 1937 og Erla, f. 1945.

Foreldrar Ragnheiðar: Tryggvi Stefánsson, f. 30.10. 1898, d. 2.10. 1982, bóndi í Skrauthólum á Kjalarnesi, og k.h. Sigríður Arnfinnsdóttir, f. 20.6. 1922, d. 18.4. 2006, bóndi og húsfreyja í Skrauthólum.