Fjóla Sveinbjarnardóttir fæddist á Seyðisfirði 11. júní 1935. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Seyðisfirði 29. október 2018.

Foreldrar hennar voru Sveinbjörn Jón Hjálmarsson verkamaður, f. 28.12. 1905, d. 5.12. 1974, og Guðrún Ásta Sveinbjörnsdóttir, f. 31.10. 1911, d. 9.6. 2002.

Fjóla ólst upp á Seyðisfirði í hópi fjögurra systkina, þeirra Baldurs Guðbjarts, f. 30.1. 1929, d. 6.4. 2012, Ingu Hrefnu, f. 2.1. 1932, Jóhanns Björns, f. 18.2. 1934, Ástrúnar Lilju, f. 14.9. 1951 og fóstursystur Árdísar Bjargar Ísleifsdóttur, f. 24.8. 1951.

Fjóla lauk hefðbundnu námi við Gagnfræðaskóla Seyðisfjarðar og vann síðan ýmis störf, s.s. síldarverkun o.fl. Aðalstarf hennar til margra ára var þó við Landssíma Íslands á Seyðisfirði, þar sem hún gegndi starfi sem almennt var kallað „símadama“.

Þann 28. desember 1958 giftist Fjóla Guðmundi Hannesi Sigurjónssyni frá Eskifirði, sem fæddur var 24. júlí 1931. Guðmundur lést 14. mars 2014.

Börn þeirra eru: 1) Ásta Jóna, f. 4.11. 1959. Hennar maður er Þorvaldur Benediktsson Hjarðar, f. 28.9. 1959. Börn þeirra eru: 1. Hekla Hrönn, f. 1.8. 1991, hennar sambýlismaður er Brynjar Árnason. 2. Benedikt Burkni, f. 26.9. 1997, hans unnusta er Snædís Birta Höskuldsdóttir. 3. Salka Sif, f. 21.6. 1999. 2) Sigurjón Andri, f. 7.9. 1963. Hans kona er Jóna Margrét Valgeirsdóttir, f. 16.1. 1964. Hennar dóttir er Ólína Halla Þrastardóttir, f. 10.6. 2000. Dóttir Sigurjóns Andra og Christu Hörpudóttur, f. 15.8. 1981, er Tara Lovísa, f. 12.6. 2008. 3) Ingibjörg Sóley, f. 26.6. 1966. Hennar maður er Guttormur Bergmann Kristmannsson, f. 26.9. 1967. Þeirra börn eru: 1. Guðmundur Andri, f. 26.3. 1991. Hans sambýliskona er Anna Hjálmveig Hannesdóttir. Dóttir Guðmundar Andra er Birgitta Brá, f. 4.5. 2011. 2. Jón Otti, f. 17.2. 1993. Hans unnusta er Katarzyna Szulz. 3. Guðný Sól, f. 12.7. 1998. 4. Fjalar Tandri, f. 29.9. 2000. 5. Alexandra Björt, f. 29.9. 2000. Hennar unnusti er Reynir Birgisson. 4) Hildur Björk, f. 19.2. 1970. Hennar maður er Brynjar Guðmundsson, f. 10.8. 1967. Þeirra börn eru: 1. Tanya Brá, f. 19.8. 1989. Hennar sambýlismaður er Vignir Karl Gylfason. Sonur þeirra er Brynjar Hrafn, f. 19.11. 2017. 2. Katla Mist, f. 25.8. 1991. Hennar sambýlismaður er Elmar Bragi Einarsson. 3. Fjóla Rún, f. 25.5. 1996. 4. Brynja Björk, f. 9.7. 2000. 5. Brimar Breki, f. 21.12. 2003.

Útför Fjólu verður gerð frá Seyðisfjarðarkirkju, í dag, 3. nóvember 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Kæra systir.

Nú er langur tími liðinn frá því við systkinin ólumst upp úti á Hæð. Þar ríkti meira frelsi en inni í bæ til ýmissa athafna vegna hæfilegrar fjarlægðar frá miðbænum. Á stríðsárunum gátum við staðið úti á hlaði og horft til himins þegar þýskir flugu yfir og loftið logaði þegar loftvarnabyssurnar tóku á móti þeim. Þá ríkti stemning gamlárskvölda. En stríð er hættulegt og því vorum við send í skjól frá því að Nesi í Loðmundarfirði. Þar var gott að vera hjá góðu fólki og dýrunum. En frá Nesi gátum við líka fylgst dálítið með djöflagangi stríðsins þegar skip komu út úr fjarðarmynni Seyðisfjarðar og lentu stundum í skotbardaga við kafbáta. Einn fagran dag flaug svo þýsk orrustuflugvél lágt yfir okkur þar sem við vorum að þurrka hey úti á bæjartúninu. Flugmennirnir veifuðu okkur og við á móti. Síðan flugu þeir í austur og sáust ekki meir.

Ekki fyrir löngu síðan minntir þú mig á það þegar við fórum eitt kvöld að sækja kýrnar úti við Neshjáleigu, í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Nesi. Á milli bæjanna lentum við í kolniðamyrkri, fundum ekki kýrnar og töpuðum áttum. Kolsvarta kisan Nellí, sem ég bar í fanginu, varð óróleg og slapp frá mér. Við héldum að hún væri okkur þá að eilífu glötuð.

Skyndilega birtist fyrir framan okkur skært ljós sem var á stærð við golfkúlu. Við gengum í átt að þessu ljósi, en það hreyfðist alltaf á undan okkur. Ljós þetta eltum við í nokkra stund, þangað til hóað var utan úr myrkrinu. Þar voru komnir að leita að okkur, húsbændurnir af Nesi, Baldur og Ottó. Þeir fylgdu okkur síðan heim, þar sem kisan Nellí tók á móti okkur.

Þegar farið var að skoða leiðina sem við höfðum elt ljósið, kom í ljós að hefðum við gengið örlítið aðra slóð hefðum við lent fram af klettum, og þá ekki aftur í þessu lífi hitt kisuna Nellí.

Þetta var þó ekki í eina skiptið sem þú slappst naumlega frá voðanum. Rigningarsumarið 1951, 19. ágúst, féllu skriður úr Strandartindi. Inga systir okkar sá að ein skriðan stefndi á Hæðarhúsið sem þið voruð einar í. Hún dreif þig með sér niður Hæðarbrekkuna, á undan skriðunni. Á leiðinni hélst þú að skriðan næði ykkur og vildir því snúa til baka inn í húsið, sem þú hefðir ekki náð. Inga reif þig með sér og þið björguðust.

Brandur kisinn okkar hljóp mjálmandi með ykkur og bjargaði sér sjálfur.

Fjóla mín, ég á svo ótalmargar minningar um þig sem ég hefði viljað minnast á, en ásláttarbilin takmarka það, líkt og dagarnir sem okkur eru skammtaðir.

Að lokum þakka ég þér allt og allt, og ekki síst alla þína snilldar-handavinnu. Á því sviði varst þú sannur snillingur.

Við Svava og fjölskyldur okkar sendum öllu þínu fólki samúðarkveðjur.

Megir þú svífa á vængjum morgunroðans til betri heima, þar sem vinir bíða í varpa.

Jóhann B. Sveinbjörnsson.

Þú elskaða systir ert sofnuð rótt

söknuður hjartað sker

þín umhyggja gaf mér þor og þrótt

til þín var gleðin og traustið sótt

þinn vorhugur vakti yfir mér.

Hjartans þökk fyrir ástríkið allt

almættið fylgi þér.

Við sjáum löngum hvað lífið er valt

á leiðinni skiptist á heitt og kalt

uns ævinni lokið er.

Við sjáumst aftur systir mín

í sælu á himneskri strönd.

Morgunninn kemur myrkrið dvín

meira ljós yfir veginn skín

þar tengjumst við hönd í hönd.

Í sælum guðsfriði sofðu rótt

sorgin að lokum dvín.

Dreymi þig bæði blítt og rótt

svo býð ég úr fjarlægð góða nótt

sofnaðu systir mín.

(Sveinn Ingimundarson)

Elsku yndislega og góða Fjóla systir, ég kveð þig með ljóði sem langömmu- og langagafabróðir kvaddi systur sína með fyrir alllöngu síðan og geri það að mínu.

Þó að við systur kynntumst ekki fyrr en þú fluttir aftur heim á Seyðisfjörð og ég þá orðin unglingur urðum við góðar vinkonur, það var mikill heiður að fá að fara út að labba með þriðja barnið þitt, ég var svo montin með það.

Seinna þegar ég eignaðist mín börn varstu alltaf til staðar fyrir mig og börnin mín, fyrir það verð ég þér alltaf þakklát

Takk fyrir alla kjólana sem þú saumaðir á Guðrúnu mína, þig munaði ekki um að sauma fjórða kjólinn þegar þú varst að sauma á dætur þínar enda var myndarskapurinn þinn í hannyrðum ótrúlegur, það lék allt í höndum þínum.

Takk fyrir okkar samveru eftir að báðar urðum fullorðnar og náðum mjög vel saman og urðum vinkonur þrátt fyrir aldursmuninn sem ég fann ekki fyrir með aldrinum.

Elsku kæra systir, nú ertu komin til Mumma þíns og allra þeirra sem farnir eru frá okkur, efast ég ekki eitt augnablik um að það hefur verið tekið vel á móti þér af þeim öllum, berðu þeim öllum kveðju mína.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Augun þreyttu þurftu að hvíla sig.

Það er stundum gott að fá að sofa.

Armar drottins umlykja nú þig,

okkar er að tilbiðja og lofa.

Við þér tekur annað æðra stig,

aftur birtir milli skýjarofa.

Enginn fær flúið örlögin sín

aldrei ég þér gleymi.

Nú ert þú sofnuð systir mín

sæl í öðrum heimi.

Hlátra og hlýju brosin þín

í hjarta mínu geymi.

(Haraldur Haraldsson) Ástarkveðja frá Lillu systur og fjölskyldu.

Ástrún Lilja

Sveinbjarnardóttir.

Ég vil með örfáum orðum kveðja kæra systur mína. Síðustu ár Fjólu voru henni mjög erfið. Óhætt er að segja að lausn sé þá lokið er þungum þrautum.

Það er margs að minnast og margs að sakna eftir meira en áttatíu ár. Okkar samband var alltaf gott og traust eins og okkar allra systkinanna. Fjóla var alltaf kát og hress þrátt fyrir þá fötlun sem hún bjó við allt frá fæðingu, lét það síður en svo hefta sig í leik eða starfi.

Ekki hef ég orð þessi fleiri. Allt það sem ósagt er, allar samverustundir og minningar geymi ég í hjarta mér.

Ég sendi fjölskyldum Fjólu innilegar samúðarkveðjur og bið þeim guðs blessunar.

Sem kona hún lifði í trú og tryggð;

það tregandi sorg skal gjalda.

Við ævinnar lok ber ást og dyggð

sinn ávöxtinn þúsundfalda,

og ljós þeirra skín í hjartans hryggð

svo hátt yfir myrkrið kalda.

Sem móðir hún býr í barnsins mynd;

það ber hennar ættarmerki.

Svo streyma skal áfram lífsins lind,

þó lokið sé hennar verki.

Og víkja skal hel við garðsins grind,

því guð vor, hann er sá sterki.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson)

Ljóðlínur þessar er hér fylgja veit ég að eiga vel við hana systur mína.

Ég kveð þig með miklum söknuði, elsku systir, og ég veit að Mummi stendur á ströndinni og tekur á móti þér þegar þú leggur að landi á eilífðar ströndinni.

Þín saknandi systir,

Inga Hrefna.