Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Hér á hið fornkveðna við sem Gunnlaugur ormstunga mælti við Eirík jarl. „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir.“"

Alveg er það nú makalaust hvað við sem þjóð eigum aðgang að síauknum lífsgæðum til að efla og bæta hvern einasta dag. Lengi vel voru það sundlaugarnar og íþróttahúsin sem veittu okkur sérstöðu. Hins vegar hefur orðið bylting með tilkomu líkams- og heilsuræktarstöðvanna sem svo eru nefndar með tækjum og tólum, brettum og íþróttakennurum sem þjálfa og kenna fólki að halda utan um sinn skrokk og sína sál og mataræði, gerist þess þörf. Ég fullyrði að í þessum stöðvum eru ungir og miðaldra að efla sitt vinnuþrek og lífsgæði. Hinir sem eldri eru vinna gegn hrörnun og ellinni, ungir eflast, eldri yngjast upp.

Þessar stöðvar eru jafn mikilvægar og heilbrigðiskerfið, stórspara ríkinu fé, forða fólki frá sjúkdómum og hrörnun og það væri hægt að spara enn meiri peninga með því að vísa stórum hópum sjúkra inn á þessar stöðvar í hendur fagfólks sem kann til verka í stað þess að segja sjúklingunum að sitja heima og bryðja töflur. Þessar stöðvar vinna að endurhæfingu og hafa bjargað mörgum frá einum erfiðasta sjúkdómi samtímans, offitunni.

Það væri verðugt verkefni ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs að ná saman um virka lýðheilsustefnu sem væri byggð á almennri iðkun líkamsræktar. Í líkamsræktarstöðvunum eru allar kynslóðir, þar er gleði í fyrirrúmi, þar finna allir eitthvað við sitt hæfi. Þar kemur fagfólk við sögu og fetar fyrstu sporin með einstaklingum og hópum.

Og mér er sagt að það sé aldrei of seint að byrja og það sést best á háöldruðu fólki, þar eru áttræðir og níræðir sem mæta reglulega, fólk í góðu formi og beint í baki. Eftir sextugt rýrna vöðvarnir nema unnið sé gegn hrörnuninni með svita og „lóðum“ og teygjurnar vinna gegn þeirri bóndabeygju sem maður sá aldraða í forðum daga. Hér á hið fornkveðna við sem Gunnlaugur ormstunga mælti við Eirík jarl. „Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir.“

Líkamsræktarstöðvarnar og íþróttakennararnir og fagfólk sem er til þjónustu reiðubúið vinnur kraftaverk með öllum kynslóðum, en mest er ánægjan hjá þeim eldri sem bæta lífi við árin og árum við lífið. Lífið er nefnilega dauðans alvara og það er skylda okkar allra að rækta sál og líkama jafnvel enn frekar þegar árin færast yfir. Allir vilja eldast en enginn vill verða gamall og við því eru mörg ráð í dag. Besta ráðið er að skora sjálfan sig á hólm og byrja í líkamsrækt strax.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.